Skriðuföll, fárviðri og farskóli
Nýlega kom fyrir sjónir fólks tímaritið Heimaslóð sem gefið er út af Sögufélagi Hörgársveitar.
Þar birtist fjölbreytt efni sem á það sameiginlegt að tengjast sveitinni á einhvern hátt, bæði sögu þess og náttúru. Í ítarlegri grein er fjallað um skriðuföll í Hörgárdal árið 1390 sem hugsanlega urðu þess valdandi að hinn forni verslunarstaður að Gásum lagðist af. Sagt er frá einu af mörgum fárviðrum sem geisað hafa í Barkárdal í gegnum árin og í annarri grein eru veðurlýsingar og myndir af flóðum í ám og lækjum sem urðu í Hörgárdal á síðastliðnu sumri. Saga farskólakennslu í Glæsibæjar-, Öxnadals- og Skriðuhreppi er rakin, sem að hluta er byggt á viðtölum við einstaklinga sem upplifðu þetta skólahald. Sagt er frá lífshlaupi konu sem ekki var hátt skrifuð í samfélaginu og var til heimilis á yfir þrjátíu bæjum á ríflega fimmtíu ára æviferli.
Í ritinu er birtur fyrsti hluti Möðruvallatíðinda Bjarna E. Guðleifssonar, upphafsmanns og lengst af ritstjóra Heimaslóðar. Rakin er saga vegagerðar í vestan- og neðanverðum Hörgárdal og rifjaðar eru upp símhringingar meðan gamli, góði sveitasíminn var við lýði. Fleiri stuttar greinar eru í ritinu og finna má kveðskap eftir höfunda úr byggðarlaginu eða sem tengist því á einn eða annan hátt.
Með útgáfu Heimaslóðar vill Sögufélag Hörgársveitar leggja lið varðveislu fróðleiks af svæðinu og gera hann aðgengilegan yngri kynslóðum. Þess má geta að ritið er nú í fyrsta skipti prentað í lit sem gefur því líflegra yfirbragð.