Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Stóðið á Móeiðarhvoli telur 90 merar sem notaðar eru í blóðtöku. Þær eru að sögn Bóelar upp til hópa rólegar og blíðar.
Stóðið á Móeiðarhvoli telur 90 merar sem notaðar eru í blóðtöku. Þær eru að sögn Bóelar upp til hópa rólegar og blíðar.
Mynd / GHP
Líf og starf 13. maí 2022

Innsýn í blóðmerahald á Íslandi

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Í erindi sem hún hélt á Búnaðarþingi veitti Bóel Anna Þórisdóttir innsýn inn í blóðbúskap, sem hún hefur stundað í 24 ár.

Þar sagði hún frá starfseminni ásamt því að bregðast við nokkrum efnisþáttum þeirrar gagnrýni sem blóðbúskapur hefur fengið síðan myndband svissneskra dýraverndarsamtaka birtist á vefnum í fyrra.

Að sögn Bóelar hafði birting á myndefni verið yfirvofandi lengi því í nokkur sumur urðu hrossabændur, sem halda blóðmerar, varir við fólk reyna að mynda þá að störfum við blóðtöku.

„Það vissi enginn nákvæmlega á hverju var von, hvernig brugðist yrði við eða hvernig við ættum að taka því þegar eitthvað svona birtist.“

Í ræðu sinni orðar Bóel það sem svo að búgreinin hafi orðið fyrir árásum.

„Aðför hefur verið gerð að íslenskum landbúnaði og bændur dæmdir upp til hópa fyrir slæma meðferð dýra og jafnvel misþyrmingu á dýrum. Í þessari aðför áttu bændur fáa, jafnvel enga, málsvara, allir stukku á vagn með ofstopa dýraverndarsinna sem engan veginn gera sér grein fyrir hvernig á að umgangast stórgripi. Þetta fólk hefur það markmið eitt að ganga frá þessari búgrein dauðri með öllum tiltækum ráðum. Við skulum átta okkur á því að á bak við þetta standa peningar, pólitísk fyrirtæki sem eiga hagsmuna að gæta, líklega fyrirtæki sem stórgræða á því ef bannað verður að vinna hormónið PMSG úr blóði fylfullra hryssna, en það mun vera margfalt dýrara ferli að búa það til með öðrum aðferðum. Þótt það sé hægt verða gæðin aldrei eins mikil,“ sagði Bóel m.a. á Búnaðarþingi.

Óvæntur málsvari

Afleiðingar myndbirtingarinnar voru blóðbændum þungbærar, enda var efni þess af verklagi einstaklinga og framsetning hennar óhugnanleg. „Ég varð rosalega svekkt og hrædd líka. Það var svo sárt að fólk skyldi virkilega trúa því að svona væru hlutirnir almennt gerðir. Að þau gætu ekki áttað sig á að þetta er klippt myndband.“
Hún nefnir að aðdragandi atvika sé ekki sýndur og myndefnið sýni síst raunsanna mynd af blóðbúskap.

Bóel hélt erindi á Búnaðarþingi þar sem hún sagði myndband og umræður sem sköpuðust í framhaldi aðför að íslenskum landbúnaði.

„Ég er sífellt hrædd um hvort mögulega hafi náðst mynd af okkur. Ég reyndi að rifja upp hvort einhver atvik gætu mögulega ratað í svona myndband. Ein meri varð kannski óróleg, ég hef þurft að losa hana en kannski mundi ég eftir að hafa ekki brugðist nógu fljótt við. Málið er að það er örugglega alltaf hægt að ná einhverju og klippa úr samhengi.“

Hún segir að forsvarsmenn myndbandsins lýsi því yfir að fleiri myndbönd séu yfirvofandi, sem sé kvíðablandið.

