Rauða skrímslið í Borgarfirðinum
Þessa dagana eru briddsarar á ferð og flugi landshorna á milli í Bikarkeppni Bridgesambands Íslands.
Sveit Norðurljósa mætti Borgfirðingum á heimavelli hinna síðarnefndu á dögunum og var ekkert lát á skiptingarspilum.
Hlynur Angantýsson í sveit Norðurljósanna fékk mikið skrímsli á hendina. Ekki bara 6-6-skiptingu í rauðu litunum heldur eru spilin svo sterk að segja má að aðeins sé einn tapslagur á hendinni. Og þá er það milljón dollara spurningin: Hvernig meldar maður svona?
Eftir tvö pöss var opnað á spaða Hlyni á hægri hönd. Eftir umhugsun stökk hann í fimm grönd sem lýsti tveggja lita hendi. Makker hans, Karl Grétar Karlsson, meldaði þá leitandi 6 lauf, Hlynur leiðrétti með 6 tíglum, Karl meldaði 6 hjörtu og málið dautt.
Sigurbjörn Haraldsson, landsliðsmaður Íslendinga í bridds, skoðaði spilin hans Hlyns í umræðu um spilið. Sigurbjörn minnir á sagnvenju sem ekki er víst að allir lesendur Bændablaðsins séu kunnugir. Opnun á 4 gröndum spyr um ása eftir sortum. Margir þekkja RKCB eða Roman Keycard Blackwood lykilspilaspurninguna en ef opnað er á fjórum gröndum er oftast svarað þannig að ef enginn ás er á hendinni meldar svarhönd 5 lauf. Ef einn ás er á hendi þá er svarað í viðkomandi lit. Með laufás þarf þó að melda sex lauf af því að 5 lauf eru frátekin fyrir engan ás. Ef ásarnir eru tveir meldar svarhöndin 5 grönd.
En aftur að spilinu. Borgfirðingarnir sem öttu kappi við Hlyn og félaga melduðu líka 6 hjörtu með því að nýta Michaels sagnvenjuna til að byrja með og spilið féll.