Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Þessir fengu sér kaffi og með því inn á lager. F.v. Halldór Gunnar Ólafsson úterðarmaður og sérstakur velunnari fyrirtækisins, Einar Kristján Jónsson sveitarstjóri Húnavatnshrepps, Björn Magnússon bóndi á Hólabaki og Bjarni Kristinsson bóndi á Bjarnastöðum.
Þessir fengu sér kaffi og með því inn á lager. F.v. Halldór Gunnar Ólafsson úterðarmaður og sérstakur velunnari fyrirtækisins, Einar Kristján Jónsson sveitarstjóri Húnavatnshrepps, Björn Magnússon bóndi á Hólabaki og Bjarni Kristinsson bóndi á Bjarnastöðum.
Líf og starf 4. ágúst 2021

Húllumhæ á Hólabaki

Höfundur: EA-ehg

Um þessar mundir eru tíu ár síðan fyrstu vefnaðarvörurnar undir vörumerkinu Lagður fóru á markað. Af þessu tilefni var efnt til afmælishátíðar að Hólabaki í Húnavatnshreppi á föstudaginn síðastliðinn.

Það rigndi eins og hellt væri úr fötu þetta síðdegið, en Húnvetningar létu það ekki aftra sér og fjölmenntu til að samfagna Hólabaksfjölskyldunni. Boðið var upp á heimabakaðar tertur og grillaðar pylsur, sem um 150 gestir gerðu góð skil. Tónlistarmaðurinn Eyþór Ingi mætti á svæðið og tók lagið fyrir viðstadda af sinni alkunnu snilld.

Fjölbreytt starfsemi
Elín Aradóttir og Ingvar Björnsson,
eigendur gjafavörufyrirtækisins á Hólabaki.

Hólabak er staðsett í hjarta Húnaþings. Bærinn ber nafn sitt af Vatnsdalshólum sem er kennileiti sem margir þekkja. Á Hólabaki er búið með nautgripi og hross, en jafnframt er þar starfrækt fyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu hágæða vefnaðar- og gjafavara. Vörur fyrirtækisins eru seldar undir vörumerkjunum LAGÐUR og TUNDRA. Í lagerhúsnæði fyrirtækisins er einnig rekin verslun. Á Hólabaki búa þrjár kynslóðir. Björn Magnússon og Aðalheiður Ingvarsdóttir keyptu jörðina 1972 og hafa byggt upp og hlúð að síðan. Ingvar Björnsson og Elín Aradóttir hafa búið á Hólabaki ásamt börnum sínum þremur, Aðalheiði, Ara og Elínu, síðan 2013. Þau reka kúabúið í dag, sem og gjafavöruframleiðsluna.

Þingeyskur hrútur í aðalhlutverki

Vörumerkið Lagður rekur uppruna sinn til íslensku sauðkindarinnar, nánar tiltekið til hrútsins Lagðs frá Brún í Þingeyjarsveit. Lagður er því hrútsnafn. Orðið er stytting á orðinu ullarlagður, sem merkir lokkur eða hnoðri af kindaull. Hrúturinn Lagður var í eigu foreldra Elínar og var fyrsta varan, sem framleidd var, prýdd ljósmynd af Lagði. Fyrstu vörur fyrirtækisins fóru á markað í júlí 2011, en þá var starfsemin rekin í smáum stíl meðfram annarri vinnu, en eigendurnir áttu á þeim tíma heima á Akureyri. Árið 2013 flutti fjölskyldan að Hólabaki. Áherslan var í fyrstu á framleiðslu púðavera með ljósmyndum úr íslenskri náttúru, sem f.o.f. var dreift í heildsölu í gjafavöru- og ferðamannaverslanir.

Í dag hafa margar fleiri vörurtegundir bæst við, s.s. svuntur, rúmfatnaður, postulín, ýmis eldhúsvarningur og fleira.