„Þau segjast hafa mikið meira af myndefni en hafa hins vegar ekki viljað láta þau í té til rannsóknar. Allir blóðbændur eiga því að geta átt von á því að birtast í myndböndum frá þeim. Við erum að tala um að börnin okkar gætu hafa verið mynduð, enda taka þau þátt í starfseminni.“

Fordæmingar á búgreininni í heild reyndist mörgum þungur baggi. „Árásirnar komu úr öllum áttum. Við upplifðum að engin stæði með okkur – ekki einu sinni aðrir bændur. Við hefðum t.d. viljað að Bændasamtökin kæmu sterkari fram og fyrr inn í umræðuna.“

Helsti málsvari blóðbænda í upphafi hafi þó komið úr óvæntri átt. „Dýraverndarsamband Íslands barðist gegn blóðmerarhaldi fyrir þó nokkrum árum. Það reyndist jákvætt skref því þau veittu starfseminni nauðsynlegt aðhald sem varð til þess að aðferðir breyttust og eftirlit var aukið. Þegar umræðan fór af stað í vetur steig formaður sambandsins inn með afgerandi hætti.“

Hins vegar segir Bóel það hafa verið sárast að sjá hestamenn og hrossabændur mæla gegn starfseminni. „Fólk sem annast hesta alla daga veit hvernig það er að umgangast stórgripi og þekkja atferli hrossa. Þau vita að upp geta komið frávik og þau vita líka að það er ómögulegt að tryggja að allir í þeirra röðum geri aldrei mistök.“

Auk þess að vera í mjólkurframleiðslu ala Bóel og Birkir kálfa. Skepnunar á jörðinni telja um 500 og Bóel líkir því við að eiga 500 börn. Mynd / ghp

Um búskapinn á Móeiðarhvoli

Bóel er búfræðingur með tamninga- mannapróf frá Hólum og hefur gegnum árin stundað fjölbreyttan búskap, s.s. verið með fé, holdanaut og hross. Í dag er hún kúabóndi með áherslu á mjólkurframleiðslu ásamt manni sínum, Birki Arnari Tómassyni. Þau stunda einnig talsverða jarðrækt.

Jarðrækt er hluti af búskapnum á Móeiðarhvoli og fjölskyldan yfirleitt með mörg járn í eldinum. Mynd / Einkasafn

Á Móeiðarhvoli er myndarlegt fjós fyrir 130 kýr með tveimur mjaltaþjónum.

„Við höfum verið að byggja upp og stækka búið alveg síðan við byrjuðum árið 1998. Við byggðum nýja fjósið árið 2014 sem komst í fulla nýtingu 2017 og framleiðum í dag um 1 milljón lítra á ári. Einnig erum við með nautaeldi, ölum semsagt alla kálfa. Ég segi stundum að ég eigi um 500 börn en dýrin telja rétt yfir 500 hausa. Talsverð ábyrgð fylgir þessu, en maður þarf á hverjum degi að vera viss um að allir hafi það gott og séu sáttir,“ segir Bóel, sem annast daglega umsjón búsins, gegningar, fóðrun og eftirlit.

Á Móeiðarhvoli er myndarlegt fjós fyrir 130 kýr með tveimur mjaltaþjónum  Hundurinn Tumi vildi vera með á mynd.


„Við höfum í gegnum tíðina stundað talsverða jarðrækt, ræktað bygg og hafra í miklu magni ásamt því að prófa að rækta ýmislegt annað. Birkir hefur mikinn áhuga á þessu og er alltaf að leita nýrra leiða til að uppskera og geyma fóður af ýmsu tagi. Við erum yfirleitt með nokkur járn í eldinum í einu, þannig að það er nóg að gera.“

Svo halda þau blóðmerar og hafa gert síðan þau festu kaup á jörðinni árið 1998.

„Ég þekkti til blóðstarfseminnar frá því ég var krakki. Í kringum árið 1982, þegar blóðtaka var að hefjast á Íslandi, voru foreldrar mínir hluti af þeim bændum sem sinntu henni í tvö eða þrjú ár. Kaupum á jörðinni fylgdu þrjátíu merar og fannst okkur upplagt að láta þær skila tekjum inn i reksturinn og höfum því stundað blóðtöku sem hliðarbúgrein allar götur síðan.“

Blóðtökutímabilið

Í dag heldur fjölskyldan 90 merar. Stóðið gengur úti allt árið og er grundvallarforsenda á slíku hestahaldi mikið jarðnæði, bæði til beitar og heyja sem Móeiðarhvoll býr vel að.

