Kristinn nýr framkvæmdastjóri Sólheima
Kristinn Ólafsson hefur verið ráðinn í stöðu framkvæmdastjóra Sólheima í Grímsnesi til næstu fimm ára.
Hann hefur starfað sem rekstrarstjóri á Sólheimum frá því í janúar á þessu ári. Kristinn er fæddur og uppalinn í Reykjavík, giftur Cecilie Björgvinsdóttur, en hún er mannauðsstjóri hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Þau hafa búið á Selfossi síðan hún tók við þeirri stöðu árið 2015. Kristinn og Cecilie eiga þrjú börn og sex barnabörn. „Sólheimar hafa lengi heillað mig. Þar er einstakt samfélag sem byggir á samheldni og kærleika allra sem þar búa og starfa. Þau gildi sem þar eru í hávegum höfð höfða sterkt til mín og mig langaði til að leggja mitt af mörkum til að sjá þetta samfélag styrkjast og vaxa,“ segir Kristinn.
Um 100 manna samfélag
Sólheimar eru sjálfbært samfélag þar sem rúmlega 100 einstaklingar búa og starfa saman.
Sólheimar eru stofnaðir árið 1930 af Sesselju Hreindísi Sigmundsdóttur. Byggðahverfið leggur áherslu á ræktun manns og náttúru. „Starfseminni hjá okkur er gróflega skipt í tvennt.
Við erum félagsþjónusta með 45 heimilismönnum og síðan hliðarrekstur sem styður við starfsemina. Við erum með veitingahús, verslun, gistiheimili, garðyrkjustöð og skógrækt. Þessi starfsemi vinnur vel saman og gerir það að verkum að gestir og gangandi geta komið til okkar, kynnst okkur og notið umhverfisins og þess sem staðurinn hefur upp á að bjóða. Það er okkur mikilvægt að vera hluti af samfélaginu og við hvetjum fólk til að heimsækja okkur og kynnast staðnum. Við bjóðum upp á kynningar á starfseminni og hugmyndafræðinni sem hún byggir á. Nýlega höfum við opnað sögusafn þar sem hægt er að kynnast sögu Sólheima og upphafskonu staðarins, Sesselju Hreindísi Sigmundsdóttur,” segir Kristinn.
Eins og lítið bæjarfélag
Þegar Kristinn er spurður hvað sé best við Sólheima stendur ekki á svarinu. „Staðurinn er einstakur á svo margan hátt. Bæði er umhverfið ótrúlega fallegt og þar er mikil veðursæld, en það sem stendur þó upp úr er samfélagið. Samfélagið á Sólheimum er einstakt á Íslandi og þótt víðar væri leitað.
Sólheimar eru eins og lítið bæjarfélag þar sem allir fá að vera eins og þeir eru að upplagi, fordómalaust. Allir fá að njóta sín og leitast er við að efla styrkleika hvers og eins. Þegar Sólheimar voru stofnaðir þótti þessi hugmyndafræði að mörgu leyti fráleit. Þá var aðskilnaðarstefna í þjóðfélaginu og fólk dregið í dilka.
Þeir sem voru álitnir öðruvísi en fólk flest liðu mikið fyrir þá stefnu. Sesselja vann ötullega á móti slíkum fordómum og taldi að allir ættu að eiga jafnan rétt til að vaxa og þroskast í samfélagi hvert við annað. Mér finnst það hafa tekist vel,“ segir Kristinn.
Hann segir jafnframt að góður andi ríki á staðnum og allir leggja sitt af mörkum til að gera samfélagið sífellt betra. „Samfélagið byggir á hugmyndum um sjálfbærni, kristnum gildum og mannspeki, en er fyrst og fremst byggt upp með þarfir heimilismanna að leiðarljósi,“ segir hann.
Tónleikar alla laugardaga
Það verður mikið um að vera á Sólheimum í sumar allar helgar. „Það eru tónleikar í kirkjunni, eða úti ef veður og aðstæður leyfa, alla laugardaga kl. 14 fram til 19. ágúst. Þar að auki er Græna kannan, kaffihúsið okkar, opið. Verslunin Vala er alltaf vinsæl, en þar er hægt að kaupa listmuni eftir íbúa staðarins og lífrænt ræktað grænmeti úr garðyrkjustöðinni Sunnu auk nytjamarkaðar.
Skógræktarstöðin Ölur býður upp á að versla trjáplöntur af ýmsum gerðum. Sólheimasafnið er opið í allt sumar og listsýningar eru í gangi. Auk listsýningar í versluninni Völu er listsýning í Sesseljuhúsi, en þar er listakonan Guðrún Arndís Tryggvadóttir með sýningu sem kallast „ONÍ“. Við viljum hvetja alla sem geta til að heimsækja okkur og njóta alls sem staðurinn hefur upp á að bjóða,“ segir Kristinn að lokum.