Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Þorbjörg og Lára, dóttir hennar, fengu sér fyrst geitur árið 2014 og þá sem gæludýr.
Þorbjörg og Lára, dóttir hennar, fengu sér fyrst geitur árið 2014 og þá sem gæludýr.
Líf og starf 7. maí 2021

Í startholum með að framleiða skyr og gríska jógúrt úr geitamjólk

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdótttir

„Þetta er alveg ótrúlega skemmtilegt. Ég fann það strax og ég byrjaði að fást við að búa til vörur úr geitamjólk að það ætti mjög vel við mig,“ segir Þorbjörg Ásbjörnsdóttir, bóndi á Lynghóli í Skriðdal. Hún er þroskaþjálfi að mennt og NLP markþjálfi einnig.

Þorbjörg hefur undanfarin ár búið til salatost, sem heitir Moli, og fleira úr geitamjólk en hyggst auka við framboðið og ætlar í sumar að framleiða gríska jógúrt og skyr. Þá stendur til að koma upp vinnsluaðstöðu heima við bæinn og verður unnið við það í haust og fram eftir næsta vetri. Á Lynghóli eru um 30 geitur og ætlunin að fjölga í hópnum eftir því sem framleiðslan vex.

Þorbjörg er Húnvetningur, ólst upp á Auðkúlu í Húnavatnshreppi en flutti 16 ára að heiman til að vinna og stunda framhaldsnám. Hún er búfræðingur frá Hvanneyri en á meðan hún dvaldi þar við nám kynntist hún eiginmanni sínum, Guðna Þórðarsyni frá Syðstu-Görðum í Kolbeinsstaðahreppi, sem þar var einnig í búfræðinámi. Þau settust þar að eftir skólann. Enginn búskapur var á jörðinni á þeim tíma og stunduðu þau vinnu utan bús í fyrstu.

Byrjuðu þau á að stunda alls kyns störf utan bús, m.a. í fiskvinnu sem þau sóttu víða um Snæfellsnes. Þau reyndu fyrir sér með kálfaeldi sem aldrei varð þó mjög gæfulegt að sögn Þorbjargar, illa fór að ára í þeirri grein, löng bið var jafnan eftir slátrun og svo kom gríðarlegt verðfall sem gerði að verkum að fótunum var kippt undan þeim búskap.

Lára Guðnadóttir.

Hross og ungmenni eiga vel saman

„Við settum þá á fót tamningastöð og hún gekk glimrandi vel,“ segir Þorbjörg, en einnig tóku þau börn og ungmenni í fóstur, byrjuðu á því árið 1995 og hafa á þeim rúma aldarfjórðungi sem liðinn er dvalið hjá þeim um lengri eða skemmri tíma yfir 50 börn. Þau eiga eina dóttur, Láru, en telja nokkur af fósturbörnunum til sinna barna enda samskiptin mikil og þau sinna afa- og ömmuskyldum við börn þeirra.

Þorbjörg segir það fara einkar vel saman að vera með hross og ungmenni, krakkarnir hefðu næg verkefni í kringum hestana allan daginn og hefðu flest yndi af því að hugsa um þá og fara í útreiðartúra.

„Það eru alltaf næg verkefni í kringum hestana, alls konar verk sem þarf að sinna og það hélt krökkunum uppteknum heilu dagana, en eins eru líka margar og flottar reiðleiðir á þessu svæði. Þannig að þetta smellpassaði alveg saman,“ segir hún.

Þorbjörg Ásbjörnsdóttir, bóndi á Lynghóli í Skriðdal, hefur verið að fikra sig áfram í vinnslu á geitamjólk og hyggst í sumar hefja framleiðslu á skyri og grískri jógúrt úr þeirri afurð. Um 30 geitur eru á bænum og stendur til að fjölga í hópnum.  Guðni Þórðarson er upprunninn frá Syðstu-Görðum í Kolbeinsstaðahreppi.

Austfirðingar tekið okkur fáránlega vel

Þorbjörg og Guðni höfðu alltaf nokkrar kindur og langaði að hefja sauðfjárbúskap en jörðin hentaði ekki fyrir slíkan búskap.
„Við hefðum getað sett á fót kúabú þar en áhugi húsbóndans lá ekki þar, þannig að við höfðum um skeið verið að skima eftir hentugri jörð fyrir sauðfjárbúskap,“ segir Þorbjörg.

Snemma árs 1999 sáu þau auglýsta jörðina Lynghól í Skriðdal og gerðu sér ferð frá Snæfellsnesi og þvert yfir landið. Komu þar um miðjan mars og allt á kafi í snjó.

„Við sáum örugglega ekki alveg hvernig landið lá en gerðum tilboð og því var tekið. Þetta gekk allt frekar hratt fyrir sig og við vorum tekin við 300 kinda búi í byrjun maí. Guðni fór þá beint austur í sauðburð og ég sá um sauðburðinn á Syðstu-Görðum en flutti svo austur að honum loknum,“ segir Þorbjörg og bætir við að þeim hafi alla tíð liðið vel fyrir austan þó engar eigi þau rætur þangað og hafi ekki þekkt nokkurn mann þegar þau komu.

