Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga notaði um 28 þúsund tonn af viðarkurli í fyrrra.
Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga notaði um 28 þúsund tonn af viðarkurli í fyrrra.
Líf og starf 20. júní 2014

Skógrækt er fjárfestingarkostur

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Á Fagráðstefnu skógræktarinnar 2014 sem haldin var á Hótel Selfossi dagana 12.-13. mars flutti Þorbergur Hjalti Jónsson erindi um skógrækt sem fjárfestingarmöguleika. Þorbergur segir að viðfangsefnið sé áhugavert, einfaldlega vegna þess að hér á landi sé mikill og ört vaxandi markaður fyrir trjávið sem iðnaðarhráefni.
„Stærsti kaupandinn er nú Járnblendiverksmiðja Elkem Ísland á Grundartanga. Þar fyrir utan eru nokkrar verksmiðjur sem framleiða undirburð fyrir húsdýr sem einnig þurfa verulegt viðarhráefni fyrir framleiðslu sína.“

Viðarkurl frá Kanada langmest notað

„Á árinu 2013 notaði járn­blendiverksmiðjan um 28.000 tonn af viðarkurli, sem jafngildir um 50.000 rúmmetrum af gegnheilum viði úr skógi. Þá skiptist viðarnotkunin þannig að 21.000 tonn voru flutt inn frá Kanada, 6.000 tonn voru úrgangstimbur frá Sorpu og liðlega 1.000 tonn koma úr grisjun á íslenskum skógum,“ segir Þorbergur.
„Nýlega voru undirritaðir samningar vegna byggingar kísilmálmverksmiðja í Helguvík og á Bakka við Húsavík og þær eiga að taka til starfa á árunum 2016–2017. Heildarþörf kísiliðnaðarins fyrir iðnvið verður þá um 270 þúsund rúmmetrar á ári. Þegar verksmiðja PCC á Bakka hefur verið stækkuð eins og áformað er gæti eftirspurn eftir iðnviði á landinu verið komin í um 350 þúsund rúmmetra af gegnheilu timbri úr skógi. Til að mæta þessari eftirspurn innanlands þyrfti að rækta um 50–70 þúsund hektara af skógi til viðbótar við þann skóg sem fyrir er í landinu. Spurningin er því hvort við getum fullnægt þessari eftirspurn og hvort það sé góð fjárfesting.“

Tvö til fimmfalda nýskógrækt til að mæta iðnviðarþörfinni

„Miðað við núverandi umsvif í nýræktun skóga gætu grisjanir og lokahögg mætt um helmingi af núverandi iðnviðarþörf járnblendiverksmiðjunnar um miðja þessa öld og hugsanlega allri þörfinni við lok aldarinnar. Hins vegar fer því fjarri að hægt verði á þessari öld að fullnægja fyrirsjáanlegri iðnviðarþörf nýrra verksmiðja með núverandi framkvæmdahraða í nýskógrækt og með þeirri samsetningu tegunda og landkosta sem nú tíðkast.
Til að mæta iðnviðarþörfinni þyrfti að minnsta kosti að tvö- til fimmfalda nýskógrækt í landinu og sennilega ríflega það. En það þarf einnig aðrar áherslur á tegundir og ræktunarland til að hægt verði að auka framleiðsluna nægilega fljótt.

Á næstu 20–30 árum er tækifæri til að gera skógrækt á Íslandi að alvöru atvinnuvegi sem stendur undir sér án opinbers stuðnings og skilar verulegum gæðum til samfélagsins. Til þess þarf nýja nálgun og nýja fjármögnun. Það er nauðsynlegt meðan á þessu stendur að auka á ný fjárveitingar Alþingis til skógræktarmála en það er samt ósennilegt að þær fáist margfaldaðar í bráð. Hér skiptir máli að stuðningi ríkisins sé hagað þannig að hann laði fjármagn að nýskógrækt. Staðan er sú að meira en nægjanlegt fjármagn er til ef skógrækt er áhugaverð frá sjónarhóli fjárfesta.“

