Saga rétta og gangna skrásett
Í undirbúningi er ritun sögu rétta og gangna í Dalvíkurbyggð síðustu 100 ára.
Jón Þórarinsson á Hnjúki hafði forgöngu um verkefnið og segir hann að hugmyndin sé í raun að bjarga menningarverðmætum með ritun þessarar sögu.
Hann segir að fjöldi rétta á því svæði sem sveitarfélagið nær yfir hafi ekki verið undir 50 árið 1950 þá sé ótalið kvíar, sel og stekkir.
„Núna eru þær fimmtán sem eftir eru. En við viljum fá upplýsingar um allar réttir sem hafa einhvern tímann verið notaðar og myndefni líka. Ætlunin er að gera þessu öllu eins nákvæm skil og hægt er í væntanlegu riti.
Í Dalvíkurbyggð eru þrjár fjallskiladeildir sem haldist hafa óbreyttar frá sameiningu sveitarfélaganna 1998, það er Dalvíkur, Svarfaðardals og Árskógsstrandar,“ segir Jón.
Í ritnefnd með honum eru Daníel Hansen, sem mun skrifa bókina, Vignir Sveinsson frá Þverá og Sveinn Jónsson.