Orgelsmiðjan á Stokkseyri opnuð fyrir ferðamönnum
Orgelsmiðjan á Stokkseyri hefur opnað verkstæðið fyrir gestum og gangandi. Þar verður gestum boðið upp á að fræðast um allt sem viðkemur orgelsmíði og sögu tónlistar á suðurströndinni. Sýningin verður opin framvegis virka daga kl. 10.00–18.00 og eftir samkomulagi um helgar.
Í Orgelsmiðjunni er hægt að fá svör við fjölmörgum spurningum er varðar orgel og orgelsmíði. Þar getur fókk til dæmis fræðst um hversu margar pípur geta verið í pípuorgeli. Hve langan tíma það tekur að smíða eitt orgel og hvað orðið vindhlaða þýðir. Einnig hvaða munur er á orgeli og harmóníum. Þarna er líka hægt að hitta Björgvin Tómasson orgelsmið og fylgjast með störfum hans. Fræðslusýningin er á þremur tungumálum, íslensku, ensku og þýsku. Stefnt er einnig að því að vera reglulega með tónleikahald á staðnum. Aðgangseyrir er 750 krónur fyrir fullorðna, 16 ára og eldri, og 500 krónur fyrir börn 10 til 15 ára.
Orgelsmiðjan er til húsa að Hafnargötu 9, sjávarmegin, á Stokkseyri. Sími 861–1730, www.orgel.is, orgel@simnet.is