Varla forsendur í dag fyrir virkum markaði með skóg

Þorbergur segir að ennþá séu tæplega forsendur fyrir virkum markaði með skóg til nýtingar. „Það er ekki fyrr en skógurinn nálgast nýtingaraldur sem vænta mætti áhuga á skógarkaupum til fjárfestingar. Skógrækt ríkisins á nú um helming af þeim skógi sem kominn er að nýtingu og hinn helmingurinn er að mestum hluta í eigu skógræktarfélaga. Þeir fáu skógar sem eru af sæmilega hagkvæmri stærð eru tæplega falir sem stendur. Elstu skógar skógarbænda í landshlutaverkefnunum eru komnir að fyrstu grisjun en mestur hluti ræktaðra skóga er ennþá ungur.“

Þorbergur segir hins vegar að meira en nægt land sé til skógræktar. „Sem dæmi má taka að þegar allt ræktað land og svæði með verndargild skráð af Umhverfisstofnun hafa verið dregin frá eru í Árnes-, Rangárvalla-, Borgarfjarðar og Mýrasýslum og á Snæfellsnesi um 325 þúsund hektarar af góðu skógræktarlandi. Þar til viðbótar er töluvert af góðu skógræktarlandi norðanlands og austan.

Landeigendur hafa samið við landshlutabundin skógræktarverkefni um liðlega 48.000 hektara lands og búið er að gróðursetja í tæplega tvo fimmtu þess svæðis. Fyrst eftir að landshlutaverkefnin komu til var töluvert land boðið til skógræktar en um alllangt skeið hefur tiltölulega lítið bæst við. Svo virðist sem framboð á landi til skógræktar með þeim kjörum sem bjóðast hjá landshlutaverkefnunum sé að mettast.

Að sögn Þorberg munu líða margir áratugir þar til umsamið skógræktarland skilar umtalsverðum viðarafla. „Timburskógur með sitkagreni skilar fyrstu grisjun eftir um 40 ár og lokahöggi 80–100 árum eftir gróðursetningu. Stafafura gæti verið með 60–80 ára ræktunarlotu og lerkið á svipuðu róli. Aðaltekjurnar eru við lokahögg en tekjur af grisjunum eru innborgun sem ein og sér stendur sjaldan undir undir miklum arði.

Mannsaldur eða meira er of langur biðtími fyrir flestalla fjárfesta. Til að þeir séu líklegir til að setja fé í fjárfestingu þarf hún að skila minnst 4–5% raunávöxtun á innan við einu kynslóðabili (20–30 árum). Þótt sitkagreni og stafafura geti verið mjög álitlegar tegundir þegar litið er langt fram í tímann þá skila þær afurðum of seint til að þjóna núverandi og fyrirsjáanlegum markaði svo nokkru nemi.“

Alaskaöspin álitlegasta tegundin

„Álitlegasta tegundin er alaskaösp og hér á landi er það viðarkurl fyrir kísiliðnaðinn sem er mikilvægasta afurðin. Við rennum ekki blint í sjóinn með þetta. Á Sandlækjarmýri í Gnúpverjahreppi er 85 ha samfelldur tilraunaskógur með alaskaösp til iðnviðarframleiðslu. Skógurinn var að mestu leyti gróðursettur á árunum 1991–1993 og er hluti af svokölluðu Iðnviðarverkefni sem stofnað var til með samþykkt ríkisstjórnar Íslands árið 1989. Í verkefninu átti að kanna hvort raunhæft væri að rækta alaskaösp til að framleiða viðarkurl fyrir kísiliðnaðinn. Svarið liggur nú fyrir – já, það er raunhæft á 15–25 ára nýtingarlotu. Ræktunarlotan fram að fyrsta rjóðurhöggi er 20–25 ár en um 5 árum styttri í næstu lotu. Meðalársvöxturinn á Sandlækjarmýri er 6–8 rúmmetrar á hektarann og nú standa þar um 160 rúmmetrar á hektarann tilbúnir til nýtingar. Skógarhöggstilraunir í skóginum sýna að trén endurnýjast bæði af teinungi af stúfunum og rótarskotum. Endurnýjunin er meira en næg til að ekki þurfi að planta landið að nýju. Upphaflega tók það trén nokkur ár að koma sér fyrir og vaxa úr grasi en í annarri lotu rjúka þau upp strax á fyrsta sumri eftir fellingu. Sjálfgræðslan er afar mikilvæg fyrir afkomu skógarins því gróðursetning og umhirða nýræktar er langstærsti kostnaðarliðurinn.

