Nýting hrats og hýðis
Heilmikið fellur til árlega af ávaxta- og grænmetshýði og nú sérstaklega berjahrati eftir farsælar ferðir í berjamó.
Berin er oft hentugast að sækja í móana með berjatínum, hægt er að fá slíkar til dæmis í Húsasmiðjunni eða SR Byggingavörum, en ekki er síðra að leita að þessum gömlu góðu í nytjavöruverslunum hérlendis. Þær voru nefnilega hannaðar til að endast.
Úrganginum viljum við helst henda en þarna er falinn fjársjóður sem hægt er að nýta til fullnustu ef vel er athugað. Tökum sem dæmi að þegar verið er að útbúa saft úr krækiberjum verður hratið eftir, en það er í raun stútfullt af vítamínum og trefjum. Hratið má þurrka í ofni á afar lágum hita, um 50 gráðum, gott er að stilla ofninn á blástur, hafa litla rifu á honum og fylgjast vel með þurrkuninni. Dreifa skal vel úr því svo þurrkunin gangi betur. Þetta má gera bæði við hrat og hýði hinna ýmsu ávaxta. Þurrt hratið er best að geyma í bréfpoka svo það fái að anda og má setja út í múslí, bakstur, ýmsa rétti eða jafnvel mylja í duft og eiga til þess að strá saman við það sem hverjum og einum hugnast. Sumir setja það út í blöndu heimagerðra frostpinna til þess að gefa áferð, sterkara bragð og næringarefni – og að sama skapi þykir vinsælt að nota rifinn sítrónu- eða appelsínubörk út í kökur. Til viðbótar má nefna að þeir sem standa í að eima áfengi heima við setja gjarnan börkinn út í til þess að fá af því keim sítrusaldinsins – nú eða nota berjasaft í bland.
Ávaxtaleður svokallað hefur einnig notið vinsælda, en þá hafa þeir, sem þykir gott að pressa safa úr ávöxtum, tekið hratið, myndað úr því flatar ræmur og þurrkað á smjörpappír í ofninum. Líkt og áður á sem lægstum hita. Athugið að þó nafnið geti villt um fyrir sumum er ávaxtaleður ætlað til manneldis ekki í sama flokki og td. epla/ananas- eða vínberjaleður sem notað er í nýmóðins strigaskóframleiðslu.
Grænmetishýði er að sama skapi hægt að endurnýta og þykir mörgum gott að taka til hliðar það sem ekki er notað í rétti og búa til soð. Sumir geyma slíka afganga í frystinum og grípa í þegar nægilegt magn hefur safnast saman. Gott er að hafa bak við eyrað að góð blanda mismunandi grænmetis gefur bragðgott soð, enda ef einungis er notast við kartöfluhýði verður útkoman afar bragðlaus.
Sumir bæta jafnvel út í blönduna hörðu endunum af parmesanosti – sem vanalega er hent – en það gefur skemmtilegt bragð. Til að búa til soðið skal setja hýði og afskurð á pönnu og hylja með vatni, sjóða í að minnsta kosti klukkutíma og sigta síðan vandlega. Soðið má svo nota sem grunn fyrir súpur, pottrétti og bragðmiklar sósur en það geymist í 4–5 daga í lokuðu íláti í ísskápnum. Sumir kjósa að setja það í frysti og þykir þægilegt að nota klakabox til að útbúa litla skammta sem auðvelt er að nota.
Grænmetisafskurður eða hýði hafa einnig þótt ágætis snakk, sett í ofnskúffu með olíu og salti, eða kryddi að eigin vali. Þetta þarf að bakast í 20–25 mínútur og snúa gætilega þegar helmingur tímans er liðinn. Útkoman á að vera stökk en ekki þannig að hún molni. Verði ykkur að góðu.