Hjón hlutu samfélagsverðlaun
Samfélagsverðlaun Skagafjarðar voru veitt í níunda sinn við setningu Sæluviku Skagfirðinga á dögunum.
Verðlaunin fóru að þessu sinni til hjónanna Árna Björns Björnssonar og Ragnheiðar Ástu Jóhannsdóttur en verðlaunin eru veitt þeim einstaklingi, fyrirtæki, stofnun eða félagasamtökum í Sveitarfélaginu Skagafirði, sem þykja standa sig afburða vel í að efla skagfirskt samfélag.
Það var einróma álit atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar sveitarfélagsins að þau Árni Björn og Ragnheiður Ásta væru einstakar fyrirmyndir.
„Þau styðja dyggilega við íþróttastarfið í Skagafirði og eru ávallt fyrst til að bjóða fram hjálp þegar einhver þarf á að halda og hafa þau margoft staðið fyrir söfnunum fyrir fjölskyldur og fyrirtæki í neyð.
Með dugnaði, frumkvæði, hjálpsemi, samhygð og góðu hjartalagi stuðla þau einnig að samheldni í samfélaginu okkar.
Þau eru ein af ástæðum þess að það er gott að búa í Skagafirði og við getum verið stolt af því að tilheyra svo frábæru samfélagi því þau hvetja okkur hin til þess að verða betri einstaklingar,“ segir á vef Sveitarfélagsins Skagafjarðar.