Náttúrufegurð og fólksfækkun
Þá var tekinn fyrir Rauðisandur, en núna verður hreppnum norðan heiða gerð skil. Þetta landsvæði er með helstu náttúruperlur sunnanverðra Vestfjarða og er straumur ferðamanna mikill. Rauðisandur, Örlygshöfn, minjasafnið á Hnjóti og Látrabjarg hafa verið vinsælir áfangastaðir, en umferð út í Kollsvík hefur aukist á undanförnum misserum.
Eins og kom fram í fyrri umfjöllun var íbúafjöldi þessa forna hrepps 93 árið 1993, en hefur fækkað mjög hratt á undanförnum árum.
Nokkuð er af fólki sem heldur til á svæðinu hluta úr ári, en einungis ellefu eru með heilsársbúsetu, þar af sex í Rauðasandshreppi norðan heiða. Tveir bræður eru búsettir á Hvalskeri sem gera út vinnuvélar, hjón á Neðri-Tungu í Örlygshöfn með sauðfé og hjón í Hænuvík með sauðfjárrækt og ferðaþjónustu.
Í síðasta tölublaði Bændablaðsins var íbúatala hins forna hrepps ranglega talin vera níu og leiðréttist hér með.