Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Hirt í vestfirska torfhlaðna votheystótt um miðja síðustu öld.
Hirt í vestfirska torfhlaðna votheystótt um miðja síðustu öld.
Mynd / Teikning: BG
Líf og starf 14. september 2016

Jarðgryfjur votheys – hlaðnar súrheystóttir

Höfundur: Bjarni Guðmundsson
Votheysgerð var fyrst kynnt Íslendingum fyrir 140 árum. Frumkunnáttan barst frá Noregi. Það var Sveinn Sveinsson búfræðingur, er síðar varð fyrsti skólastjóri Hvanneyrarskóla, sem kynnst hafði verkunaraðferðinni í námi sínu við Búnaðarskólann á Steini á Hörðalandi og lýsti henni í grein í tímaritinu Andvara árið 1876.
 
Í Noregi var súrheyið, eins og það var jafnan kallað á þeim árum, m.a. verkað í steinmúruðum þróm (silo, surhøkjælder), sennilega að erlendum fyrirmyndum. Hérlendis var ekki um auðugan garð að gresja hvað snerti byggingarefni. Fyrstu íslensku gryfjurnar sem sögur fara af voru jarðgryfjur, gjarnan nefndar súrheystóttir, grafnar í hóla eða hauga. Í þéttum og föstum jarðvegi hafa þetta án efa getað orðið hinar ágætustu súrheysgeymslur.
 
Myndin er dregin eftir lýsingu Björns Bjarnarsonar búfræðings af „súrheyskjallara“ sem hann kvaðst hafa gert „... í gömlum, grónum öskuhaugi“ á Mið-Fossum í Andakíl síðsumars árið 1881.
 
En svo mun það hafa tíðkast að hlaða gryfjuveggina að innan með torfi. Þannig gat fengist mjög þétt, slétt og áferðarfallegt yfirborð sem einnig stuðlaði að því að heystæðan seig hindr­analítið og án þess að spilla gryfjuveggjunum. Fyrstu jarðgryfjurnar voru kantaðar en brátt mun hringformið hafa orðið alsiða.
Með þessum pistli vildi ég í fyrsta lagi vekja athygli á þessum löngu horfna verkhætti bænda og í öðru lagi leita eftir heimildum, frásögnum, sögum eða áþreifanlegum leifum af þessum mannvirkjum.
 
Ég man tvær jarðgryfjur (tóttir) fyrir vothey á æskubýli mínu, Kirkjubóli í Dýrafirði, hvar af önnur var nær árlega í notkun fram á miðjan sjötta áratug síðustu aldar en í henni var verkað vothey handa kúnum til gjafar á útmánuðum. Sú var hringlaga; hlaðin að innan með torfi, líklega fast að 3 m í þvermál og nærri tvær mannhæðir á dýpt, með svo sem 0,6–0,8 m háum vegg ofanjarðar en á honum hvíldi lítið eitt hallandi þakið – járnslegið. Það var fjarlægt að mestu við hirðingu/fyllingu gryfjunnar. Hin gryfjan hefur sennilega verið ögn minni en sömu megingerðar, aflögð fyrir mitt minni. 
 
Mér var sagt að fyrir verkum við gerð og hleðslu gryfjanna hefði staðið Gunnar Guðmundsson, þá ungur bóndi á næsta bæ, Hofi í Kirkjubólsdal; líklega á þriðja eða fjórða áratug aldarinnar. Gunnar mun hafa hlaðið fleiri jarðgryfjur þar í sveit og með sínum hætti lagt sig eftir þessum verkháttum, en Gunnar var framsækinn bóndi og hugmyndaríkur.
 
Það heyrir svo til þessarar sögu að á seinni hluta síðustu aldar gripu stöku bændur til votverkunar heys í jarðgryfjum sem neyðarlausnar í óþurrkasumrum. Dæmi voru um að ruddar væru gryfjur með ýtu (skurðgryfjur) og nýslegnu heyi dengt í þær og það verkað þar með dágóðum árangri. Slíkar votheystóttir urðu þá bráðabirgðalausnir, notaðar aðeins í eitt ár eða svo. 
 
Jæja, en þá er það erindi mitt við lesendur Bændablaðsins: 
 
  1. Man einhver eftir torfhlöðnum votheysgeymslum – súrheystóttum – eins og að framan er lýst, gerð þeirra eða notkun?
  2. Veit einhver til þess að enn standi einhvers staðar leifar af torfhlöðnum súrheystóttum, leifar sem hann kann þá frá að segja?
  3. Sé svo væri ég ákaflega þakklátur fyrir ábendingar, frásagnir, myndir eða aðra miðlun og/eða skráningu fróðleiks um þennan þátt íslenskrar búmenningar.
 
Bjarni Guðmundsson
Landbúnaðarsafni Íslands
bjarnig@lbhi.is

Skylt efni: heyverkun | súrhey

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...