Stærsta plöntusafn í einkaeigu á Íslandi
Áhugasamir einstaklingar og fræðimenn á sviði grasafræðinnar hafa verið drjúgir við að safna og þurrka plöntur og oftar en ekki eru slík einkasöfn undirstaða opinberra safna.
Ágúst H. Bjarnason grasafræðingur á að líkindum stærsta einkasafn hérlendis af þurrkuðum háplöntum og mosum. „Ég er langt kominn með að skrá safnið en þó ekki allt og svo á ég eftir að setja upp plönturnar sem ég safnaði síðastliðið sumar.“ Í safni Ágústs eru að hans sögn nokkur þúsund háplöntur, auk þess sem hann á líka stórt safn af mosum. „Ég á líklega 99,9% af öllum villtum háplöntum sem finnast á landinu, eftir því hvernig maður flokkar í tegundir, auk þess sem ég hef safnað slæðingum og einni og einni garðplöntu en þær eru ekki margar.“
Ágúst segir að gildi grasasafna sé gífurlega mikið. „Í fyrsta lagi má nota þurrkaðar plöntur til samanburðar þar sem söfnin geta geymst í margar aldir. Söfnin geta einnig sagt til um hvaða breytingar hafa átt sér stað á flóru ákveðinna svæða og svo gerir erfðatæknin það að verkum að hægt er að greina tegundir nákvæmar en áður.“