Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Dalrún fyrir utan heimili sitt í Mosfellsdalnum.
Dalrún fyrir utan heimili sitt í Mosfellsdalnum.
Mynd / SP
Líf og starf 30. september 2022

Huldufreyjur Dalrúnar

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Sagnfræðingurinn Dalrún Kaldakvísl Eygerðardóttir útskrifaðist með doktorspróf í sagnfræði nú í sumar, en doktorsrannsókn hennar fjallar um ráðskonur sem störfuðu á íslenskum sveitaheimilum á síðari hluta 20. aldar. Rannsóknin byggði á viðtölum sem hún tók við fyrrum ráðskonur, er miðluðu upplifun sinni af ráðskonustarfinu, alls 41 talsins.

Dalrún er sérfræðingur í munnlegri sögu en slík söguleg nálgun felur í sér að taka viðtöl, greina þau og miðla niðurstöðunum í rituðu máli. Aðspurð bendir hún á að saga kvenna hafi í gegnum tíðina ekki fengið hljómgrunn til jafns við sögu karlmanna og því mikilvægt að sagnfræðingar ljái konum þá rödd sem eðlilegt er að þessi helmingur mannkyns hafi í sögunni. Í þeirri vegferð er mikilvægt að nýta viðtalsformið eftir mætti í rannsóknum á sögu kvenna enda þeim hvað þýðastur tjáningarmáti

„Konur sem gegndu ráðskonustarfinu í sveitum landsins á seinni hluta 20. aldar eru nú komnar á aldur og því nauðsynlegt að bregðast við og skrásetja sögu þeirra kvenna áður en þær hverfa af sjónarsviðinu – forða ráðskonusögunni frá glötun.“

Dalrún segir það vera mikil forréttindi fyrir hana sem sagnfræðing að hafa fengið tækifæri til að ræða við fyrrum ráðskonur Íslands og heyra merkilegar lífssögur þeirra. Áður en hún hóf rannsóknina var saga ráðskvenna lítt þekkt og heimildirnar mjög takmarkaðar, jafnvel þó svo að ráðskonustéttin sé ein elsta kvennastarfsstétt hérlendis.

Þess ber að geta að Dalrún rannsakaði einnig forsögu ráðskonu - starfsins allt aftur til 1850 til þess að fá mynd af þróun þess, allt frá tímum gamla bændasamfélagsins

Doktorsrannsóknin miðlar þannig ekki aðeins fróðleik um ráðskonustarfið heldur gefur einnig þýðingarmikla innsýn í uppbyggingu samfélagsins á síðari hluta 20. aldar.

Ekki síst innsýn í stöðu einstæðra mæðra á síðari hluta 20. aldar – því langflestar konur sem sinntu ráðskonustörfum á því tímabili voru ungar einstæðar mæður sem fóru í slíka vist með börn sín með sér.

Í rannsókninni skoðaði Dalrún félagslega stöðu kvenna sem voru ráðskonur, bæði áður en þær réðu sig í vistina og á meðan vistinni stóð. Hún lagði einnig mikla áherslu á að skilgreina ráðskonustarfið með hliðsjón af starfsskyldum og stjórnunartengdum þáttum er í starfinu fólust.

Rótgróin kynjaskipting

„Áhugi minn á viðfangsefninu, kviknaði vegna föðurömmu minnar – hún starfaði sem ráðskona á nokkrum sveitabæjum með börn sín með sér – pabbi minn var sem sagt ráðskonubarn,“ segir Dalrún og bætir við að hana hafi langað að vita hvers vegna konur, á síðari hluta 20. aldar, sóttust í að flytja úr þéttbýli í dreifbýli til að sækja sér vinnu. Á tímum þegar atvinnumöguleikar þeirra í þéttbýlinu höfðu aldrei verið meiri. Spurningin var; Hvað stóð að baki þessum flutningum?

Eftirspurn eftir ráðskonum segir Dalrún að megi útskýra á fleiri en einn veg. Vinnuveitendur ráðskvenna voru langoftast einhleypir miðaldra bændur, sumir voru piparkarlar, aðrir fráskildir, einstæðir feður og ekklar. Reyndar var ekki óalgengt að ráðskonur störfuðu á bæjum þar sem í heimili voru bræður, feðgar eða bændur og oft aldraðar mæður þeirra. Brotthvarf kvenna úr sveitum í þéttbýlið á 20. öld skapaði þörf fyrir ódýrt kvenkyns vinnuafl til að sinna heimilishaldi í sveitum og í slíkum tilfellum gat heimilishjúið ráðskonan bjargað málunum. Á þessum tíma var enn rótgróin kynjaskipting á íslenskum sveitaheimilum sem mótaðist meðal annars af viðteknum hugmyndum um að heimilisstörf væru kvennastörf.

