Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Lýdía frá Eystri-Hól er hæst dæmda klárhryssa heims með 8,67 í aðaleinkunn. Hún hlaut m.a. 10 fyrir samstarfsvilja. Sýnandi: Árni Björn Pálsson.
Lýdía frá Eystri-Hól er hæst dæmda klárhryssa heims með 8,67 í aðaleinkunn. Hún hlaut m.a. 10 fyrir samstarfsvilja. Sýnandi: Árni Björn Pálsson.
Mynd / Nicki Pfau
Líf og starf 27. júní 2022

Loksins Landsmót

Höfundur: Hulda Finnsdóttir

Minna en vika er til Landsmóts, mótið sem hestamenn hafa beðið óþreyjufullir eftir. Úrtökur hafa farið fram víða um land, ásamt íþróttamótum og kynbótasýningum.

Í fyrsta sinn verður keppt í öllum greinum íþróttakeppninnar ásamt gæðingakeppni og kynbótahrossin verða auðvitað á sínum stað. Sitt sýnist hverjum um þá ákvörðun að bæta við íþróttakeppninni en fróðlegt verður að sjá hvernig mótshöldurum mun ganga með framkvæmd mótsins.

Mótið hefst á sunnudegi 3. júlí á forkeppni í barnaflokki og unglingaflokki en kynbótadómar hefjast einnig á sunnudeginum. Kristín Eir Hauksdóttir Holaker á Þyt frá Skáney hefur vakið verðskuldaða athygli í vor en þau koma efst inn á mótið í barnaflokki með glæsilega einkunn, 8,97. Næstar á eftir henni eru þær Kristín Birta Daníelsdóttir og Fríða Hildur Steinarsdóttir.

Efst inn á mót í unglingaflokki er Hekla Rán Hannesdóttir á Grím frá Skógskoti en Grím þekkja orðið eflaust margir en hann hefur verið að gera það gott í keppni undir stjórn Hönnu Rúnar Ingibergsdóttur. Rétt á eftir Heklu Rán eru þær Þórgunnur Þórarinsdóttir og Elva Rún og Guðný Dís Jónsdætur.

Keppni í ungmennaflokki hefst á mánudeginum en efstur á stöðulista þar er Benedikt Ólafsson á Biskupi frá Ólafshaga. Það er ekki þeirra fyrsta Landsmót saman en þeir sigruðu unglingaflokkinn á síðasta Landsmóti. Rétt á eftir þeim Benedikt og Biskupi eru þau Hákon Dan Ólafsson, Kristján Árni Birgisson og Stefanía Sigfúsdóttir.

Kanónur í gæðingakeppninni

Goði frá Bjarnarhöfn er efstur á stöðulista inn á Landsmót með 8,79 í einkunn en það er Daníel Jónsson sem situr hann. Kjörið tækifæri fyrir Daníel að sigra aftur A flokk á Landsmóti en síðast vann hann flokkinn á Hellu 1994 á Dalvari frá Hrappsstöðum.

Það verður þó ekki auðvelt verk fyrir Goða og Daníel en engir smáhestar eru á stöðulistanum. Fyrrum heimsmetshafinn Þráinn frá Flagbjarnarholti er næstur með 8,77, knapi Þórarinn Eymundsson, á eftir honum eru þeir jafnir Glúmur frá Dallandi, knapi Sigurður V. Matthíasson, og Leynir frá Garðshorni á Þelamörk, knapi Eyrún Ýr Pálsdóttir, með 8,74 í einkunn.

Leynir frá Garðshorni á Þelamörk og knapi hans Eyrún Ýr Pálsdóttir þykja sigurstrangleg í A flokki á Landsmóti hestamanna í byrjun júlí.

Það stefnir í mikla veislu í b flokknum ef úrtökur vorsins og gæðingamót gefa eitthvað til kynna. Ljósvaki frá Valstrýtu kemur efstur á stöðulista inn á mót, knapi Árni Björn Pálsson, en Ljósvaki og Safír frá Mosfellsbæ fóru báðir yfir 9,00 í einkunn í úrslitum á gæðingamóti Fáks. Knapi á Safír er Sigurður Vignir Matthíasson.

Þeir tveir þykja sigurstranglegir en ekki má gleyma sigurvegara b flokksins á fjórðungsmótinu síðastliðið sumar, Adrían frá Garðshorni á Þelamörk, sem er þriðji á stöðulistanum, jafn Ísaki frá Þjórsárbakka, sem er að stíga sín fyrstu skref í greininni. Knapi á Adrían var Daníel Jónsson og á Ísaki Teitur Árnason.

Margir aðrir gríðarsterkir hestar eru á báðum þessum stöðulistum og hér aðeins taldir upp þrír efstu en eitt er víst að þetta stefnir í alvöru gæðingaveislu á Rangárbökkum í byrjun júlí.

