Sósufjölskylda á Djúpavogi
Hjónin William Óðinn LeFever og Gréta Mjöll Samúelsdóttur búa á Djúpavogi og framleiða þar sterkar sósur í nafni fyrirtækisins LeFever Sauce co.
Framleiðsla þeirra hófst árið 2018 á einni sósu með ákveðinni bragðtegund en í dag eru sósurnar orðnar fimm sem heita Bera, Dreki, Alvör, Jaxl og Skass. Þær eru m.a. seldar í verslunum Krónunnar og völdum verslunum Hagkaups.
„Það gengur bara ofboðslega vel hjá okkur og brjálað að gera. William Óðinn var bara einn í þessu til að byrja með því ég starfaði sem atvinnu- og menningarfulltrúi Djúpavogs en nú er ég búin að segja upp þeirri vinnu og er komin á fullt með manninum mínum í sósurnar,“ segir Gréta Mjöll.
Þau eru einnig að framleiða tvær aðrar vörur í krukkum, Pikklað chili og Lefever sinnep, sem er gert úr kryddleginum sem fellur til við gerð Dreka. „Það er frábært að vera með fyrirtæki eins og okkar á Djúpavogi. Hér eru allir í sama liði og vörurnar okkar eru komnar víða á veitingastaði á staðnum og á stöðum í næsta nágrenni. Við eigum örugglega eftir að setja fleiri vörur á markað, það er alltaf eitthvað nýtt í pípunum,“ segir Gréta Mjöll.