Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Kjötmeistari Íslands 2022, Sigurður Haraldsson eigandi Pylsumeistarans, og Oddur Árnason, formaður Meistarafélags kjötiðnaðarmanna (MFK).
Kjötmeistari Íslands 2022, Sigurður Haraldsson eigandi Pylsumeistarans, og Oddur Árnason, formaður Meistarafélags kjötiðnaðarmanna (MFK).
Mynd / Hörður Kristjánsson
Líf og starf 12. apríl 2022

Kjötmeistari Íslands 2022 er Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Kjötmeistari Íslands 2022 í Fagkeppni Meistarafélags kjötiðnaðarmanna er Sigurður Haraldsson, sem á og rekur Pylsumeistarann við Hrísateig (Laugalæk) í Reykjavík. Kjötiðnaðarmeistarar frá Sláturfélagi Suðurlands urðu í öðru til fjórða sæti og var afar mjótt á munum í stigakeppninni.

Áhersla er lögð á fagleg vinnubrögð við matið á þeim vörum sem sendar voru til keppni. Hér er verið að skoða grafið kjöt. 

Fagkeppni Meistarafélags kjötiðnaðarmanna fór fram í fyrri viku og voru úrslit kynnt í Hótel- og matvælaskólanum í Kópavogi laugardaginn 26. mars þar sem verðlaunaafhending fór einnig fram. Í keppninni hreppir stigahæsti  keppandinn titilinn Kjötmeistari Íslands. Það er sá sem fær flest stig úr fimm stigahæstu vörunum sínum. Átti Sigurður bestu vöruna sem unnin var úr svínakjöti, en það var rúllupylsa. Fékk hann einnig sérverðlaun fyrir rúllupylsu í flokkunum bestu vörur úr elduðum kjötvörum og einnig fyrir EM pylsu, reykt og soðin, sem var besta varan í flokknum soðnar pylsur.

Verðlaunapylsur Sigurðar Haraldssonar í Pylsumeistaranum. 

Kjötmeistarar frá SS í öðru, þriðja og fjórða sæti

Aðeins 4 stig skildu að þá sem lentu í fyrsta og fjórða sæti. Þá vekur einnig athygli að í öðru til fjórða sæti eru allt kjötiðnaðarmenn sem starfa hjá Sláturfélagi Suðurlands.

  • Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var í fyrsta sæti og hlaut flest stig, eða 254.
  • Í öðru sæti var Bjarki Freyr Sigurjónsson hjá Sláturfélagi Suðurlands með 252 stig.
  • Í þriðja sæti var Steinar Þórarinsson hjá Sláturfélagi Suðurlands með 251 stig.
  • Í fjórða sæti var Jónas Pálmar Björnsson, einnig hjá Sláturfélagi Suðurlands, sem hlaut 250 stig.

Magnús Friðbergsson og Árni Níelsson meta eina keppnisvöruna.

Sölustjóri Samhentra afhenti verðlaunin

Guðráður G. Sigurðsson, sölustjóri hjá Samhentum umbúðalausnum, afhenti Sigurði Haraldssyni, Kjötmeistara Íslands 2022, verðlaunagripinn. Mælti Guðráður nokkur orð við þetta tækifæri og þakkaði Meistarafélagi kjötiðnaðarmanna sérstaklega fyrir að veita fyrirtækinu tækifæri til að taka þátt í þessum viðburði.

Sagði hann að Valdimar Gíslason (VGÍ ehf.) hafi afhent verðlaunin í mörg ár en síðan hafi Samhentar umbúða-lausnir tekið við því hlutverki eftir að hafa keypt VGÍ árið 2007. Þá hafi fleiri haft þetta hlutverk með höndum, en nú væri boltinn aftur kominn til Samhentra.

Félagar í Meistarafélagi kjötiðnaðarmanna bera saman bækur sínar um mat á tvíreyktu lambakjöti sem sent var í Fagkeppni MFK. Talið frá vinstri eru þau Erla Jóna Guðjónsdóttir, Eðvald Sveinn Valgarðsson, Sigurfinnur Garðarsson, Þorsteinn Þórhallsson og Kristján G. Kristjánsson.

