Náttúran.is uppfærð
Margir Íslendingar með umhverfismeðvitund kannast við vefinn Náttúran.is. Frá 2007 hefur þannig þenkjandi fólk getað sótt sér upplýsingar og leiðbeiningar um margar hliðar umhverfismála. Guðrún Arndís Tryggvadóttir myndlistarmaður er frumkvöðull þessa verkefnis og var frumhugmyndin með stofnun vefsins sú að með honum fengist tæki til að skapa sjálfbært samfélag í þágu umhverfisvæns lífsstíls. Ný útgáfa vefsins (Náttúran.is 3.0) var tekin í gagnið fyrir skemmstu þar sem ýmsar forvitnilegar nýjungar er að finna.
Hugsjónafólk með reynslu og menntun
Guðrún og maður hennar, Einar Bergmundur Arnbjörnsson, eru helstu aðstandendur vefsins en fjöldi fólks hefur komið að vinnslu efnis, þýðingum og hönnun á þeim tíma sem vefurinn var í undirbúningi og eftir að hann tók til starfa.
Guðrún er myndlistarmaður sem hlaut sérstök heiðursverðlaun í meistaranámi sínu við Akademie der Bildenden Künste í München, hún rak um nokkurra ár skeið auglýsingastofuna Art-Ad í Þýskalandi og síðar hér á Íslandi.
Einar lærði heimildaljósmyndun í Biskops Arnö í Svíþjóð og starfaði lengi við kvikmyndagerð og leikhús en tók til við tölvuumbrot og hönnun í lok níunda áratugarins og var í eldlínunni þegar vefurinn hóf innreið sína. Hann hefur starfað sjálfstætt og fyrir marga stóra aðila hér á landi og erlendis og lokið framhaldsnámi í upplýsingatækni við Háskólann í Liverpool.
Leiðir þeirra lágu aftur saman eftir að bæði fluttu aftur heim, en þá tóku sig upp gamlar ástir. Þau segja skort á upplýsingum um vistvænan lífsstíl, náttúru Íslands og umhverfismál almennt hafi verið þeim þyrnir í augum og þau hafi séð að það gat, sem myndast þegar upplýsingatækni hins opinbera dregst aftur úr upplýsingaþörf samfélagsins, varð að fylla. Með þekkingu þeirra, reynslu af framsetningu upplýsinga – og viljann að vopni – gerði Guðrún viðskiptaáætlun á Brautargengisnámskeiði. Þessi áætlun hlaut mikið lof og opnaði dyr að fjármagni til að hefja rekstur og undirbúning vefsins Náttúran.is.
Þegar hæst bar í undirbúningi voru átta manns á launaskrá hjá þeim, auk aðila í sérverkefnum enda gríðarlega mikið verk að vinna. Þau segja það ávallt hafa verið stefnu þeirra að fá fagfólk til að vinna eða rýna það efni sem unnið er á vefinn og þannig hafa um 30 einstaklingar með víðtæka menntun og reynslu lagt hönd á plóg.
Verkefni og verkfæri Náttúrunnar
Þau segja að markmið Náttúrunnar hafi verið nálgast viðfangsefni sín frá sjónarhóli neytenda, hins almenna borgara. Reynt sé að sjá hlutina með augum þess sem kemur að utan og hefur ekki sérþekkingu eða reynslu. Þannig er reynt að setja hluti fram með því viðmóti sem hentar hverri nálgun. Oft eru sömu hlutir settir fram með ólíkri nálgun, allt eftir því hvaðan notandinn kemur og hvers hann leitar. Með miðlægu gagnasafni sem nú telur vel á annað tugþúsundið, greinasafni með um sjöþúsund greinum og fjölbreyttum venslum má leiða notandann gegnum þennan hafsjó upplýsinga eins og hann væri að skoða lítið barnakver.
Verkfærin til þess eru, auk almennra greina, Húsið, Græna kortið og Grænar síður auk Endurvinnslukortsins – en þessi verkfæri hafa öll nýverið farið í gegnum endurnýjunarferli.
