Sjö umhverfisviðurkenningar
Alls voru sjö umhverfisviðurkenningar afhentar við athöfn í Húsi Frítímans á Sauðárkróki á dögunum.
Soroptimistaklúbbur Skagafjarðar hefur veg og vanda af tilnefningum og afhendingu umhverfisviðurkenningar fyrir hönd sveitarfélagsins.
Félagskonur fóru um allan Skagafjörð, en að þeirra mati er umgengni í sveitarfélaginu stöðugt að batna og metnaður íbúa til að hafa umhverfið snyrtilegt hefur aukist. Alls hafa Soroptimistakonur afhent 100 viðurkenningar um árin, en þetta var átjánda árið sem klúbburinn veitir slíkar viðurkenningar.
Sjö viðurkenningar
Í ár voru veittar sjö viðurkenningar í fimm flokkum. Flugumýrarhvammur hlaut viðurkenningu í flokknum sveitabýli með hefðbundinn búskap en eigendur eru þau Sigrún Hrönn Þorsteinsdóttir og Rögnvaldur Ólafsson. Snyrtilegasta lóð við fyrirtæki var valið Dalasetur þar sem þau Jakobína Helga Hjálmarsdóttir, Þórarinn Þórðarson, Daníel Þórarinsson og Stefán Óskar Hólmarsson hafa byggt upp einstaklega snyrtilegt og fallegt svæði í landi Helgustaða í Unadal. Snyrtilegasta lóð við opinbera stofnun var valin Byggðastofnun.
Einstakt framtak
Hjónunum Maríu Guðmundsdóttur og Sigurði Hansen á Kringlumýri var veitt viðurkenning fyrir einstakt framtak með uppsetningu Grjóthers Hauganesbardaga ásamt uppbyggingu og starfsemi í Kakalaskála. Fram kom í umsögn að þetta framtak Kringlumýrarhjóna væri ávinningur fyrir samfélagið allt.
Þá hlutu þrjár lóðir viðurkenningu en allar eiga það sameiginlegt að verkja athygli fyrir snyrtimennsku og góða umhirðu.
Lóðirnar eru við Furulund 4 í Varmahlíð, eigandi Helga Bjarnadóttir, Kirkjugata 7 Hofsósi, eigendur Dagmar Ásdís Þorvaldsdóttir og Ragnar Þór Jónsson og Raftahlíð 44 á Sauðárkróki, eigendur Eva Óskarsdóttir og Svavar Sigurðsson.