Stórkostleg samvinna búgreina og kjötiðnaðarmanna

„Við erum mjög stolt af því að vera bakhjarl Meistarafélags kjötiðnaðarmanna. Ég tók eftir því að það voru hér verðlaun frá búgreinafélögunum (Landssamband sauðfjárbænda, Landssamtök kúabænda, Svínaræktarfélag Íslands, Félag kjúklingabænda og Hrossaræktendur, en búgreinafélögin eru nú öll orðin að deildum í Bændasamtökum Íslands). Ég skrifaði einmitt langan pistil í Bændablaðið á sínum tíma um að ég saknaði þess að þessi félög mættu á þennan viðburð. Samvinna búgreinanna og íslenskra kjötiðnaðarmanna er einmitt alveg stórkostleg. Þarna fer fram samtal sem þarf að eiga sér stað alla daga. Það eru ofboðslega margar flottar vörur sem hér eru fram-leiddar og mikill metnaður í íslenskum kjötiðnaðarmönnum og í raun eru kjötiðnaðarmeistarar sendiherrar búgrein-afélaganna á markaði.“

Frábært að upplifa jákvætt viðmót kjötiðnaðarmanna

„Ég hef ferðast um landið í ein 18 ár og selt krydd, umbúðir og fleira og oft verið með útlendinga með mér í þes-sum ferðum. Alltaf dást þeir af því hversu hátt gæðastig er í okkar framleiðslu og á okkar kjöti. Hversu allar kjötvinnslur eru vel tækjum búnar og hversu jákvætt viðmót er hjá íslenskum kjötiðnaðarmönnum og kjötiðnaðarmeisturum til nýjunga. Það sé frábært að upplifa það að fá að koma fram með hugmynd og alltaf sé viðkvæðið hjá þeim jákvætt; við gerum þetta bara. Ég er ótrúlega stoltur af því að fá alltaf þetta jákvæða viðmót, það er algjörlega frábært,“ sagði Guðráður G. Sigurðsson um leið og hann afhenti Sigurði Haraldssyni verðlaunagripinn.

101 vara send í keppnina

Alls var 101 vara send inn í keppnina og fengu 72 vörur verðlaun. Þar af fengu 53% innsendra vara gullverðlaun, 53% fengu silfur-verðlaun og 30% fengu brons-verðlaun.

 

  • Til þess að fá gullverðlaun þurfti varan að fá 49-50 stig og vera nánast gallalaus.
  • Til þess að fá silfurverðlaun þurfti varan að fá 46-48 stig og mátti aðeins vera með lítils háttar galla.
  • Til þess að fá bronsverðlaun þurfti varan að fá 42-45 stig. 

Kjötiðnaðarmeistarar úr MFK sáu um að dæma vörurnar í húsnæði Menntaskólans i Kópavogi. Verð-launa-peningar voru í boði Kötlu.

Athyglisverðasta nýjung keppninnar

Fyrir athyglisverðustu nýjungina var veitt sérstök viðurkenning og var það Bewi Iceland sem veitti þau verðlaun. Hlutskarpastur í þessum flokki var Bjarki Freyr Sigurjónsson hjá Sláturfélagi Suðurlands fyrir Hangikæfu með uppstúf.

Verðlaun búgreina – Besta varan unnin úr nautakjöti

Landssamband kúabænda veitti verðlaun fyrir bestu vöruna unna úr nautakjöti. Þar var Steinar Þórarinsson, Sláturfélagi Suðurlands, hlutskarpastur með Sælkeranaut (pipargrafið nautafile).

Verðlaun búgreina – Lambaorðan

Landssamtök sauðfjárbænda veitti lambaorðuna þeim kjöt- iðnaðarmanni sem átti bestu vöruna unna úr lambakjöti. Þar var Bjarki Freyr Sigurjónsson frá Sláturfélagi Suðurlands hlutskarpastur með Hangikæfu með uppstúf.

Verðlaun búgreina – Besta varan unnin úr alifuglakjöti

Félag kjúklingabænda veitti sérstök verðlaun fyrir bestu vöruna unna úr alifuglakjöti. Hlutskarpastur í þeim flokki var Jónas Pálmar Björnsson  frá Sláturfélagi Suðurlands með Konfektkæfu.

Verðlaun búgreina – Besta varan unnin úr svínakjöti

Svínaræktarfélag Íslands veitti verðlaun fyrir bestu vöruna unna úr svínakjöti. Þar var Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum hlutskarpastur með Rúllupylsu.

Verðlaun búgreina – Besta varan unnin úr folaldakjöti

Kjötframleiðendur og hrossaræktendur veittu sérstök verðlaun  fyrir bestu vöruna unna úr hrossa- eða folaldakjöti. Jónas Þórólfsson í Frávik var þar hlutskarpastur með Hvanngrafið hrossafile. 

Sérverðlaun – Bestu varan í flokknum eldaðar kjötvörur

Danól veitti verðlaunin fyrir þennan flokk þar sem Sigurður Haralds-son í Pylsumeistaranum var hlutskarpastur með Rúllupylsu.

Sérverðlaun – Bestu varan í flokknum soðnar pylsur

PMT veitti verðlaunin  þar sem Sigurður Haraldsson í Pylsu-meistaranum var líka hlutskarpastur með EM pylsu, reykta og soðna.

