Íslenska skyrinu fagnað í Skyrlandi á Selfossi
Það var stór hópur boðsgesta, sem mætti á formlega opnun Skyrlands í nýja miðbænum á Selfossi fimmtudaginn 21. október. Um er að ræða nýja upplifunarsýningu um skyr og matarmenningu Íslands. Sýningin hefur verið í undirbúningi í þrjú ár en aðalhönnuður hennar er Snorri Freyr Hilmarsson, leikmynda- og sýningahönnuður.
Elísabet Ósk Guðlaugsdóttir, rekstrarstjóri Skyrlands, með foreldrum sínum, þeim Guðlaugi Gunnari Björnssyni og Rut Fjölnisdóttur, sem eru að sjálfsögðu mjög stolt af dóttur sinni.
Skyrland er í eigu Skyrheima, félags sem Mjólkursamsalan og Sigtún Þróunarfélag stofnuðu utan um verkefnið. Saga Selfoss er nátengd skyrgerð og mjólkuriðnaði á Íslandi. Fljótlega eftir stofnun Mjólkurbús Flóamanna og byggingu gamla mjólkurbúsins 1929 hófst fyrir alvöru iðnaðarframleiðsla ýmissa mjólkurafurða hér á landi og þar á meðal skyrsins. Staðsetning mjólkurbúsins skammt frá Ölfusárbrú dró til sín fjölda starfsmanna, sem voru meðal frumbyggja hins nýja bæjar sem stækkaði hratt í kjölfarið.
Starfsmenn MS á Selfossi, þau Jóna Steingrímsdóttir og Björn Magnússon (t.v.) og kúabændurnir í Bryðjuholti í Hrunamannahreppi, þau Samúel Eyjólfsson og Þórunn Andrésdóttir, mættu við opnunina, alsæl með nýju sýninguna.
Ari Edwald hjá MS og Magnús H. Sigurðsson, fyrrverandi bóndi í Birtingaholti í Hrunamannahreppi, eru mjög ánægðir og stoltir af nýja Skyrlandinu í nýja miðbænum á Selfossi.