„Í maí flokkum við merarnar niður í 5-6 hólf og hleypum graðhesti í þær, um 15-20 hryssur hjá hverjum hesti. Um miðjan júlí tökum við graðhesta úr hólfum, rekum heim og þá hefst tímabilið fyrir alvöru,“ segir Bóel og vísar þá í 11 vikna tíð þar sem hryssurnar eru vikulega reknar heim í rétt í meðhöndlun.

„Þá er farið í gegnum allan hópinn, blóð tekið úr þeim merum sem eru jákvæðar fyrir hormóninu og sýni tekið úr hinum. Þegar líður á tímabilið minnkar magn hormónsins í blóði og þá er blóðtökunni lokið það árið. Sumar fara í blóðtöku 2-4 sinnum og aðrar oftar.“

Hormónið sem sóst er eftir heitir „Equine Chorionic Gonadotropin“, skammstafað eCG, en hefur einnig verið kallað „Pregnant Mare Serum Gonadotrophin“, og hefur í umræðunni verið þekkt sem skammstöfunin PMSG. Hormónið mælist fyrst í fylfullum hryssum frá 35.–40. degi meðgöngunnar en styrkur þess vex hratt fram að degi 60. Eftir það lækkar hann smám saman fram að degi 120.

Á blóðtökutímanum er einn virkur dagur notaður til að sinna starfseminni.

„Við byrjum morguninn á að reka heim í rétt. Dýralæknir aðstoðar og sér um blóðtökuna sjálfa en auk mín eru venjulega þrír starfsmenn og börnin gjarnan með. Merarnar eru flokkaðar, sýni tekið úr sumum, blóð úr öðrum. Að lokinni meðhöndlun fara þær aftur í graslendi með greiðum aðgangi að vatni og saltsteini. Alls tekur dagsverkið um fjórar klukkustundir en það sem eftir lifir dags hef ég þær á beitarstykki nálægt húsinu svo ég geti fylgst með þeim fram á kvöld. Það eru aldrei nein læti eða æsingur í kringum þessa starfsemi hjá okkur,“ segir Bóel.

Merarnar eru upp til hópar afar rólegar. „Þó flestar þeirra séu ekki tamdar til reiðar þá eru þær tamdar í þetta hlutverk. Þær kunna þetta og þær merar sem hafa verið hérna 10-15 ár eru blíðar og spakar merar þó ekki sé settur hnakkur á þær.“

Bóel líkir blóðtökutímabilinu við aðra tarnavinnu í landbúnaði. „Þetta er svona eins og þegar sauðfjárbændur fara í göngur og réttir. Þetta er góð tilbreyting frá daglegum bústörfum og í raun mjög skemmtileg upplifun. Það er ákveðin stemning í kringum tímabilið, þetta er bæði gaman og spennandi. Eitt af því skemmtilegra sem ég geri er að fara á hestbak og smala og þarna fæ ég tækifæri til þess. Svo vinn ég með dýralækni sem hefur með árunum orðið góður vinur sem ég hitti einungis á þessum tíma árs. Krökkunum þykir ótrúlega gaman að koma að þessu með okkur og það yrði mikil sorg á heimilinu ef starfsemin hætti.“

Bóel segir blóðbúskap almennt mjög góða hliðarbúgrein með mjólkurframleiðslunni. „Þetta stangast ekkert sérstaklega á við aðra álagstíma í búskapnum svo sem heyskap, jarðvinnslu og kornuppskeru.“

Af frjósemi og litadýrð

Í ræðu sinni beinir hún sjónum að gagnrýni hestamanna og hrossaræktenda sem höfðu mælt gegn starfseminni.

