Sprækur listmálari á níræðisaldri
Kristinn G. Jóhannsson, listmálari á Akureyri, kallar ekki allt ömmu sína þegar kemur að því að mála myndir.
Hann hefur haldið fjölmargar sýningar í gegnum árin enda komin vel á níræðisaldur. Hann er með glæsilega sýningu núna í Listasafninu á Akureyri, sem hefur vakið verðskuldaða athygli.
„Þetta er sýning um birtuna og fjöllin og heiðina, sem sagt nánasta umhverfi mitt, sem sést þó ekki alltaf mjög greinilega en er þar samt. Ég vinn öll verkin mín á vinnustofunni minni, sem er í gamla bænum á Akureyri. Ég hélt fyrstu sýninguna mína 1954 og hef verið að alveg síðan,“ segir Kristinn og hlær. Sýningar hans hafa fengið góðar viðtökur, ekki síst sýningin núna í Listasafninu. „Ég er þakklátur ef einhver kann að meta verkin mín, um það snýst þetta. Myndirnar á þessari sýningu eru ekki til sölu en málarinn er alltaf til viðtals,“ bætir Kristinn við og glottir við tönn.