Nýjar Tungnaréttir vígðar
Í febrúar 2012 stofnuðu heimamenn í Biskupstungum félagið Vini Tungnarétta gagngert til að endurbyggja réttirnar í upprunalegri mynd. Stofnfélagar voru um 100 talsins. Á stofnfundinum kom strax í ljós að mikill áhuga var fyrir verkefninu og fjöldi stofnfélaga fór fram úr björtustu vonum. Rúmlega tveimur árum síðar, eða laugardaginn 21. júní 2014 fór fram vígsla á nýjum og glæsilegum réttum með borðaklippingu Sigurðar Inga Jóhannssonar landbúnaðarráðherra.
Fyrsta embættisverk nýs oddvita
„Það var mér afskaplega mikil ánægja að vera í Tungnaréttum þennan laugardag og taka formlega við réttunum frá Vinum Tungnarétta en þetta var fyrsta embættisverk mitt, sem nýkjörinn oddviti Bláskógabyggðar,“ segir Helgi Kjartansson, oddviti Bláskógabyggðar, þegar hann var spurður út í vígsluna. Frá gamalli tíð stóðu Tungnaréttir á bakka Tungufljóts í landi Holtakota, rétt ofan við Koðralæk. Þær voru hlaðnar úr hraungrjóti eins og algengast var á þeim tíma. Árið 1955 var ráðist í að endurnýja réttirnar og þá voru þær færðar niður með fljótinu og reistar við fossinn Faxa eða á þeim stað þar sem þær eru núna. Á næsta ári verður haldið upp á 60 ára afmæli réttanna.
Vinir Tungnarétta og sjálfboðavinnan
Vinir Tungnarétta er hópur fólks úr Biskupstungum og víðar, sem hefur endurgert réttirnar á síðustu tveimur árum, allt unnið í sjálfboðavinnu. Stjórn félagsskaparins hélt vel utan um allar þær vinnustundir sem unnar hafa verið í sjálfboðavinnu en þær eru samtals 2.750 klst. Þá hefur mikil vélavinna verið gefin og samkvæmt bókhaldi félagsins voru þær samtals 627 klst. Efni hefur verið gefið af einstaklingum og fyrirtækjum fyrir tæpar þrjár milljónir. Einnig hafa einstaklingar gefið fjármuni beint til félagsins. „Ég er mjög ánægður með enduruppbyggingu réttanna og þá miklu vinnu, sem fólk hefur lagt á sig, það er stórkostlega að finna samtakamáttinn í sveitinni og langt fyrir utan hana, nú á Bláskógabyggð réttirnar og mun sjá um þær um ókomna tíð,“ segir Brynjar Sigurðsson, formaður Vina Tungnarétta og bóndi á Heiði.