Árið 2010 sömdu Elkem Ísland og Skógrækt ríkisins um kaup á grisjunarviði fyrir framleiðslutilraun í verksmiðjunni á Grundartanga. Hráefnið reyndist vel og í framhaldinu var gerður tíu ára verðtryggður rammasamningur um iðnviðarviðskipti. Verðið er að teknu tilliti til gæða sem er sambærileg við innflutt viðarkurl. Hér er ekki um neinn gjafagjörning að ræða heldur keppir Skógrækt ríkisins við innflutning. En staðreynd er að verðið er hagstætt fyrir afkomu í skógrækt.

Fjárfestingartækifærið felst því í asparskógrækt til iðnviðarframleiðslu sem getur skilað fyrstu uppskeru 20–25 árum eftir gróðursetningu og annarri uppskeru 35–40 árum frá upphaflegri plöntun. Síðan getur skógurinn gefið uppskeru á 15–20 ára fresti um langa framtíð en án verulegs kostnaðar við endurræktun.“

Fjárfesting í skógrækt gæti hentað ýmsum sjóðum

„Í skógrækt þarf þolinmótt fjármagn og digra sjóði. Fjárfesting í skógrækt gæti hentað lífeyrissjóðum og sérstökum skógræktarsjóðum þar sem margir minni fjárfestar leggja saman. Það er ekki nægilegt að leggja út fyrir skóginum heldur fylgir árlegur rekstrarkostnaður við girðingar, umsjón og tryggingar.

Skógrækt getur verið freistandi kostur til að dreifa áhættu í eignasafni. Helsti kostur hennar sem fjárfestingar er að afkoma í skógrækt fylgir lítið sveiflum á markaði með hlutabréf og skuldabréf. Það dregur töluvert úr áhættu í eignasafni að hafa hluta fjárfestingar í vel reknum arðskógi.

Virðisauki fjárfestingarinnar stafar mest af viðar- og stærðarvexti trjánna. Hægt er að fresta höggi ef timburverð er lágt. Trén vaxa áfram og arðinn má innleysa þegar verð hækkar á ný. Þegar til langs tíma er litið hækkar timburverð að mestu í takt við almennar breytingar verðlags og kostnaðar. Tekjur af skóginum eru því verðtryggðar og reynslan erlendis sýnir að fjárfestar sækja í skógrækt á verðbólgu og krepputímum. Meginkostur skógar umfram margar aðrar fjárfestingarleiðir er tiltölulega örugg langtímaávöxtun. Þessir kostir skógræktar eru mikilvægir fyrir lífeyrissjóði og langtímasparnað einstaklinga.“

En hver gæti raunhæfur arður verið af skógrækt? „Til að rækta skóginn þarf að kaupa eða eiga land. Leggja þarf út fyrir girðingum, jarðvinnslu, plöntum, gróðursetningu áburði og annarri umönnun. Skipuleggja þarf verkið og hafa umsjón með ræktuninni út ræktunarlotuna. Árlegur kostnaður felst m.a. í viðhaldi girðinga, tryggingum og eftirliti.

Hugsum okkur landeiganda sem ákveður að ræktar asparskóg til iðnviðarframleiðslu og gera það fyrir eigin reikning og án allra styrkja eða ívilnana. Vöxtur og árangur er svipaður og í tilraunaskóginum á Sandlækjarmýri. Hann getur við fyrstu uppskeru 20–25 árum frá gróðursetningu búist við um 3% raunávöxtun á fjárfestingu sína sem hækkar í tæp 5% við aðra uppskeru um 40 árum frá plöntun. Þaðan í frá getur skógurinn skilað um 4–5% arði um langa framtíð. Þetta gæti verið viðunandi en 35–40 ára bið eftir fullnaðarávöxtun er samt í lengra lagi fyrir marga fjárfesta.

