Kjassgefinn forystuhrútur
Olga Marta Einarsdóttir, sauðfjárbóndi á bænum Einarsstöðum í Reykjadal, á sér einn uppáhaldshrút í fjárhúsinu en það er mjög fallega hyrndur forystuhrútur, sem Olga segir ofurfallegan.
Hrúturinn er fæddur 2016 í Hellulandi í Aðaldal hjá Snjólaugu Önnu Pétursdóttur og Kristjáni Hólmgeiri Sigtryggssyni en Olga fékk hann í skiptum fyrir gráan gerðarhrút. Hrúturinn heitir Moreward Haig eftir uppáhalds sögupersónu móðurafa Olgu en sá Haig var „fullnumi“, eins konar andlegur gúrú.
„Hrúturinn hefur höfðinglegt lundarfar, vill að maður sýni honum virðingu og þá fær maður virðingu á móti. Hornin byrgja honum aðeins sýn, svo hann virðist stundum hvumpinn en hann er líka afar þakklátur þegar ég hreinsa hey frá augum hans en það vill setjast ofan á hornin. Hann er afar kjassgefinn og ljúfur. Forystueðlið er ágætt, hann fer á undan heim og er ekki óþægur,“ segir Olga Marta, rígmontin með fallega hrútinn sinn.
Olga Marta Einarsdóttir, sauðfjárbóndi á bænum Einarsstöðum í Reykjadal,
með forystuhrútinn Moreward Haig.