Heimsmetin féllu á vorsýningum

Það má með sanni segja að kynbótaárið 2022 hafi byrjað með látum en þrjú heimsmet hafa verið felld, hæsta aðaleinkunn kynbótahrossa frá upphafi, hæsta aðaleinkunn sem klárhryssa hefur hlotið og hæsta hross á hæð á herðakamb.

Alls 853 hross voru sýnd á ellefu vorsýningum. Sýnt var á Gaddstaðaflötum á Hellu (4 sýningar), í Spretti í Kópavogi (1), Sörlastöðum í Hafnarfirði (2), Brávöllum Selfossi (1) og Hólum í Hjaltadal (3) en stærstu sýningarnar voru á Hellu og í Hafnarfirði.

Viðar frá Skör á skeiði. Knapi er Helga Una Björnsdóttir.

Eins og áður kom fram voru þrjú heimsmet felld en Viðar frá Skör felldi eitt þeirra þegar Helga Una Björnsdóttir sýndi hann í 9,04 í aðaleinkunn og varð hann hæst dæmda íslenski hrossið frá upphafi. Hann hlaut fyrir sköpulag 8,89 og fyrir hæfileika 9,12. Viðar er átta vetra undan Hrannari frá Flugumýri II og Vár frá Auðsholtshjáleigu sem er undan Spuna frá Miðsitju og Vordísi frá Auðsholtshjáleigu. Það er Karl Áki Sigurðsson sem er ræktandi hestsins og eigendur eru þau Flemming Fast og Gitte Fast Lambertsen en þau eru einnig eigendur Kveiks frá Stangarlæk 1a sem er hæst dæmdi klárhesturinn.

Annað metið settið Gandi frá Rauðalæk þegar hann mældist 157 cm á hæð á herðakamb. Hann sló sitt eigið met frá árinu áður en þá mældist hann 156 cm á hæð á herðakamb. Sýnandi Ganda var Guðmundur F. Björgvinsson en Gandi hlaut fyrir sköpulag 8,84 og fyrir hæfileika 8,65 sem gerir 8,72 í aðaleinkunn. Gandi er sjö vetra og er sem stendur fjórði hæsti stóðhesturinn í flokki 7 vetra og eldri stóðhesta. Gandi er undan Konsert frá Hofi og Garúnu frá Árbæ sem er undan Aroni frá Strandarhöfði og Glás frá Votmúla 1. Ræktandi og eigandi Ganda er Elisabet Norderup Michelson.

Lýdía frá Eystri-Hól sló heimsmet Kötlu frá Ketilsstöðum þegar hún hlaut 10,0 fyrir samstarfsvilja á yfirliti í Hafnarfirði. Lýdía hlaut þá í aðaleinkunn 8,67 og varð hæst dæmda klárhryssan frá upphafi. Lýdía var sýnd af Árna Birni Pálssyni en hún hlaut fyrir sköpulag 8,81 og fyrir hæfileika 8,59. Ræktandi Lýdíu er Hestar ehf. og eigendur eru Anja Egger-Meier og Kronshof GbR. Lýdía er sjö vetra og undan Lexusi frá Vatnsleysu og Oktavíu frá Feti sem er undan Burkna frá Feti og Ófelíu frá Gerðum. Lýdía er önnur í flokki sjö vetra hryssna en efst er Álfamær frá Prestsbæ sem er hæst dæmda hryssan það sem af er ári.

Álfamær frá Prestsbæ er hæst dæmda hryssan það sem af er ári með 8,98 í aðaleinkunn

Álfamær hlaut í aðaleinkunn 8,87 en fyrir sköpulag hlaut hún 8,57 og fyrir hæfileika 9,02. Það var Árni Björn Pálsson sem sýndi Álfameyju en hann er jafnframt annar eigandi hennar ásamt Önju Egger-Meier. Ræktendur eru þau Inga og Ingar Jensen en Álfamær er undan Spuna frá Vesturkoti og Þóru frá Prestsbæ sem er undan Orra frá Þúfu í Landeyjum og Þoku frá Hólum.

Þrettán tíur

Nokkrar tíur litu dagsins ljós á kynbótabrautinni en fyrir utan tíuna sem Lýdía hlaut fyrir samstarfsvilja hlaut Álfamær 10 fyrir skeið og Sólfaxi frá Herríðarhóli hlaut 10 fyrir tölt og hægt tölt. Hann er einn af þremur hrossum sem hefur hlotið 10 fyrir þessa eiginleika í sama dómi og eini núlifandi stóðhesturinn, en hin hrossin eru Katla frá Ketilsstöðum og Arion frá Eystra-Fróðholti. Sólfaxi er sex vetra undan Óskasteini frá Íbishóli og Hyllingu frá Herríðarhóli sem er undan Herkúles og Hamingju, bæði frá Herríðarhóli.

