Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
John Deere 6135R er dráttarvél fyrir þá sem vilja mikinn lúxus. Stiglaus sjálfskipting og rafstýringar í öllu miða að áreynslulausri notkun.
John Deere 6135R er dráttarvél fyrir þá sem vilja mikinn lúxus. Stiglaus sjálfskipting og rafstýringar í öllu miða að áreynslulausri notkun.
Mynd / ÁL
Líf og starf 11. nóvember 2022

Notalegur dráttarklár

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

John Deere 6135R er sérlega vel útbúinn traktor með stiglausri skiptingu og fjögurra strokka hreyfli. Þessa dráttarvél væri hægt að flokka sem millistóra eins og Fendt 700 eða Massey Ferguson 6S. Dráttarvélin hugsuð sem valkostur fyrir þá sem vilja eins mikinn munað á flestum sviðum og hægt er.

Þegar gengið er að vélinni er gaman að sjá klassísku John Deere litina, grænan og gulan. Vélar frá þessum framleiðanda hafa ekki átt langa sögu á íslenskum markaði, en eru með þeim vinsælustu beggja vegna Atlantshafsála. Frændur okkar Norðmenn hafa til að mynda tekið ástfóstri við þetta merki undanfarna áratugi og er líklega einn grængulur á flestum bæjartorfum þar í landi. Þótt John Deere sé amerískt merki, þá er þessi vél alfarið framleidd í Mannheim í Þýskalandi.

Íslyft formlegur umboðsaðili

Markaðshlutdeild þessara véla á Fróni hefur aukist á allra síðustu árum eftir að þær hlutu varnarþing hjá Íslyft, hafandi verið á hrakhólum lengi. Verandi með íslenskt umboð hefur John Deere lagt á sig þá vinnu að íslenska allt stýrikerfi og allar notendahandbækur. Bændur sem vilja traktor sem hugsar á okkar ástkæra og ylhýra geta því íhugað þennan kost.

Dráttarvélin vigtar notandann

Allar vélarnar sem umboðið flytur inn eru með hátt búnaðarstig og finnur maður mjög fljótt þegar tekið er í traktorinn að lúxusinn er mikill. Sætið er til að mynda með tæknilegri fjöðrun. Þegar vélin er ræst heyrast óhljóð undir sessunni og notandinn lyftist upp og niður. Þarna eru innbyggðar vogir að mæla þyngd notandans og er fjöðrunin sjálfkrafa stillt samkvæmt því.

Við þetta bætist fjarandi hús og framhásing sem verja ökumanninn frá utanaðkomandi hamagangi.

Sætinu er hægt að snúa um nokkrar gráður til þess að ökumaðurinn þurfi ekki að vinda upp á sig þegar fylgst er með tækjum fyrir aftan. Þessi ás er þannig stilltur að það truflar notandann ekkert að hafa opið fyrir snúninginn öllum stundum. Stjórnandinn hefur því mikinn hreyfanleika við vinnu og upplifunin er sambærileg því að sitja í vönduðum skrifborðsstól.

Innréttingin virðist vera vel skrúfuð saman. Sætið er vandað og stillir af fjöðrunina eftir þyngd notandans.

Hljóðlát og svöl

Þægindin halda áfram þegar byrjað er að aka vélinni og hávaðinn frá mótornum berst lítið sem ekkert til notandans. Hvað hljóðvist varðar er þó ekki hægt að segja að John Deere 6135R skeri sig frá öðrum nýjum millistórum vélum, enda virðast flestir betri frameiðendur vanda sig á þessu sviði.

Bændur sem vilja hafa með kælivöru á heitum dögum geta glaðst, því hér er komin dráttarvél með kæliboxi. Það er ekki mjög stórt, en dugar til að rúma þrjár Nocco dósir, eina samloku og súkkulaðistykki.

Breið framrúða – góðir speglar

Framrúðan er breið og kemur á óvart hversu þægilegt er að horfa út um slíkan skjá. Húsið er einungis með fjórum gluggapóstum sem gerir útsýnið til hliðanna betra en annars. Þar sem brettin og dekkin skyggja á koma hliðarspeglarnir að góðum notum, jafnvel þegar ekið er áfram. Í ámoksturstækjavinnu skyggir stórt og kröftugt húddið á útsýnið beint fram fyrir vélina. Því er ekki hægt að mæla með þessari vél ef hún er hugsuð helst í þannig vinnu, enda er hún ekki hönnuð sem slík. Þetta er miklu frekar dráttarvél en mokstursvél.

Þessi áhersla sést þegar þakglugginn er skoðaður. Ólíkt þakgluggum í mörgum öðrum nýjum dráttarvélum er nokkuð þykkur póstur milli framrúðunnar og áðurnefnds þakglugga. Útsýnið til himins er því ekki óhindrað.