Sérverðlaun – Besti reykti eða grafni laxinn

Verslunartækni Geiri veitti þar verðlaun. Hlutskarparpastur í þeim flokki var Rúnar Ingi Guðjónsson hjá Frávik með Grafinn lax.

Sérverðlaun – Besta varan í flokknum sælkeravörur

Matvélar og umbúðir veitti verðlaunin þar sem Jónas Þórólfsson í Frávik var hlutskarpastur með Hvannargrafið hrossafile.

Sérverðlaun – Besti varan í flokknum kæfur og paté

Fyrirtækið ÍSAM veitti verðlaun í þessum flokki, en Steinar Þórarinsson hjá Sláturfélagi Suðurlands var hlutskarpastur með Súkkulaðikæfu með jarðarber-ja-hlaupi.

Sérverðlaun – Besti reykti eða grafni silungurinn

Katla veitti verðlaun í þessum flokki. Þar varð Ómar Fransson í Sólskeri hlutskarpastur með Reyktan regnbogasilung.

Yfirdómari var Eðvald Sveinn Valgarðsson. Meðdómarar voru Árni Níelsson, Arnar Sverrisson, Erla Jóna Guðjónsdóttir, Ómar B. Hauksson, Kristján G. Kristjánsson, Magnús Friðbertsson, Hreiðar Örn Zoëga Stefánsson og Þorsteinn Þórhallsson. Fagkeppnisnefnd MFK stóð á bak við þennan viðburð, en hana skipa Jón Þorsteinsson formaður, Sigurfinnur Garðarsson, Ingólfur, Baldvinsson og Hafþór Hallbergsson, en ritari er Björk Guðbrandsdóttir.

Fagkeppni í 30 ár

Frá árinu 1992 hefur Meistara­félag kjöt­iðnaðarmanna staðið fyrir fagkeppni á meðal kjöt­iðnaðar­manna, um nýjungar í kjöt- og fiskafurðum, en félagið var stofnað 5. febrúar 1990. Keppn­in, sem  haldin var í mars, var sú 15. í röðinni.

Fagkeppninni var frá upphafi ætlað að efla gæðavitund kjöt­iðnaðar­manna með því að verðlauna þá sem sköruðu fram úr í gæðum. Í framhaldi af fyrstu keppninni var tekið þátt í alþjóðlegri fagkeppni í Danmörku þar sem Íslendingar unnu til margra verðlauna og þá sérstaklega fyrir unnar vörur úr lambakjöti.

Mikil gróska hefur verið í íslenskum kjötiðnaði hin síðustu ár og er það að hluta til vegna innlendra sem erlendra keppna sem aðilar tengdum kjötiðnaði hafa tekið þátt í. Fagkeppnin fer fram í þremur flokkum ásamt aukakeppni þar sem lax og silungur er aðalinnihald vöru.

Í gegnum tíðina hafa  búgreinafélögin stutt keppnina með því að veita verðlaun fyrir bestu vöruna í eftirfarandi flokkum: Nautakjöti, lambakjöti, alifuglakjöti, svínakjöti og hrossa- og folaldakjöti,  og þarf því að tilgreina hver sé meginkjöttegundin í vörunni. Einnig eru sérstök verðlaun veitt fyrir bestu elduðu vöruna, bestu hráverkuðu vöruna, athyglisverðustu nýjungina, bestu kæfuna/paté og bestu soðnu vöruna.

Þær vörur sem flest stig hljóta frá hverjum keppanda telja í lokin til titils Kjötmeistara Íslands, en þann titil hlýtur eins og áður sá sem flest stig hlýtur í heildina.

Allar vörur sem tilheyra kjötiðnaðinum eru gjaldgengar, eins og verið hefur í fyrri keppnum, hvort sem þær eru unnar úr kjöti, fiski, fuglum, innyflum eða allt það sem að menn telja að tilheyri faginu. Keppandinn sem hlýtur flest stig samanlagt úr fimm stigahæstu vörum sínum í keppninni hlýtur titilinn „Kjötmeistari Íslands 2022“. 

Síðustu ár hefur töluvert verið rætt um þróun iðnmenntunar á Íslandi. Hlutfall þeirra nema sem ljúka iðnámi fer fækkandi. Þessi þróun er þó ekki séríslenskt fyrirbæri heldur er þetta þekkt víða í nágrannalöndum okkar.

Áhyggjur okkar iðnaðarmanna eru þó nokkrar og mikið hefur verið rætt um að finna leiðir til að auka áhuga ungs fólks á iðnámi. Eitt af markmiðum MFK er að kynna iðngreinina fyrir  ungu fólki, að það sjái fjölbreytileikann í starfi kjötiðnaðarmannsins. Ein slík leið er í keppnum iðnaðarmanna, eins og fagkeppni kjötiðnaðarmanna.

Hreiðar Örn Zoëga Stefánsson

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...