„Víst er að karlarnir höfðu iðulega lítinn metnað fyrir því að sinna heimilisstörfum á bæjunum en það má samt ekki gleyma því að þeir höfðu oft og tíðum litla eða enga kunnáttu á því sviði, enda vanist því frá unga aldri að slík þjónusta væri reidd fram af mæðrum, systrum eða öðru kvenfólki. Það þýðir þó ekki að þær konur sem sinntu ráðskonustörfum hafi endilega búið að reynslu af heimilishaldi sem eitthvað kvað að.

Áhugavert var að sumar þeirra höfðu enga reynslu af hússtörfum og flestar kvennanna höfðu lítinn áhuga á þrifum og matartilbúningi. Forsenda þess að vera ráðin sem ráðskona var því öðru fremur að vera kona, enda konur taldar búa yfir eðlislægri þekkingu á heimilisstörfum.“

Helmingur viðmælenda Dalrúnar sinnti útiverkum samhliða störfum sínum inni við, en þó fólst meginábyrgð þeirra í hússtjórn. Viðtölin leiddu hins vegar í ljós að margir bændur þörfnuðust félagsskapar ráðskvennanna, ekki síður en starfsins sem þær voru ráðnar til að sinna. „Þeir voru margir einmana og óskuðu eftir selskap. Þetta fannst mér merkilegt að heyra,“ segir Dalrún, en nokkur hluti viðmælenda hennar sagði hreint út að þær álitu meginstarf sitt á bænum hafa verið fólgið í því að halda bændunum selskap, enda hluti þeirra er réðu sér ráðskonur með lítil félagsleg tengsl og þótti vænt um að fá líf í húsið. Oft gat myndast góður kunningsskapur með ráðskonunum og bændunum, sem entist gjarnan eftir að ráðskonuvistinni lauk.

Viðtölin sýndu að konurnar voru stoltar af því að hafa sinnt stjórnunarstöðu á sveitabæjum enda báru þær mikla virðingu fyrir sveitalífinu, líkt og reyndin var með flesta Íslendinga á þeim tíma.

Víst er að vinnuframlag ráðskvenna á íslenskum sveita- bæjum skipti miklu máli fyrir samfélög sveitanna á sínum tíma. Heimilisstörfin sem þær sinntu voru nauðsynlegur þáttur í gangverki búnaðarstarfa sem unnið var að á sveitabæjunum,“ segir Dalrún.

Félagslegt úrræði

Launuð heimilisstörf á síðari hluta 20. aldar, þar með talið ráðskonustarfið, var ekki eingöngu kynbundið heldur líka stéttbundið. „Það voru yfirleitt fátækar, ungar einstæðar mæður úr þéttbýlinu sem tóku að sér þetta láglaunastarf. Félagsleg staða einstæðra mæðra á þessum tíma var líkt og áður mjög bágborin því samfélagið gerði á margan hátt ekki ráð fyrir þeim konum og börnum þeirra. Einstæðum mæðrum var ætlað að bera þungan af uppeldis- og framfærslumálum barna sinna en á sama tíma skorti félagsleg úrræði til að styðja þær í þeirri erfiðu vegferð. Afskiptaleysi barnsfeðra á þessum tíma gagnvart börnum sínum þótti sumsé ekkert tiltökumál. Einstæðar mæður sinntu því gjarnan fleiri en einu starfi til að ná endum saman. Það er ótrúlegt að einstæðar mæður, þessar kvenhetjur Íslands, sem alla tíð hafa þurft að leggja ótrúlega mikið á sig til að tryggja velferð barna sinna hafi aldrei hlotið þá virðingu sem þær eiga skilið,“ segir Dalrún. Rannsóknin sýndi að lélegt bakland, húsnæðisvandi, fjárhagsörðugleikar og skortur á dagvistunarúrræðum framan af 20. öldinni voru helstu ástæðurnar að baki því hve margar einstæðar mæður réðu sig til ráðskonustarfa.

„Ráðskonustarfið bauð upp á sæmileg kjör fyrir einstæða móður í barningi lífsins, nefnilega húsnæði og fæði fyrir þær og börn sín, sem var ígildi launa. Sumar ráðskonur fengu líka eiginleg laun en ráðskonulaunin voru nær alltaf mjög lág. Konurnar voru fyrst og fremst að hugsa um öruggt húsaskjól fyrir sig og börn sín. Þannig kemur ráðskonustarfið að vissu leyti fyrir sjónir sem félagslegt úrræði fyrir einstæðar mæður sem þráðu að vera sjálfstæðar mæður.“ En það voru ekki eingöngu einstæðar mæður sem réðu sig sem ráðskonur því mörg dæmi voru um að ungar einhleypar barnlausar konur færu í ráðskonuvist til sveita til að öðlast nýja reynslu og slík dæmi fundust einnig á meðal eldri ráðskvenna sem voru minnihluti þessarar starfsstéttar. Ráðskonustarfið var oftast tímabundið atvinnuúrræði þó dæmi séu um að ráðskonur hafi starfað í mörg ár og jafnvel heilu áratugina á sama sveitabænum.

