Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Íslenskir fulltrúar á 30. heimsþingi Alþjóðasambands dreifbýliskvenna. Sitjandi f.v.: Guðrún Þórðardóttir, Drífa Hjartardóttir og Helga Guðmundsdóttir. Efri röð f.v.: Sólveig Ólafsdóttir, Guðrún Finnbjarnardóttir, Ólína Hulda Guðmundsdóttir, Þórunn Drífa Oddsdóttir, Áslaug Birna Ólafsdóttir, Linda B. Sverrisdóttir og Jenný Jóakimsdóttir.
Íslenskir fulltrúar á 30. heimsþingi Alþjóðasambands dreifbýliskvenna. Sitjandi f.v.: Guðrún Þórðardóttir, Drífa Hjartardóttir og Helga Guðmundsdóttir. Efri röð f.v.: Sólveig Ólafsdóttir, Guðrún Finnbjarnardóttir, Ólína Hulda Guðmundsdóttir, Þórunn Drífa Oddsdóttir, Áslaug Birna Ólafsdóttir, Linda B. Sverrisdóttir og Jenný Jóakimsdóttir.
Mynd / Jenný Jóakimsdóttir
Líf og starf 13. júní 2023

Raddir þeirra heyrist hátt

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

ACWW var haldið í Kuala Lumpur í Malasíu 17.–25. maí sl. og sóttu það um 450 manns.

Samtökin beita sér fyrir hagsmunum dreifbýliskvenna um heim allan og bættri stöðu þeirra innan eigin samfélaga. Ellefu Íslendingar sóttu þingið undir merkjum Kvenfélagasambands Íslands (KÍ) og var markmiðið að kynnast betur starfi ACWW, sem KÍ hefur verið aðili að síðan 1980. Um 10 milljónir kvenna í 80 löndum eru meðlimir samtakanna sem hafa staðið að mörgum þörfum og merkum verkefnum, meðal annar að stuðningi við konur í þróunarríkjum. Áherslur verkefna ACWW til næstu þriggja ára beinast að loftslagssnjöllum landbúnaði (Climate-Smart Agriculture), heilsu og menntun kvenna í dreifbýli og samfélagsþróun í öllum kjarnaverkefnum samtakanna.

Jenný Jóakimsdóttir, starfsmaður KÍ, var ein þeirra sem sóttu þingið og fór með atkvæði KÍ sem fulltrúi stjórnar á þinginu. Hún segir yfirskrift þess hafa verið „Fjölbreytileikinn er okkar styrkur“ og það verið grundvöllur þinghaldsins. „Kvenfélagið í Pahang í Malasíu var gestgjafi þingsins og skipulögðu konurnar ótrúlega flotta og glæsilega dagskrá í kringum hina hefðbundnu þingfundi,“ segir Jenný. „Skemmtanir voru á hverju kvöldi, skoðunarferðir og menningu landsins var gerð góð skil. Hápunkturinn hjá þeim í dagskránni var gala-hátíðarkvöldverður í Konungshöllinni í Malasíu, en drottning þeirra, Queen Azizah, er formaður félagsins í Pahang og var gestgjafi kvöldsins,“ segir Jenný.

Glaðbeittar konur á þingfundi. F.v.: Ólína Hulda Guðmundsdóttir, Áslaug Birna Ólafsdóttir, Guðrún Finnbjarnardóttir og Helga Guðmundsdóttir.

Valdefling undir forystu kvenna

Aðspurð um hvað íslensku þátttakendurnir taki með sér heim, íslenskum dreifbýliskonum til handa, segir Jenný áherslu þingsins hafa verið á konur í dreifbýli í fátækustu löndum heims.

„Í stefnu ACWW segir: „Til að ná fram sjálfbærum breytingum er nauðsynlegt að byggja upp víðtækt net dreifbýliskvenna og stuðla að valdeflingarverkefnum undir forystu kvenna. Hlusta þarf á raddir þeirra og þeirra þarfir“,“ segir Jenný og heldur áfram:

„Þó svo að við hér á Íslandi séum með ansi mikil forréttindi miðað við konur í fátækari ríkjum heims þá er sama sagan hér; raddir kvenna í dreifbýli þurfa að heyrast. Þarfir kvenna á Íslandi eru mikið til þær sömu. Sem dæmi þá er ekki nóg að byggja stór og flott sjúkrahús ef konur komast síðan ekki þangað þegar á reynir. Á þinginu heyrðum við meðal annars sögur frá Afríku þar sem konum blæðir út í vegkantinum og deyja þar vegna þess að þær þurfa að fara langan veg til að komast í fæðingarhjálp. Stærstur hluti kvenfélaga innan KÍ eru í dreifbýli og við þurfum að tryggja að raddir þeirra kvenna heyrist hátt,“ segir hún.