„Austfirðingar hafa í raun tekið okkur fáránlega vel, það er virkilega gott að búa hér og aldrei hvarflað að okkur að fara neitt annað.“
Þorbjörg og Guðni hófu að byggja upp sauðfjárbúið, stækkuðu fljótt við sig og voru innan fárra ára komin með um 450 kindur. Árið 2011 reistu þau stórt stálgrindarhús á jörðinni og höfðu þá aðstöðu til að vera með um 700 kindur þegar mest var. Undanfarin ár hefur fækkað í bústofninum og eru nú um 400 kindur á búinu.

Geitur í fyrstu sem gæludýr

Geitabúskapurinn á Lynghóli hófst árið 2014 þegar mæðgurnar ákváðu að fá sér örfáar geitur til að hafa sem eins konar gæludýr. Þær fengu 3 huðnur frá Möðrudal á Fjöllum og hafur frá Fjallalækjarseli í Þistilfirði. Hópurinn hefur vaxið og eru nú um 30 huðnur í hópnum, 18 sem bera og 12 veturgamlar. „Geitur eru óskaplega skemmtileg dýr og gaman að umgangast þær,“ segir Þorbjörg. Ekki leið langur tími frá því geiturnar komu á bæinn þar til þau fóru að hugleiða hvort ekki mætti nýta eitthvað frá þeim.
„Það er mjög ríkt í okkur bændum að finna möguleika til að nýta alla hluti,“ segir hún.

Margir miðluðu þekkingu

Þorbjörg hafði samband við Jóhönnu á Háfelli sem er manna fróðust um geitur og fékk góð ráð en einnig leitaði hún ráða hjá gömlum skólabróður sínum, Þorgrími á Erpsstöðum, sem var meira en fús til að liðsinna henni fyrstu skrefin. Úr varð að hún brunaði vestur á Erpsstaði með geitamjólk í farteskinu og þau hófu tilraunastarfsemi sína þar.

„Ég fann strax þá að þetta átti vel við mig, mér fannst þetta áhugavert og skemmtilegt og þarna má segja að boltinn hafi farið að rúlla,“ segir hún.

Fleiri lögðu fram aðstoð og miðluðu af þekkingu sinni, m.a. Þórarinn Egill Sveinsson mjólkurverkfræðingur en ekki er komið að tómum kofunum hjá honum þegar ostagerð er annars vegar. Eftir að hafa aflað sér þekkingar og prófað sig áfram varð til fullunnin vara, salatostur sem kallaður er Moli. Hann hefur verið í framleiðslu á Lynghóli undanfarin misseri og líkar vel.

Salatosturinn Moli sem unninn er úr geitamjólk líkar vel og nýtur vinsælda.

Aukavinna við smökkun

Þorbjörg segir að Guðni hafi verið í eins konar aukavinnu við að smakka allan tilraunavarninginn sem hún hefur framleitt undanfarin misseri.

„Hann hefur verið í því að borða það sem ég bý til og segja hvað honum finnst. Ég tek auðvitað mark á hans ráðleggingum,“ segir hún. Vinir og ættingjar hafa einnig samviskusamlega verið notaðir í smökkun og álitsgjöf og segir Þorbjörg frábært hversu fúsir allir hafi verið í að taka þátt í að bragða á misgóðum tilraunum sínum.

„Það er svo skemmtilegt við ostagerð að mistök verða oft til þess að það fæðist ný afurð. Það var það fyrsta sem Þorgrímur kenndi mér. Ef eitthvað klúðrast, skoðaðu þá hvað þú getur gert við það, sagði hann. Langoftast verður til ný tegund af osti, stundum ost sem verður bara til í eitt skipti því oft áttar maður sig ekki á hvað gerðist og nær ekki að gera sama hlutinn á ný. En það sem er langskemmtilegast í þessu öllu er að fjölbreytnin er svo mikil,“ segir Þorbjörg.

Nefnir hún að einmitt það hafi gerst þegar hún var að prófa sig áfram í skyrgerðinni.

„Ég stóð allt í einu uppi með afurð sem var ansi lík grískri jógúrt og smakkaðist rosalega vel. Mín heppni í það skiptið var að ég vissi hvað ég hafði gert og gat því gert það aftur.“

Koma sér upp aðstöðu heima

Síðastliðið haust fengust leyfi bæði frá Matvælastofnun og heilbrigðiseftirliti til að nýta geitamjólkina og framleiða úr henni varning til sölu. Þorbjörg hefur unnið vörur sínar í vottuðu eldhúsi í félagsheimilinu Arnhólsstöðum. Hún segir mjög gott að komast þar að, en hefur nú hug á að setja upp eigin aðstöðu heima á bæ. Segir að líklegast sé að keyptir verði tveir gámar og felldir saman í eitt hús. Aðstöðu til að vinna ost, skyr og jógúrt úr geitamjólk verði komið fyrir þar.