Fjörtíu og níu þúsund púðaver

Starfsemin hefur með tímanum þróast mikið. „Við bjóðum nú fjölbreyttar vörur og jafnframt hefur smásala hér heima í búðinni, sem og í gegnum vefverslunina okkar tundra.is aukist,“ segir Elín. Heildsala á púðaverum er þó enn mikilvægur hluti starfseminnar, þó svo að Covid hafi vissulega sett strik í reikninginn á síðasta ári, enda sala til ferðamannaverslana í algjöru lágmarki. „Við höfðum sett okkur það markmið að ná að selja fimmtíu þúsund púðaver fyrir tíu ára afmæli fyrirtækisins, en það náðist því miður ekki. Ríflega fjörtíu og níu þúsund er nú samt bara nokkuð góð tala og við erum stolt af okkar árangri,“ bætir Elín við.

Fegurðin við fætur þér

Íslensk náttúra og nánasta umhverfi hefur frá upphafi verið innblástur vöruhönnunar hjá fyrirtækinu. Þannig hafa ljósmyndir af gróðrinum í vegkantinum á heimreiðinni á Hólabaki orðið að myndskreytingum á rúmfatnaði og postulíni. Fjallahringurinn hefur verið prentaður á silkislæður og ljósmyndir af húsdýrum og nálægum náttúruvættum hafa ratað á púðaver og svuntur svo eitthvað sé nefnt. „Við kappkostum að nýta þjónustu innlendra aðila hvað varðar aðföng og útfærslu eins og kostur er. Stór hluti saumaskapar er á höndum fagfólks á íslenskum saumastofum. Þannig viljum við stuðla að atvinnusköpun og tryggja yfirsýn. Þetta er mjög mikilvægt í okkar huga,“ segir Elín.

Kostir og gallar við staðsetninguna

En er eitthvert vit í því að reka gjafavörufyrirtæki í fámennu héraði á landsbyggðinni? „Okkar staðsetning hefur bæði kosti og galla. Þó heimamarkaður sé vissulega lítill, þá eigum við hér afar trygga viðskiptavini. Almennt finnum við fyrir mikilli velvild í garð okkar starfsemi. Hér eru ekki starfandi mörg fyrirtæki á okkar sviði og því auðvelt að vera sýnilegur,“ segir Elín.

„Fjarlægðin frá höfuðborgarsvæðinu og stærri markaði, getur auðvitað vera hamlandi að einhverju leyti, sérstaklega þegar litið er til kostnaðar og flækjustigs við að koma frá okkur vörum og til okkar aðföngum. Við höfum síðan í lok árs 2018 rekið vefverslun og svo lengi sem Pósturinn býður upp á þjónustu hér í héraðinu, þá er þetta ekki verri staður en hver annar fyrir slíkan verslunarrekstur.“

Ari Ingvarsson og Ari Teitsson sáu um að grilla fyrir gesti.

Bjartsýn á framtíðina

Nú virðist sem ferðaþjónustan hérlendis sé aftur að komast á skrið. „Við sjáum merki um aukna eftirspurn hjá okkar viðskiptaaðilum. Við erum í heildsöluviðskiptum við margar ferðamannaverslanir og þar eru menn greinilega að komast aftur í gírinn.“

Varðandi íslenskan gjafavörumarkað þá er ekki ástæða til annars en bjartsýni. „Heimilið er okkar griðastaður og þar viljum við hafa í kringum okkur hluti sem hafa tilgang og láta okkur líða vel. Nú á tímum ofgnóttar held ég að sífellt fleiri séu að verða meðvitaðri um að velja sér frekar færri og vandaðri hluti til að hafa í kringum sig. Eitt af því sem heimsfaraldurinn hefur líka kennt okkur er að líta okkur nær og huga að því hvernig hægt er að styðja við íslenska framleiðslu og efla okkar eigið hagkerfi um leið,“ segir Elín að lokum.

Skylt efni: Hólabak | Lagður

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...