Saumaskapur unninn með nál hafinn til vegs og virðingar
Margt verður til í kvenna höndum er nafn á sýningu í félagsheimilinu Goðalandi í Fljótshlíð sem kvenfélagið Eining stendur fyrir.
Mikið af munum hafa safnast á sýningu með alls konar saumaskap, eins og dúkar, púðar, myndir, fatnaður, skólahandavinna og margt, margt fleira. „Við í Kvenfélaginu Einingu ákváðum á vorfundinum okkar að nú skyldi hefja saumaskap til vegs og virðingar og halda veglega sýningu á saumi,“ segir Margrét Tryggvadóttir, formaður kvenfélagsins, „og við ákváðum að einskorða sýninguna við handavinnu, sem unnin er með nál.“
Prjónaðar nærbuxur ekki þægilegar
Margrét segir að þegar kvenfélagskonurnar fóru að vinna með hugmyndina sáu þær strax hversu víða nálin kemur við sögu í lífi okkar allra. „Án nálar væru til dæmis fötin okkar sennilega öll ýmist hekluð eða prjónuð, sem er ágætt í sumum tilvikum, en prjónaðar nærbuxur væru kannski ekki svo þægilegar. Hvernig hefðu formæður okkar getað stoppað í sokka án nálar eða bara saumað sláturkeppi?“ segir Margrét hlæjandi.
„Tilgangur sýningarinnar er fyrst og fremst að reyna að vekja áhuga fólks á saumaskap og mikilvægi þess að halda í þennan hluta menningararfs okkar,“ bætir Margrét við.
Félagsheimilið Goðalandi
Sýningin verður í félagsheimilinu Goðalandi í Fljótshlíð og stendur frá 24. september til 9. október. Hún er opin frá 12 til 18 laugardaga og sunnudaga. Auk þess sem tekið verður á móti hópum á virkum dögum. Aðgangur er ókeypis.