Hugmyndasamkeppni um þjóðlega rétti
Matarauður Íslands og Hótel- og matvælaskólinn efna til hugmynda- og uppskriftasamkeppni um þjóðlega rétti við þjóðvegina okkar. Er þetta gert undir spurningunni „Þjóðlegir réttir á okkar veg - ertu með?“
Keppnin stendur til 1.mai næstkomandi. Hægt er að lesa nánar um samkeppnina og skrá hugmynd eða uppskrift á www.mataraudur.is. Úrval uppskrifta og hugmynda verða birtar á vef Matarauðs Íslands 11. maí og þar verður hægt að líka við hugmyndirnar og deila á samfélagsmiðlum.
„Það getur verið erfiðleikum bundið að skilgreina hvað sé þjóðlegur matur. Vissulega getum við leitað til hefðanna og sagt sem svo: Þetta er þjóðlegt, þetta er íslenskt. Það er hins vegar hluti þess að lifa í samfélagi að taka hlutina til endurskoðunar öðru hverju og þróa í takt við tíðarandann. Tökum höndum saman og tengjum umræður næstu daga við íslenskt hráefni og matarmenningu. Deilum matarminningum með hvert öðru og sjáum hvaða hugmyndir þjóðin kemur með,“ segir í tilkynningu um keppnina.
Það má senda inn hefðbundnar og óhefðbundar hugmyndir, í gömlum eða nýjum búningi. Okkar skilningur er þó að þjóðlegir réttir spretta alltaf upp úr íslensku hráefni. Sérstaklega verður tekið tillit til þess ef saga á bak við réttinn fylgir með.
Hótel- og matvælaskólinn eldar og reiðir fram 15 valda rétti úr innsendum hugmyndum fyrir dómnefnd. Fimm réttir standa síðan upp úr sem vinningsréttir. Veitingahús í kringum landið í eru í samstarfi við Matarauð Íslands og velja einn af þeim 15 réttum sem komast í undanúrslit, á matseðilinn sinn í sumar.
Samhliða þessu átaki er fólki boðið að skrá matarminningar sínar og hægt er að gera það á mataraudur.is