Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Hönnuðurnir og tilvonandi pizzugerðarmennirnir Birta, Hrefna og Ýr.
Hönnuðurnir og tilvonandi pizzugerðarmennirnir Birta, Hrefna og Ýr.
Líf og starf 3. maí 2023

Má bjóða þér pizzu?

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Hugmyndaríka hönnunarteymið Flétta, þær Birta Rós Brynjólfsdóttir og Hrefna Sigurðardóttir, auk textílhönnuðsins Ýr Jóhanns dóttir, sem þekkt er undir nafninu Ýrúrarí, munu opna pizzustað á HönnunarMars dagana 3. - 7. maí .

Egg eru vinsælt álegg á pizzur, sérstaklega þæfð.

Þeir sem til þekkja gætu furðað sig á uppátækinu, en hingað til hafa þær ekki verið þekktar fyrir að standa fyrir slíkri iðju. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að saman munu þessar lagskonur Fléttu og Ýrúrarí þæfa pizzur úr ullarafgöngum íslensks ullariðnaðs.

Í tilkynningu frá þeim kemur fram að „Á Pítsustund með Fléttu og Ýrúarí verður hægt að kaupa ullarpizzur af matseðli.“ Rétt er að geta þess að pizzurnar sem þæfðar eru á staðnum verða í takmörkuðu upplagi. Höfuðstöðvar þeirra í Kópavoginum iða bókstaflega af lífi og eftirvæntingu þessa dagana, enda nóg að gera við að undirbúa pizzugerðina. Voru þær Birta og Ýr teknar tali einn sólskinsdaginn nýverið en því miður var Hrefna heimavið að sinna veiku barni.

Áhugamenn um efnisbúta

Verkstæði þeirra gefur augaleið að þarna er mikið unnið úr því sem m.a. til fellur frá íslenskum iðnaði og segir Birta að í raun hafi leiðir þeirra Hrefnu og Ýrar legið saman í gegnum farveg textílsins. Tekur sú síðastnefnda undir og segir áhugavert hve mikið hægt sé að vinna með afskurði eða afganga af ýmsu tagi og skemmti þær sér við að finna nýjar leiðir til endurvinnslu. Það sé svo dýrmætt að geta séð hlutina í nýju ljósi.

Þæfingarvélin góða.

Saman ákváðu þær því að setjast niður og forma verkefni þar sem þær gætu unnið að endurvinnslu textíls á Íslandi. Með þá hugsjón fengu þær rannsóknarstyrk frá Hönnunarsjóði og lögðu land undir fót - á Blönduós, spenntar fyrir tilraunum með afskurði frá íslenskum prjónaverksmiðjum, vitandi af þæfingarvél sem þar er staðsett. Í kjölfarið hófst sameiginlegt þæfingarverkefni og prýða þessi fyrstu, fallega samansettu verk, úr afklippum prjónaverksmiðju Hvammstanga, veggi verkstæðis þeirra. „Við fengum alls konar ræmur og úr því þróaðist svona fallegt tungumál, fallegar hringlóttar prufur. Við ætlum að halda verkefninu áfram og sjáum fyrir okkur að setja saman gólfmottur til að byrja með,“ segir Birta. Ýr bætir því við að þær hafi orðið svo spenntar fyrir vélinni að þær hafi ekki ráðið við sig fyrr en þeim tókst að fjárfesta í einni slíkri. „Þetta er líklegast þá önnur vélin á landinu, ég veit ekki betur,“ segir hún. „Það er svo margt hægt að gera með svona vél,“ skýtur Birta inn í, „möguleikarnir endalausir!“

Hugmyndavinna fyrir Hönnunarmars

„Hún var svo skemmtileg hugmyndavinnan. Við vorum í smá galsa og fannst upplagt, fyrst við vorum með þessa hringlóttu prufur og þæfingavélina, að sníða til álegg sem hægt væri að setja á prufurnar áður en þær væru settar inn í vélina. Þetta eru nefnilega sömu handahreyfingar og þegar pizzubakarar eru að setja pizzur inn í ofninn og lengjurnar verða að sömu mjúku línunum og við þekkjum á pizzum,“ segir Birta.

„Eiginlega var það til þess að við ákváðum að fjárfesta í þæfingarvélinni - til þess að geta bakað pizzur á HönnunarMars. Við urðum svo spenntar fyrir hugmyndinni að slíkum viðburði,“ segir Ýr hlægjandi.

„Þetta var svo geggjað,“ heldur Birta áfram „enda til viðbótar hægt að nýta tækifærið og kynna fólki vélina á HönnunarMars.“Þær höfðu velt því fyrir sér hvað hægt væri að gera til þess að vekja áhuga fólks á endurvinnslu, þá helst eitthvað sem að hægt væri að taka þátt í - og pizzugerð var því óvitlaus hugmynd þegar allt kom til alls. „Pizza er auðvitað eitthvað sem allir geta tengt við og þarna tekið þátt í ferlinu með því að velja álegg. Fólk getur keypt hjá okkur pizzulistaverk af matseðli, eða bara valið hvaða álegg hverjum og einum þykir best.“

Ýr bendir á að auk áherslu á endurvinnsluna kynnist fólk því að ull fellur til á ýmsum framleiðslustigum og mismunandi hvernig hægt er að vinna með hana. Þetta séu verðmæti sem hægt er að gera ýmislegt með.

Þessa dagana forvinna þær því pizzubotna og álegg, en mikið úrval litskrúðugra áleggstegunda er í boði. Ananas, beikon, egg, ólífur og basilika eru meðal þess sem hægt er að velja
og þar sem um þurrþæfingu er að ræða geta viðskiptavinir verslað óhindrað – enda ekki um rennblautar sneiðar að ræða. Ýr vill taka fram að auk áleggsins sé hægt að fá það sem þær kalla „ extra toppings“, þá hvítlauk eða chili, en einnig geti áhugasamir hreinlega fengið kusk....

Pizzugerðarmenn framtíðar

Jafnframt þessari skemmtilegu vinnslu, settu þær, í samstarfi við grafískan hönnuð, saman bæði matseðil og merki staðarins, auk stuttermabola og derhúfa sem þær áætla að klæðast sem pizzugerðarmenn.

„Það var svo áhugavert“, segir Birta „að hluti þess sem við rannsökuðum í pizzaferlinu okkar, var saga pizzunnar. Þar komumst við að því að upphaflega var hún búin til, til þess að nýta afganga sem settir voru ofan á hringlóttan botn. Nákvæmlega eins og við erum að gera; nýtum afganga á hringlóttu botnana okkar. Þannig - þetta gæti ekki verið fullkomnara. Svo er þæfing ótrúlega góð leið til endurvinnslu og við hlökkum til að kynna verkin okkar – já og vélina.“ Pizzustað þeirra stallna má heimsækja á dögum HönnunarMars, nánar tiltekið á Laugavegi 32, í Gallerí Port.

Skylt efni: hönnunarmars

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...