Jaðrakan
Jaðrakan er fremur stór vaðfugl, hann er alfarið votlendisfugl og einn af einkennisfuglum votlendis á láglendi. Líkt og margir vaðfuglar er hann háfættur, með langan háls og langt nef. Hann er útbreiddur um mest allt land en þó að mestu eða alfarið á láglendi og telur stofninn um 68.000 varppör. Þeir verpa í eða í nágrenni við alls konar votlendi og fela hreiðrin sín iðulega mjög vel. Jaðrakan er alfarið farfugl á Íslandi og heyra íslenskir jaðrakanar til sérstakrar undirtegundar (L.I. islandica). Þeir hafa vetrardvöl að mestu á Bretlandseyjum en einnig í Vestur-Evrópu og suður til Spánar. Jaðrakan getur verið fremur hávær, sérstaklega á varpstöðvum þar sem hann er nokkuð órólegur. En hljóðið í honum er nokkuð einkennandi hávært og hvellt „vaddúddí - vaddúddí“.