Sumar ráðskonur giftust bændunum og þá var jafnan sagt að þær ílentust á bænum, yrðu húsmæður, segir Dalrún, „hjónaböndin byggðu gjarnan á hagkvæmnisástæðum þó svo eldheit rómantík hafi sannarlega stundum komið við sögu.“

#MeToo og láglaunastéttir

MeToo-byltingin (vitundarvakning um hvers kyns kynbundið ofbeldi/ áreitni) hafði nýlega verið hleypt af stokkunum þegar Dalrún hóf að taka viðtöl sín. Eftir því sem viðtalsvinnunni vatt fram kom sífellt betur í ljós hvað sú bylting hafði afgerandi áhrif á tjáningu kvennanna um kynbundið ofbeldi.

„Ég gerði mér fljótlega grein fyrir því,“ segir Dalrún „hversu mikilvægt það er að taka viðtöl við eldri konur í tengslum við ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir í lífinu. Viðtalið er tjáningarrými sem þær þekkja og gefur þeim færi á að miðla #MeToo-sögum sínum munnlega, líkt og í samtali. Eldri konur eru ekki eins líklegar til að opna sig um þessi mál á veraldarvefnum.

Þarna er um að ræða stóran hóp eldri kvenna, þolenda kynbundins ofbeldis sem þarfnast áheyrnar og ég tel viðtalsformið kjörið tól til að skrá reynslusögur þeirra kvenna. #Me-Too-sögur eldri kvenna á Íslandi mega ekki tapast svo lærdómurinn sem draga má af þeim sögum skili sér – það er beinlínis þjóðþrifamál.“

Dalrún bendir á að #MeToo-byltingin í grunninn snúist um að konur geti unnið störf sín án þess að verða fyrir kynbundnu ofbeldi. „Þess vegna er ráðskonusagan svo mikilvæg í #MeToo umræðunni í dag, því það er mun oftar brotið á réttindum kvenna sem starfa í heimahúsum en þeirra sem starfa á opinberum vettvangi, á alþjóðavísu.

Það var ekkert opinbert eftirlit með störfum ráðskvenna á sveitabæjum – sem gerði gerendum kleift að brjóta á starfstengdum réttindum þeirra og í verstu tilvikunum á konunum sjálfum líkamlega, andlega og/ eða kynferðislega,“ segir Dalrún „það voru engin úrræði fyrir þessar konur.“ Hún tekur fram að ráðskonur, líkt og margar aðrar konur, hafi ekki getað tjáð sig frjálslega um ofbeldið sem þær urðu fyrir, vegna hættu á að verða útilokaðar af samfélaginu á einn eða annan máta.

Fórnarlömb ofbeldis útilokuð

„Sumir samtímamenn hafa miklar áhyggjur af því að verið sé að útiloka kynferðisofbeldismenn frá ýmsum áhrifastörfum en eitthvað hefur minna borið á áhyggjum þeirra manna gagnvart útilokun fórnarlamba kynferðisofbeldis.

Útilokun fórnarlamba kynferðis- ofbeldis í stað gerendanna sjálfra hefur tíðkast í íslensku samfélagi alla tíð – svona er feðraveldið,“ segir Dalrún. „Ráðskonur í sveit voru því miður óvarinn hópur hvað kynbundið ofbeldi varðar.

En einnig má taka fram að sumar kvennanna sem gerðust ráðskonur voru að flýja heimilisofbeldi í þéttbýlinu og í þeim tilfellum gat ráðskonuvist á sveitabæ verið lífsbjörg, bæði fyrir þær og börn þeirra.

„Það er fátt betra en að ræða við þrælskemmtilegar og fróðar konur sem hafa lifað tímana tvenna. Leit mín að ráðskonusögu Íslands var ógleymanlegt ferðalag um fortíðina í fylgd þessara sögulegu kvenna – ég er þeim ævarandi þakklát,“ segir doktor Dalrún Kaldakvísl Eygerðardóttir að lokum.

Skylt efni: sagnfræði

Hvað er í jólamatinn og af hverju?
Líf og starf 23. desember 2024

Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Spurning dagsins: Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...