Hundur og köttur í fanginu á heimasætunni
Hundurinn Pipar og heimiliskötturinn á Skorrastað II í Fjarðabyggð í fanginu á heimasætunni Sunnu Júlíu Þórðardóttur.
„Það hefur gengið ótrúlega vel í sumar, við höfum fengið fullt, fullt af ferðamönnum til okkar, bæði í gistingu og svo bara til að skoða dýrin hjá okkur. Það eru allir mjög ánægðir og finnst gaman að fá að halda á kettlingum eða kanínunum, sjá hænurnar eða fá að klappa geitunum og kiðlingunum. Svo er meira en nóg að gera í hestaleigunni okkar,“ segir Sunna Júlía en Skorrastað II er að finna á Norðfirði, sjö kílómetrum frá Neskaupstað. Þar er rekin ferðaþjónusta og dýragarður.