Rjúpa
Rjúpa er einn af einkennisfuglum íslenskrar náttúru og er eini hænsnfuglinn sem lifir hérna villtur. Hún er að öllu leyti staðfugl og útbreidd um allt land. Rjúpan er einstaklega harðgerður fugl og þolir vel íslenska veðráttu. Þegar mestu vetrarhörkurnar ganga yfir grafa þær sig í snjó til að fá einangrun frá kuldanum. Nú á vetrarmánuðum hefur stofninn stokkast upp og fuglarnir hafa dreift sér í sína vetrarhaga. Þá leitar rjúpan upp í fjöll eða snjólínu þar sem hún kemst enn þá í æti. Þegar jarðbönn verða til heiða leita þær meira niður í kjarr og jafnvel í byggð eftir æti. Þegar vorar stokkast stofninn aftur upp og karrarnir helga sér óðöl sem þeir verja af krafti gegn öðrum körrum. Þótt rjúpu megi finna um allt land frá fjöru og upp á hálendi þá eru meginuppeldisstöðvar þeirra lágheiðar og láglendismóar. Þessi svæði eru því mjög mikilvæg fyrir rjúpu og aðra mófugla.