Liggur þú í glimmerpækli?
Eftir drunga sumarsins dreymir sjálfsagt marga um örlítið glitur vonar. Það má auðvitað finna í sálarkirnum hvers og eins en þeir sem vilja virkilega lýsa upp heiminn ættu að snúa sér að einhverju haldbærara.
Þarna koma pallíettur sterkar inn í leikinn. Margir umhverfis- verndarsinnar telja þó pallíettur verkfæri djöfulsins, en meðal annars hefur fréttastofa BBC fjallað um gífurlega skaðsemi þeirra á umhverfið. Til að mynda varpaði blaðamaður BBC ljósi á að við framleiðslu væru pallíetturnar slegnar úr plastplötum sem þyrfti að farga.
Förgun plastafurða er ávallt áskorun – enda hafa viðstaddir fengið svæsna reykeitrun þegar reynt hefur verið að brenna það sem eftir stendur. Hefðbundnar pallíettur sitja því á urðunarstað í mörg hundruð ár, þar sem plast brotnar ekki niður. Einhverjar þeirra lenda í hafinu þar sem sjávardýrin heillast af ásýnd þeirra og gleypa þær. Sem enn og aftur er ekki að gera neitt fyrir þau okkar sem neyta sjávarafurða.
Umhverfisvænar pallíettur
Pallíettur má reyndar framleiða á annan hátt. Fyrirtæki Stellu McCartney er eitt sjálfbærasta vörumerki markaðarins, en hún hefur verið einna fyrst til að láta framleiða flíkur sem báru óeitraðar, niðurbrjótanlegar og þá lífrænar pallíettur, með það að markmiði að útrýma pallíettum sem gerðar eru úr plasti og málmi auk annarra skaðvalda umhverfisins. Hefur Stella lengi sett í forgang gagnsætt vinnsluferli og að hringrásarkerfi textíls sé viðhaldið.
Minna hefur borið á samlöndu hennar, hönnuðinum Elissu Brunato sem gerir vistvænar pallíettur úr sellulósa (fjölsykru) trjáa og brotna að lokum niður á náttúrulegan hátt. Glitrandi áferð þeirra og litur kemur skemmtilega á óvart, en sellulósinn, sem má reyndar vinna úr hvaða plöntu sem er, myndast með fjölliða uppbyggingu sem endurkastar ljósi. Samkvæmt Elissu er liturinn afleiðing nanóbyggingar trésins, en engum kemískum efnum eða litarefnum er bætt við til að skapa glitrandi áhrifin.
Eftir að hafa áttað sig á því að hægt væri að nýta sellulósann, hóf Elissa samstarf með sænsku efnafræðingunum Hjalmar Granberg og Tiffany Abitbol með frekari úrvinnslu í huga. Teymið komst að þeirri niðurstöðu að hægt væri að hella vökvabundnum sellulósanum í þar til gert pallílettumót. Eftir að vökvinn í mótinu harðnar verður útkoman nógu sterk til að hægt sé að sauma pallíetturnar í flíkur, en þær munu að lokum brotna niður.
Öll vinna Elissu snýst reyndar um að búa til sjálfbærari útgáfur af vörum sem við notum daglega. Nýlega vann hún með brauðframleiðanda í London við að safna hýði af hveitikornum og breyta því í umbúðaefni. Hún hefur einnig frumsýnt verkefni sem heitir Circular Socks, sokka sem eru ofnir úr trefjum sem auðvelt er að taka í sundur og breyta í nýja sokka. En það er önnur saga.
Meðvituð framtíð tískuiðnaðar
Í kjölfar uppgötvunar Elissu hófu þær Stella McCartney samstarf,
en Elissa á og rekur lífefnafyrirtækið Radiant Matter. Samvinnan gaf góða
raun en saman framleiddu þær stöllur fyrstu flík heims sem ber lífrænu pallíetturnar; samfesting sem birtist almenningi í bandaríska Vogue í apríl á síðasta ári. Var með fréttinni sérstaklega tekið fram að sérhvert efni sem glitrar eða hefur endurskinseiginleika inniheldur hátt hlutfall af jarðolíuplasti, eitraðri húðun eða háu innihaldi málms.
Hefðbundnar pallíettur eru gerðar úr pólýesterfilmu (Mylar) eða vínyl (PVC), sem valda verulegri umhverfis- og heilsuáhættu, innihalda eitruð efni sem safnast upp í lífverum, þar með talið krabbameinsvaldandi efni, svo sem þalöt, auk þess að geta valdið hormónatruflunum.
Á meðan tískuiðnaður í heild sinni heldur áfram að vera einn stærsti þáttur plastneysluvanda heimsins er þetta eitthvað sem hafa þarf á bak við eyrað. Samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum eru 70 milljónir tunna af olíu notaðar til að framleiða pólýester og aðrar gervitrefjar árlega og kom fram í grein Vogue að breskar konur kaupi 33 milljónir pallíettuflíka á hverju hátíðartímabili, þar sem 1,7 milljónir enda á urðunarstað eftir að hafa verið notaðar að meðaltali fimm sinnum. Frá urðunarstöðum er oft greið leið í heimshöfin, en samkvæmt skýrslu EES koma heil 35% af örplasti sjávar frá
fatnaði úr gerviefnum.
Núnú. Til að lífga upp á tilveruna er því annað hvort hægt að finna sér vandaðar og lífrænt ræktaðar pallíettur, eða hreinlega leggjast í (lífrænan) glimmerpækil – enda auðveldara að verða sér úti um slíkt glimmer eins og staðan er í dag. Framtíðarsýn tískuvelda er þó á uppleið er kemur að umhverfisvænni framleiðslu og er von til þess að fyrr en síðar standi efst endurunnin, endurvinnanleg og lífræn vinnsla vörumerkjanna – meðvitaðri framtíð tísku.