Hráefnisskortur í framleiðslu jóladagatala
Lionsklúbburinn Freyr tilkynnti í vikunni að ekkert verði af árlegri sölu jóladagatala klúbbsins.
Jóladagatölin, þekkt með Tanna og Túpu, sem innihalda súkkulaðimola og tannkremstúpu, hafa verið öflug fjáröflunarleið margra Lionsklúbba víða um land.
Í tilkynningu frá Lionsklúbbnum Frey er ástæðan hráefnisskortur hjá framleiðanda.
„Lionsklúbburinn Freyr hóf innflutning á þessum jóladagatölum fyrir rúmum fimmtíu árum, fyrst í smáum stíl, en vinsældir þeirra reyndust slíkar að segja má að þau hafi um tíma verið á næstum hverju heimili á landinu og með þátttöku annarra klúbba.
Fjáröflun þessi, sem öll rennur til líknarmála, gerði Lions klúbbnum Frey kleift að styðja við og styrkja starf fjölda margra líknarfélaga, einkum þeirra þar sem hjálpar við tækjakaup var þörf. Sem dæmi má nefna ýmsar deildir Landspítalans, þjónustuíbúðir DAS, Styrktar- félag vangefinna, Gigtarfélagið, björgunarsveitir auk tuga annarra,“ segir í tilkynningunni.