Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Rækta tengsl við nærsamfélagið
Líf og starf 28. nóvember 2022

Rækta tengsl við nærsamfélagið

Höfundur: Kristín Scheving.

Listasafn Árnesinga er í eigu Héraðsnefndar Árnesinga, en öll sveitarfélögin í Árnessýslu eiga aðild að henni. Þau eru Bláskógabyggð, Flóahreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur, Hveragerðisbær, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Sveitarfélagið Árborg og Sveitarfélagið Ölfus. Listasafn Árnesinga sem staðsett er í Hveragerði býður upp á fjölbreyttar og metnaðarfullar myndlistarsýningar eftir innlenda og erlenda listamenn.

Yfirstandandi sýning Summa & Sundrung leggur áherslu á skurðpunkta, kannar margbreytileika, og gefur áhorfendum möguleika á að ferðast um nútímaleg verk vídeó- og raflistarfrumkvöðlanna Garys Hill, Steinu og Woody Vasulka. Steina (Steinunn Briem Bjarnadóttir Vasulka f. 1940) er íslensk en hefur lengst af búið í Bandaríkjunum ásamt eiginmanni sínum, Woody Vasulka. Woody, sem féll frá árið 2019, var einnig íslenskur ríkisborgari en fæddist í Tékkóslóvakíu árið 1937. Gary Hill er fæddur í Bandaríkjunum (1951) en eins og á við verk Steinu og Woody hafa verk hans verið sýnd í mörgum af þekktustu söfnum heims. Sýningin sem nú er uppi í Listasafni Árnesinga mun svo halda áfram og ferðast til annarra safna í Evrópu og Bandaríkjunum á næstu árum.

Safnið heldur einnig úti markvissu fræðslustarfi þar sem unnið er með nemendum á mismunandi skólastigum, listamönnum, fræðimönnum og almenningi. Málþing, námskeið og smiðjur eru haldin reglulega fyrir almenning þar sem fólki gefst kostur á að vinna með mismunandi miðla í tengslum við sýningar safnsins. Listasafn Árnesinga hefur einnig að undanförnu staðið að verkefninu Smiðjuþræðir sem snýst um að keyra út seríu af fjölbreyttum og færanlegum listasmiðjum. Starfandi listamenn úr ólíkum listgreinum leiðbeina á smiðjunum og ferðast þær til allra grunnskóla í Árnessýslu. Markmiðið með Smiðjuþráðunum er að rækta tengsl safnsins við nærsamfélagið og veita börnum og unglingum í sýslunni tækifæri á að taka þátt í fjölbreyttu og vönduðu menningarstarfi óháð búsetu. Verkefnið er styrkt af Barnamenningarsjóði en árið í ár er þriðja árið sem Smiðjuþræðir fara fram. Í vetur verða ýmsir aðrir viðburðir á döfinni í safninu, m.a. fjölskyldusmiðjur, upplestur á ljóðum og bókmenntum.

Listasafn Árnesinga var á sínum tíma fyrsta listasafnið utan höfuðborgarsvæðisins sem opið var almenningi og verður safnið 60 ára árið 2023. Á næsta ári verða valin verk úr safneigninni sýnd í tilefni afmælisins. Rekja má upphaf safnsins til rausnarlegrar gjafar frú Bjarnveigar Bjarnadóttur og tveggja sona hennar, Bjarna Markúsar og Lofts Jóhannessona. Á tímabilinu frá 1963 til 1986 færðu þau Árnesingum liðlega sjötíu listaverk að gjöf. Verkin eru eftir helstu listamenn þess tíma, það elsta frá árinu 1900 en flest verkin eru frá miðbiki síðustu aldar. Árið 2018 var Listasafni Árnesinga veitt íslensku safnaverðlaunin, en þau eru viðurkenning sem veitt er annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi.

Í safninu er starfrækt skemmtileg safnbúð sem selur einstaka listræna gjafavöru og svo er hægt að kaupa sér kaffi og meðlæti og njóta tilverunnar á blómlega kaffihúsinu okkar og einnig er fræðsluhorn.

Opnunartími er eftirfarandi: Sumaropnun: opið alla daga frá klukkan 12–17. Vetraropnun er opið alla daga nema mánudaga frá klukkan 12–17. Aðgangur að safninu er ókeypis og öll velkomin.

Skylt efni: söfnin í landinu

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...