Rödd innan SÞ og UNESCO

KÍ mun, að sögn Jennýjar, koma upplýsingum um hvað fram fór á þinginu til sinna félagskvenna. „Kynna þarf betur starf ACWW og athuga hvaða leiðir við getum farið til að styrkja samstarfið og styðja við verkefni ACWW. Það er mikið horft til Íslands í jafnréttismálum og við getum vonandi lagt þar okkar af mörkum. Það er dýrmætt að eiga aðgang að neti yfir 10 milljóna kvenna um allan heim og það eykur okkur víðsýni. Við sem fórum á þingið lögðum mikla áherslu á kynna okkur betur starf ACWW og að kynnast konum á þinginu og því sem þær eru að fást við. Næsta alheimsþing verður svo í Ottawa í Kanada í apríl 2026 og við munum kynna það fyrir okkar konum og vonandi náum við stærri hóp frá Íslandi þangað. Heimsforseti ACWW, Magdie de Kock frá Suður- Afríku, hefur mikinn áhuga á að koma til Íslands og vonandi tekst okkur að finna tíma og stund fyrir þá heimsókn,“ segir Jenný jafnframt.

Alþjóðasamband dreifbýliskvenna hefur ráðgefandi stöðu við margar af stofnunum Sameinuðu þjóðanna. „Á þinginu var sagt frá því að undanfarið hefur mikið verið unnið í því að styrkja þá stöðu enn frekar, til að raddir kvenna í dreifbýli nái eyrum þeirra sem taka ákvarðanir er varða líf þeirra. Einn af starfsmönnum ACWW var nýlega kosinn formaður landsnefnda félagasamtaka við UNESCO og mun í haust stjórna málstofu á þeirra vegum sem fengið hefur vinnuheitið „Breyting hugarfars fyrir jafnrétti kynjanna“. Þessi staða setur ACWW við ákvörðunarborð innan UNESCO og felur í sér tækifæri til að koma á framfæri röddum dreifbýliskvenna,“ segir Jenný að endingu.

Bæjarnöfn á ská og skjön
Líf og starf 11. apríl 2025

Bæjarnöfn á ská og skjön

Nöfn íslenskra bæja og býla til sveita eru fjölskrúðug, svo ekki sé dýpra í árin...

Prjónavetri lýkur
Líf og starf 10. apríl 2025

Prjónavetri lýkur

Íslenskur prjónaiðnaður hættir aldrei að vera móðins enda hefur Listasafn Sigurj...

Falleg sumarpeysa
Líf og starf 9. apríl 2025

Falleg sumarpeysa

Falleg peysa fyrir sumarið, prjónuð úr DROPS Muskat eða DROPS Belle sem er á 30%...

Bændablaðið á Suðurskautinu
Líf og starf 8. apríl 2025

Bændablaðið á Suðurskautinu

Hjörleifur Jóhannesson flugstjóri greip Bændablaðið með sér á Suðurskautslandið ...

Búvörusýning í Reykjavík
Líf og starf 8. apríl 2025

Búvörusýning í Reykjavík

Snemma árs 1984 hófst samstarf mjólkurdagsnefndar og markaðsnefndar landbúnaðari...

Dropinn holar steininn
Líf og starf 7. apríl 2025

Dropinn holar steininn

Eins og áður hefur komið fram er tískuiðnaðurinn mikill skaðvaldur náttúrunnar. ...

Alþjóðlegt skákmót í Mývatnssveit
Líf og starf 3. apríl 2025

Alþjóðlegt skákmót í Mývatnssveit

Helgina 15.-16. mars fór fram alþjóðlegt skákmót í félagsheimilinu Skjólbrekku í...

Kvöldmatur á korteri með íslensku lambakjöti
Líf og starf 2. apríl 2025

Kvöldmatur á korteri með íslensku lambakjöti

Matreiðslukeppni fyrir áhugakokka var haldin á Matarmarkaði Íslands í Hörpu 8. m...