Fjárfestir sem þarf að kaupa land stendur mun verr að vígi. Oft er landverð álíka hátt eða hærra en samanlagður kostnaður við nýræktun skógar á landinu. Stofnkostnaður getur því tvöfaldast og arðsemi fjárfestingarinnar helmingast ef kaupa þarf landið. Þótt skógurinn geti staðið undir sér er ósennilegt að fjárfestum þætti viðunandi að fá 1–3% ávöxtun á 20–40 árum.“

Ýmsar hindranir í veginum

Þorbergur segir einkum þrennt sem hindri fjárfestingar í skógrækt, hátt og hækkandi landverð, kostnaður, tafir og áhætta vegna opinberra leyfa og ræktunaráhætta.

„Landverð á hektara er víða um og yfir tvöfalt hærra en samanlagður kostnaður við nýræktun skógar á sama landi. Fyrir fjárfesti er landverðið einfaldlega aukalegur ræktunarkostnaður sem bera þarf alla ræktunarlotuna. Verulegur hluti flestra jarða er óhentugt land sem skilar ekki nægum afköstum fyrir arðskógrækt. Kostnað vegna kaupa á ónýtanlegu landi þarf arðskógurinn að bera.

Það er í sjálfu sér einfalt mál að lækka landverð það mætti gera með því að taka óræktað land inn í fasteignamat og skattleggja eins og aðrar fasteignir. Fyrir skógrækt yrði léttara að borga árlegt fasteignagjald en þurfa að leggja stórfé út við landakaup. En hér eru þeir hagsmunir undir að aðgerðin yrði örugglega mikið átakamál.
Skógrækt er tilkynningarskyld vegna umhverfismats og þarf framkvæmdaleyfi frá sveitarfélögum. Því fylgir veruleg áhætta að kaupa land til skógræktar þar sem óvíst er hvaða kostnaður verður við afgreiðslu opinberra leyfa eða yfirleitt hvort heimild fæst til framkvæmda. Þessu væri auðvelt að breyta ef lögum yrði breytt þannig að skógrækt væri einfaldlega heimil án sérstakra leyfa eða duttlungainngripa á ákveðnum svæðum. Það væri þá bara þar sem mikið er í húfi vegna náttúruverndar eða annarra skilgreindra ástæðna sem setja þyrfti málið í sérstaka skoðun.
Þá er ræktunaráhætta í nýskógrækt töluverð því það er ófyrirséð hvort eða að hve miklu leyti plöntur lifa eftir gróðursetningu eða hve lengi trén eru að komast á vaxtarskrið.“ 

Þjóðarréttur Íslendinga
Líf og starf 4. desember 2024

Þjóðarréttur Íslendinga

Það er með mikilli ánægju, jafnvel stolti sem við landsmenn höfum neytt brauðter...

Baldur Högni
Líf og starf 4. desember 2024

Baldur Högni

Nafn: Baldur Högni Benediktsson.

Tildra
Líf og starf 4. desember 2024

Tildra

Tildra er lítill vaðfugl eða fjörufugl sem stoppar hér á Íslandi á ferð sinni mi...

Útbreiðsla fegurðar og fjölbreytileika
Líf og starf 4. desember 2024

Útbreiðsla fegurðar og fjölbreytileika

Ragnars Þorsteinssonar, sauðfjárbóndi og ljósmyndari í Sýrnesi í Aðaldal, hefur ...

Tólf slaga hönd á Blómaeyjunni
Líf og starf 3. desember 2024

Tólf slaga hönd á Blómaeyjunni

Stefán Jónsson briddsspilari hefur reynst Bridgesambandi Íslands hvalreki með áh...

Augnlitir í sauðfé
Líf og starf 3. desember 2024

Augnlitir í sauðfé

Sjöunda útgáfa Hvammshlíðar­dagatals hefur litið dagsins ljós.

Norðurljós í nóvember
Líf og starf 2. desember 2024

Norðurljós í nóvember

Tími tunglsins og norðurljósanna hefur nú gengið í garð, en óvenjubjart hefur ve...

Vefnaður úr kasmír
Líf og starf 2. desember 2024

Vefnaður úr kasmír

Hlýlegir treflar, sjöl og peysur úr kasmír er eitthvað sem okkur flestum þykir ó...