Vélin er nefstór og ekki hugsuð fyrir þá sem þurfa aðallega að nota ámoksturstækin.

Stiglaus sjálfskipting

Stiglaus sjálfskiptingin er eitt af helstu trompum þessarar vélar. Í akstri er bremsan eina fótstigið sem nauðsynlegt er að nota, annars er hægt að stjórna aksturshraða og snúningshraða mótorsins alfarið með annars vegar einni sveif og hins vegar handolíugjöf. Þegar „aksturshraðasveifin“ er færð fram og aftur sér notandinn í mælaborðinu hvaða hraði hefur verið valinn og getur svo fínstillt með litlum hnappi efst á sveifinni.
Þar sem skiptingin er algjörlega stiglaus er hægt að skipta úr lægsta drifinu í það hæsta á augabragði án fyrirhafnar. Í notkun virðist skiptingin almennt vera fumlaus en blaðamanni fannst dráttarvélin rykkjast örlítið til í mikilli fínvinnu. Taka ber í reikninginn að undirritaður er óvön skrifstofublók, ekki þaulæfður bóndi.

Skjár með mikla virkni

Þegar stjórnborðið er skoðað er greinilegt að mikil hugsun hefur farið í að hafa staðsetningu allra stjórntækja eins þægilega og aðgengilega og hægt er. Notandanum stendur til boða að sérsníða virkni fjölda hnappa eftir sínum þörfum og er það gert í gegnum stóran tölvuskjá þar sem allt viðmótið er á íslensku. Áðurnefndur skjár gefur líka góða yfirsýn yfir allt sem vélin er að gera hverju sinni.

Á stjórnborðinu er rafmagns- stýripinni fyrir ámoksturstækin. Á honum eru nokkrir forritanlegir hnappar sem er hægt að láta stjórna nokkrum aðgerðum. Þar er m.a. hægt að hafa skipanir fyrir frambeislið, afturbeislið, glussaúttök og vendigírinn.

Tölvuskjárinn býður upp á mikla möguleika. Allt viðmótið er á Íslensku.
Tölur

Nafn vélarinnar, 6135R, er ekki endilega auðskiljanlegt við fyrstu sýn. Ef þetta er túlkað og brotið niður þá stendur „6“ fyrir stærðarflokkinn, „135“ er afl mótorsins og „R“ er efsta búnaðarstigið. Framleiðandinn straumlínulagaði nafngiftir sínar fyrir skemmstu og munu þessir traktorar heita 6R 140 hér eftir.

Þrátt fyrir að vélin sé seld sem 135 hestafla vél þá er hún útbúin aflauka sem virkjast við mikið álag. Því standa til boða 20 auka hestöfl sé þess mikil þörf.

Verðið á þessari vél með ámoksturstækjum er 18.300.000 krónur án vsk. Helstu mál eru eftirfarandi: Lengd 4.870 mm, hæð 2.930 mm og breidd 2.550 mm.

Sérstakar þakkir fá bændurnir á Ytra-Hólmi sem lögðu til dráttarvélina í þennan prufuakstur.

Smyrill
Líf og starf 20. nóvember 2024

Smyrill

Smyrill er minnsti og jafnframt algengasti ránfuglinn á Íslandi. Hann er nokkuð ...

Róbóti í stuði
Líf og starf 19. nóvember 2024

Róbóti í stuði

Róbótar Internetsins verða betri og betri í bridds. Þeir eru reyndar oft slakir ...

Förum okkur hægar
Líf og starf 18. nóvember 2024

Förum okkur hægar

Mikið hefur verið fjallað um „fast fashion“ eða hraðtísku í fjölmiðlum sl. ár, þ...

Íslandsmót skákfélaga
Líf og starf 15. nóvember 2024

Íslandsmót skákfélaga

Árlega eru haldin tvö mjög fjölmenn skákmót á Íslandi, Íslandsmót skákfélaga og ...

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók
Líf og starf 13. nóvember 2024

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók

Út er komin ljósmyndabókin Á slóðum íslenskra hreindýra í fylgd með Skarphéðni G...

Nautaskankar
Líf og starf 13. nóvember 2024

Nautaskankar

Þverskornir nautaskankar, oft ranglega merktir sem Osso Buco, eru ekki oft í hil...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 11. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn hefur sjaldan verið óþreyjufyllri en þarf að hægja á sér ef vel á að...

Metnaðarfullt umhverfi
Líf og starf 8. nóvember 2024

Metnaðarfullt umhverfi

Lífið á garðyrkjustöðinni Espiflöt í Reykholti er litríkt. Næstu daga geta lesen...