„Við erum að leggja drög að þessu núna og planið er að byrja á að vinna við undirlagið, lagnir og þess háttar núna á haustdögum og fram á vetur og setja gámana upp þegar fer að vora, í mars apríl á næsta ári. Mitt markmið er að vinna við þetta sjálf og skapa mér vinnu. Það er ekki stefnan að vera með starfsfólk í þessu, ég vil að þetta sé handverksvara sem ég framleiði. Þannig að ég mun bara framleiða það magn sem ég kemst yfir sjálf,“ segir Þorbjörg.

Gaman að þróa eitthvað nýtt

Vel hefur gengið með ostinn þó hann sé til þess að gera nýlega kominn í sölu og kunna viðskiptavinir vel að meta hann.
„Það selst alltaf allt upp á augabragði,“ segir hún.

Síðustu mánuði hefur Þorbjörg verið að þróa fleiri vörur, skyr og gríska jógúrt, og segir að þegar hún fær nýja mjólk í sumarbyrjun verði hafist handa við framleiðsluna.

„Það er alltaf gaman að þróa nýjungar, þetta hefur verið skemmtilegt ferli og kennt mér m.a. að það verður að nota nýja mjólk en ekki frysta til að búa þessar vörur til, þannig að nú er bara að bíða fram í júní og bretta svo upp ermarnar.“

Þorbjörg er í samstarfi við hótelhaldara á Hótel Blábjörg á Borgarfirði eystra sem ætla að nota vörur frá henni á sínum matseðli. Ostinn m.a. á nýjung sem nefnist kartöflupitsa svo dæmi sé nefnt.

„Þetta er mjög hugmyndaríkt fólk og spennandi fyrir mig að komast í samstarf við þau. Ég hlakka til að sjá hver framvindan verður.“

Taka á móti gestum og brúa bil milli dreifbýlis og þéttbýlis

Búið að Lynghóli er opið þeim gestum og gangandi sem langar að kynnast húsdýrunum og eftir að geiturnar komu á bæinn hefur töluverð ásókn verið í að koma þangað og skoða kiðlingana. Enda fátt fallegra og skemmtilegra en að fylgjast með þeim, þeir eru gæfir og fjörugir og Þorbjörg segir börn og kiðlinga eiga einkar vel saman.

„Markmiðið með því að leyfa fólki að koma og skoða er fyrst og fremst til að leggja okkar af mörkum í þá átt að brúa bilið sem virðist vera milli sveitarinnar og kaupstaðarins. Það er ekki lengur sjálfsagt að eiga vini eða ættingja í sveit sem hægt er að heimsækja og kynnast dýrum á þann hátt,“ segir Þorbjörg.

Leikskólar og stakir bekkir í grunnskólum hafa komið að Lynghóli á sauðburði og fengið að fylgjast með og fyrir marga er heimsókn í Lynghól partur af vorkomunni.

„Við sjáum að foreldrar hafa ekki síður gaman af þessu en börnin,“ segir Þorbjörg.

Skylt efni: geitur | geitaafurðir | geitaostur

„... Heimsins þagna harmakvein ...“
Líf og starf 7. janúar 2025

„... Heimsins þagna harmakvein ...“

Orðsins list kemur að þessu sinni frá Jóhannesi úr Kötlum.

Staða harmonikunnar sterk
Líf og starf 30. desember 2024

Staða harmonikunnar sterk

Félag harmonikuunnenda í Reykjavík heldur úti starfi fyrir harmonikuunnendur, sa...

Nýr heimsmeistari í skák
Líf og starf 30. desember 2024

Nýr heimsmeistari í skák

Nýr heimsmeistari í skák var krýndur 12. desember síðastliðinn. Hann heitir Domm...

Ungfrúr Snæfells- og Hnappadalssýslu
Líf og starf 27. desember 2024

Ungfrúr Snæfells- og Hnappadalssýslu

Á seinni hluta nítjándu aldar hófu kvenfélög að stinga upp kolllinum hérlendis, ...

Jólin komu snemma fyrir norðan
Líf og starf 27. desember 2024

Jólin komu snemma fyrir norðan

Það mátti greina spennu og tilhlökkun í augum Þingeyings sem óðamála sagði umsjó...

Sinn er siður í landi hverju
Líf og starf 27. desember 2024

Sinn er siður í landi hverju

Líkt og Íslendingar eiga Grænlendingar og Færeyingar sér sterkar jólahefðir sem ...

Ár umbreytinga og innsæis
Líf og starf 27. desember 2024

Ár umbreytinga og innsæis

Eins og siður er kastaði völva Bændablaðsins beinum sínum og opnaði fyrir flæði ...

Hvað er í jólamatinn og af hverju?
Líf og starf 23. desember 2024

Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Spurning dagsins: Hvað er í jólamatinn og af hverju?