„Helstu rök þeirra eru, að mér skilst, ásýnd og markaðsmál íslenska hestsins. En ekki hefur hrossasala minnkað í framhaldi og útflutningstölur hafa aukist. Við höfum í grunninn sama markmið, hvort sem við erum blóðbændur, ölum folöld til slátrunar eða í reiðhestaræktun – það er að hugsa vel um hross. Ef fram kæmi myndband sem sýndi knapa berja hest sem væri tregur til að fara upp á kerru þá kæmi það ekki vel við nokkurt okkar. En að sama skapi vil ég sjá leiðir til að allir sem halda hesta vinni saman og hluti af því er að opna umræðuna og kynna málefnin. Hvað er til dæmis betra fyrir ásýnd íslenska hestsins en heilbrigð hryssa úti í haga með folaldið sitt sem fyljast á náttúrulegan hátt? Er það eitthvað slæmt fyrir markaðssetningu hans?”

Hún tekur dæmi um hvernig reiðhestaræktun og blóðmerabúskapur getur unnið saman.

„Nú eru engin frjósemislyf notuð í þessum búskap. Þarna er náttúran 100% að verki. Það er hins vegar staðreynd að frjósemisvandamál í landbúnaði eru að verða algengari, meira að segja meðal hrossa hér á landi sem þurfa þá aðstoð. Svo leika stóðbændur, með blóðmerar, sér oft með litafjölbreytileika og para hross saman á grundvelli þeirra. Litadýrð og frjósemi eru verðmæti sem eiga mögulega eftir að koma sér vel fyrir heildarræktunarstarfið ef við horfum fram í tímann.“

Þá nefnir hún að eigendur stóðhesta nýti sér merastóð bænda.

„Við höfum oft verið með vel ættaða ungfola sem reynast svo farsælir kynbótahestar. Þarna fá þeir sína fyrstu reynslu, það kemur í ljós hvernig þeir haga sér í stóðinu og hvernig frjósemi þeirra er. Ég held það sé dýrmætt að nýta sér það.“

Börnin á heimilinu taka virkan þátt í allri starfsemi á búinu og hafa að sögn Bóelar gaman af að taka þátt í blóðmerabúskapnum. Mynd / Einkasafn

Framtíð blóðbúskapar

Nokkur óvissa ríkir nú um framtíð blóðbúskapar á Íslandi. Starfshópur á vegum matvælaráðherra skoðar starfsemina, regluverkið og eftirlit í kringum hana og von er á lokaskýrslu með tillögum til ráðherra í þessum mánuði. Þá er frumvarp um bann við blóðmerahaldi í meðförum Alþingis.

Nýlega birt skýrsla Matvæla­stofnunar, sem annast eftirlit með starfseminni, tiltekur að blóðtakan eins og hún er framkvæmd hér stangist ekki á við lög um velferð dýra. Engar vísbendingar séu um að blóðtakan hafi neikvæð áhrif á heilsu og blóðbúskap hryssnanna. Hins vegar sé tilefni til að auka eftirlit stofnunarinnar með blóðtökunni sem hefur nú þegar gert breytingar á skilyrðum starfseminnar.

Bóel Anna vonar þó að blóðmerahald leggist ekki af. „Við höfum nóg af landsvæði á Íslandi og það er það sem blóðmerastóð þurfa. Þau geta nýtt land sem er annars illnýtanlegt og slíkum landsvæðum er ekki fyrir að fara í öðrum Evrópulöndum. Þetta er gott fyrir sveitirnar og allur búskapur styrkir búsetu á landsbyggðinni.

Hins vegar þarf að athuga alvarlega stærð stóða. Ég myndi vilja að upplagið yrði þannig að blóðmerahald væri hliðarbúgrein með öðrum búskap. Ég vil ekki sjá mörg hundruð hryssur í einum hóp í ofbeittu landi í eigu fólks sem býr ekki á staðnum.

Við þurfum að bæta ásýnd búskaparins og aðbúnaðinn við starfsemina og við fögnum bæði auknu eftirliti og rannsóknum á henni. Í grunninn held ég að allir sem stunda þennan búrekstur séu að reyna að gera sitt allra besta.“

Skylt efni: blóðmerar | Móeiðarhvoll

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...