Hnignun beitarlands í Mongólíu
Sumjidmaa Sainnemekh varði fyrir skömmu doktorsritgerð sína á sviði umhverfisfræða við deild Náttúru og skóga við Landbúnaðarháskóla Íslands.
Ritgerðin ber heitið Hnignun beitilanda í Mongólíu – mynstur og drifkraftar (e. Patterns and drivers of rangeland degradation in Mongolia).
Meginmarkmið verkefnis voru að taka saman fyrri rannsóknir á hnignun beitilanda í Mongólíu og meta og draga saman með kerfisbundnum hætti upplýsingar um hvernig mismunandi rannsóknir greindu hnignun, á hvaða fræðilega grunni þær byggðu og hverjir voru orsakavaldar hnignunar, ásamt landfræðilegri dreifingu þessara rannsókna, að greina leitni gróðurfarsbreytinga í mongólskum beitilöndum með því að nýta langtíma vöktunargögn sem ná yfir stór svæði og að meta orsakir gróðurfarsbreytinga yfir um 10 ára tímabil á gresjum Mongólíu út frá nákvæmum mælingum á gróðurfari.
Á undanförnum áratugum hafa komið fram alvarlegar áhyggjur af sívaxandi hnignun beitilanda í Mongólíu. Skilningur á hnignun beitilanda og mat á langtíma þróun gróðurfarsbreytinga er nauðsynleg undirstaða fyrir þróun leiða til sjálfbærrar nýtingar á þeim. Beitilönd í Mongólíu eru um 2,5% af heildarþekju graslendis í heiminum og eru talin vera á meðal síðustu beitilanda heimsins sem eru óröskuð. Þau ná yfir meginhluta Mongólíu og tengist beit búpenings á beitilöndum lífsviðurværi nærri helmings mongólsku þjóðarinnar.