Húsið er einfölduð mynd af heimili og umhverfi þar sem hægt er að fara inn í afmarkaðar einingar og allir hlutir hafa skilgreiningu og upplýsingar um hvað hafa ber í huga við innkaup, notkun og förgun. Við allar efnisgreinar hússins eru svo tengdar fleiri greinar og upplýsingar um aðila eða staði sem tengjast viðkomandi efnisorði. „Húsið“ kom nýverið út sem app fyrir iOS- og Android-stýrikerfin. Í appinu er einnig leikjabanki og tól fyrir neytendur um allar helstu merkingar og vottanir sem hafa með heilsu, orku, náttúru og umhverfi að gera, og nýtast appið þannig sem uppflettitól í innkaupaleiðangrinum.
Græna kortið er á vissan hátt flaggskip Náttúrunnar. Það er gagnvirkt kort og á því eru staðir og aðilar flokkaðir með aðferðafræði Green Map® Systems, kerfis sem upprunnið er í New York og hefur að markmiði að kortleggja umhverfið með upplýsingum sem gagnast þeim sem lifa vilja með umhverfi sínu og gæta vistspora sinna.
Dr. Anna Karlsdóttir, lektor við ferðamálafræði við HÍ, hefur leitt faglega vinnu við kortið. Nú eru um 150 flokkar og tæplega 4.000 skráningar á kortinu sem spanna aðila sem falla undir græna hagkerfið og áhugaverða staði í byggð og náttúru.
Allar skráningar eru samkvæmt viðmiðum Green Map-kerfisins og eru án endurgjalds en þeim aðilum sem vilja bæta við grunnskráningu gefst nú kostur á að bæta við myndum og texta gegn vægu gjaldi. Gagnasafn og kortagrunnur Náttúrunnar býður einnig upp á þann möguleika að gera staðbundin kort, til að mynda fyrir sveitarfélög eða svæði sem vilja bjóða gestum sínum upp á gagnlegar upplýsingar.
Græna kortið hefur verið gefið út á prenti í 60.000 eintökum og þeim hefur verið vel tekið og eru eftirsótt af ferðamönnum enda er flest fólk sem ferðast til landsins umhverfismeðvitað, með áhuga á náttúru og mannlífi.
Endurvinnslukortið er samantekt á öllum stöðum sem taka við úrgangi til flokkunar. Þar má finna hvaða þjónusta er í næsta nágrenni við notandann út frá heimilisfangi eða GPS staðsetningu tölvunnar. Hægt er að skilgreina umfang leitarinnar enda ólíku saman að jafna í þéttbýli og dreifbýli. Í Reykjavík er t.d. miðað við að grenndargámar séu ávallt innan 500 metra frá hvaða heimilisfangi sem er. En þegar farið er til sveita má búast við að slíka þjónustu þurfi jafnvel að sækja tugi kílómetra. Kortið skilgreinir líka tunnuþjónustu sveitarfélaga og skýrir endurvinnsluflokka.
Til að finna Hús-appið á iTunes og Google Play er einfaldlega slegið inn leitarorðið „Húsið“. Fyrir Endurvinnslukortið í iTunes er orðið „Endurvinnslukort“ slegið inn.
Margháttuð samvinna
Einar og Guðrún segja að endurvinnslumál hafi almennt legið nokkuð óbætt hjá garði, nema hjá stóru sveitarfélögunum sem hafa haft bolmagn til að sinna fræðslu og kynningu til sinna íbúa. En í minni sveitarfélögum hafa aðstæður verið aðrar og úr minna að moða. Þau segja að í nýsamþykktum lögum um úrgang sé lögð fræðsluskylda á stofnanir og sveitarfélög í þessum málum og Endurvinnslukort Náttúrunnar geti verið svar við þeirri kvöð. Náttúran á í viðræðum við þessa aðila og standa vonir þeirra til að hægt verði að finna hagkvæma leið sem nýtist öllum til betri þjónustu við íbúa og betri árangurs í endurvinnslu.
Frá upphafi hefur það verið stefna Náttúrunnar að eiga gott samstarf við alla hlutaðeigandi aðila. Upplýsa um verkefni, leita ráða og álits og öllum er frjálst að koma með athugasemdir og greinar á vefinn svo lengi sem efnið er innan almennra velsæmismarka. Einar bendir hins vegar á að afstaða vefsins sé skýr; með náttúru Íslands og heimsins alls.
Aðilar sem Náttúran.is hefur átt í formlegu samstarfi við telja hátt á fjórða tuginn; ráðuneyti, stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök. Vefurinn er nú formlegur samstarfsaðili Vistbyggðaráðs.
Árið 2012 fékk Náttúran.is Kuðunginn, Umhverfisverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins fyrir árið 2011.