Sólfaxi frá Herríðarhóli hlaut 10 fyrir hægt tölt og tölt, knapi er Árni Björn Pálsson

Það var Árni Björn sem sýndi Sólfaxa en hann hlaut fyrir sköpulag 8,69 og fyrir hæfileika 8,41 sem gerir 8,51 í aðaleinkunn. Ræktandi Sólfaxa er Ólafur Arnar Jónsson en eigandi er Grunur ehf. og Anja Egger-Meier. Níu hross hafa hlotið 10 fyrir eiginleika í sköpulagi, ein fyrir höfuð, Valdís frá Auðsholtshjáleigu og átta fyrir prúðleika; Sindri frá Lækjamóti, Spennandi frá Fitjum, Kórall frá Hofi á Höfðaströnd, Teningur frá Víðivöllum fremri, Grettir frá Ásbrú, Lína frá Efra-Hvoli, Blesi frá Heysholti og Léttir frá Þóroddsstöðum.
Hæst dæmdi klárhestur landsins

Mette Mannseth sýndi Hannibal frá Þúfum í byrjun júní og hlaut hann fyrir sköpulag 8,66 og fyrir hæfileika 8,69 en það gerir 8,68 í aðaleinkunn. Hannibal er því hæst dæmdi klárhesturinn staðsettur á Íslandi. Hann er þriðji hæst dæmdi klárhestur í heimi á eftir þeim Kveik frá Stangarlæk 1 (8,76) og Arthúri frá Baldurshaga (8,69) en bæði Arthúr og Kveikur eru nú í Danmörku.

Konsert með flest sýnd afkvæmi

Konsert frá Hofi á flest sýnd afkvæmi það sem af er ári, eða 43 afkvæmi, sem hlotið hafa fullnaðardóm á árinu, ef skoðuð eru bara þau hross sem sýnd hafa verið á Íslandi eru þau 39 talsins. Þegar skoðuð er sýningarskrá fyrir Landsmót inn á WorldFeng standa þar efst afkvæmi Konserts í flokki 6 vetra stóðhesta, Magni frá Stuðlum, og í flokki 6 vetra hryssna, Díva frá Austurási. Díva hlaut í aðaleinkunn 8,77 en það var Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir sem sýndi Dívu og Magni hlaut 8,56 í aðaleinkunn en það var Árni Björn Pálsson sem sýndi hann. Næstir í röðinni hvað varðar fjölda sýndra afkvæma eru þeir Skýr frá Skálakoti með 38 afkvæmi (36 á Íslandi) og Spuni frá Vesturkoti með 36 afkvæmi (30 á Íslandi).

Ótrúlegur árangur hjá Garðshorni á Þelamörk

Birna Tryggvadóttir Thorlacius og Agnar Þór Magnússon eru á bakvið ræktunina á Garðshorni á Þelamörk. Þó það sé erfitt að draga eitt ræktunarbú út eftir árangur vorsins þá verða þau að fá smá úttekt þar sem efstu hrossin í 4 vetra flokki hryssna og 4 vetra flokki stóðhesta er ræktuð af þeim og þeir Adrían og Leynir eru báðir í mikilli sókn að vinna Landsmót, hvor í sínum gæðingaflokknum.

Skylt efni: Landsmót hestamanna

Smyrill
Líf og starf 20. nóvember 2024

Smyrill

Smyrill er minnsti og jafnframt algengasti ránfuglinn á Íslandi. Hann er nokkuð ...

Róbóti í stuði
Líf og starf 19. nóvember 2024

Róbóti í stuði

Róbótar Internetsins verða betri og betri í bridds. Þeir eru reyndar oft slakir ...

Förum okkur hægar
Líf og starf 18. nóvember 2024

Förum okkur hægar

Mikið hefur verið fjallað um „fast fashion“ eða hraðtísku í fjölmiðlum sl. ár, þ...

Íslandsmót skákfélaga
Líf og starf 15. nóvember 2024

Íslandsmót skákfélaga

Árlega eru haldin tvö mjög fjölmenn skákmót á Íslandi, Íslandsmót skákfélaga og ...

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók
Líf og starf 13. nóvember 2024

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók

Út er komin ljósmyndabókin Á slóðum íslenskra hreindýra í fylgd með Skarphéðni G...

Nautaskankar
Líf og starf 13. nóvember 2024

Nautaskankar

Þverskornir nautaskankar, oft ranglega merktir sem Osso Buco, eru ekki oft í hil...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 11. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn hefur sjaldan verið óþreyjufyllri en þarf að hægja á sér ef vel á að...

Metnaðarfullt umhverfi
Líf og starf 8. nóvember 2024

Metnaðarfullt umhverfi

Lífið á garðyrkjustöðinni Espiflöt í Reykholti er litríkt. Næstu daga geta lesen...