Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Hjónin Eydís Rós Eyglóardóttir og Ingvar Guðni Ingimundarson, bændur á Vatnsenda í Flóahreppi, hafa á þessu ári þrefaldað framleiðslugetu sína í kjúklingarækt eftir að þau tóku tvö ný hús í notkun sem rúma um 26 þúsund fugla til viðbótar við þær framleiðslueiningar sem fyrir voru.
Hjónin Eydís Rós Eyglóardóttir og Ingvar Guðni Ingimundarson, bændur á Vatnsenda í Flóahreppi, hafa á þessu ári þrefaldað framleiðslugetu sína í kjúklingarækt eftir að þau tóku tvö ný hús í notkun sem rúma um 26 þúsund fugla til viðbótar við þær framleiðslueiningar sem fyrir voru.
Mynd / ehg og úr einkasafni
Líf og starf 4. janúar 2022

Stíga inn í nútímann með stækkun á kjúklingaeldi

Höfundur: Erla Hjördís Gunnarsdóttir

Í sumar tóku hjónin Eydís Rós Eyglóardóttir og Ingvar Guðni Ingimundarson, bændur á Vatns- enda í Flóahreppi, sem eiga og reka Kjúklingabúið Vor, í notkun tvö ný 900 fermetra eldishús fyrir kjúklingarækt og hafa því á skömmum tíma stækkað framleiðslugetu sína þrefalt. Fljótlega eftir að þau tóku við búskapnum af foreldrum Ingvars, þeim Ingimundi Bergmann og Þórunni Kristjánsdóttur, árið 2015 fóru þau að huga að stækkun.

„Það skiptir máli að  hafa trú á framtíðinni og þeir sem eru ekki að stækka eru í raun að minnka. Þetta er búið að vera í undirbúningi síðan 2014 en hér var ekki búið að stækka í 20 ár, þó ýmislegt hafi verið gert, s.s. borað eftir heitu vatni, svo eitthvað sé nefnt. Það hefur auðvitað verið samdráttur síðan heimsfaraldurinn skall á enda mun færri munnar að fæða í landinu. Við, ásamt samstarfsaðilum okkar, Reykjagarði, höfum mikla trú á framtíðinni og horfum björtum augum fram á veginn,“ útskýrir Ingvar.

Ingvar Guðni hefur rekið Vélsmiðju Ingvars Guðna, VIG, á bænum í 20 ár. Þar starfar Halldór Bjarnason, ungur maður úr sveitinni, og Hörður Ársæll, bróðir Eydísar, sem hóf störf í smiðjunni aftur í haust eftir um átta ára hlé. Hörður hefur mjög mikla reynslu og þekkingu á þjónustu við bændur. Ingvar Guðni segir að hann sjái fram á að geta nú þjónustað bændur mun betur.

Fólk þarf alltaf að borða

Nú reka þau hjónin fimm einingar í kjúklingaeldinu og eru með rétt tæplega 40 þúsund fugla á húsum í hvert sinn.

„Það er svolítið skemmtilegt að hugsa til þess að þegar foreldrar mínir byrjuðu hér með kjúklingaeldið, árið 1978, þá notuðu þau litla kerru sem þau fluttu kjúklingana í slátrun á með gömlu Lödunni.

Núna koma fjórir stórir flutningabílar sem sækja fugla til slátrunar úr nýju húsunum og keyra með til Reykjagarðs á Hellu,“ segir Ingvar og Eydís bætir við:

„Við vorum tilbúin með viðskiptaáætlun árið 2019 og vorum því komin vel af stað fyrir Covid-19. Fólk þarf alltaf að borða mat og vegna þess vorum við aldrei beint hrædd við að stækka og auka framleiðsluna. Staðan á markaðinum er ágæt, neysla á kjúklingakjöti hefur síðustu ár alltaf verið að aukast og má reikna með að þannig verði það áfram. Vissulega dróst neyslan saman þegar heimsfaraldur skall á og ferðamaðurinn hætti að koma til landsins, en við erum að sjálfsögðu bjartsýn á að allir vegir liggi upp á við.

Með aukinni áherslu á umhverfis- og loftslagsmál þá er kolefnisporið á bak við kjúklingaeldi á Íslandi gífurlega lágt miðað við annað kjöt, það skiptir líka máli, neytendur eru kröfuharðir. Íslendingar, held ég, vilja almennt versla íslenskt kjöt frekar en annað, þess vegna er mikilvægt að ganga á eftir því að vörur séu upprunamerktar.“  

Ungir sem aldnir hjálpuðust að á Vatnsenda þegar nýir fuglar komu í hús.

Bylting með nýjum búnaði 

Vaxtartími kjúklinganna er á bilinu 30–35 dagar sem ná rúmlega tveggja kílóa þyngd fyrir slátrun og því er sjaldan lognmolla á bænum. Ýmist er komið að sækja til slátrunar eða með nýja unga í hverri viku á bænum og búskapurinn krefst stöðugs eftirlits sem er þó mikil bylting fyrir bændurna í nýju húsunum með þann búnað sem settur var upp þar. „Allar innréttingar og tæknibúnaður kom frá Líflandi, sem er sérlega ábyggilegur samstarfsaðili en það er feikilega mikilvægt að allt gangi smurt og enginn búnaður stoppi nema í örstuttan tíma ef eitthvað bilar,“ segir Ingvar Guðni.

„Aðalvinnan í þessu myndi ég segja er þvotturinn þegar skipt er út í húsunum. Þá er mikilvægt að þrífa húsin vel, síðan þarf að bíða eftir að þau þorni alveg til þess að hægt sé að sótthreinsa á milli og síðan í kjölfarið undirbúa fyrir nýjan hóp inn í hús. Í nýju húsunum erum við með mjög flottan búnað frá Big Dutchman sem við kaupum í gegnum Lífland og má segja að við séum virkilega að stíga inn í nútímann í nýju húsunum þar sem aðstaða og aðbúnaður er eins og best verður á kosið. Starfsfólk Líflands sem hefur þjónustað okkur hafa staðið sig afburða vel í öllu þessu ferli,“ útskýrir Ingvar og Eydís segir jafnframt:

„Við höfum mun betri yfirsýn með tölvukerfinu sem fylgir búnaðinum og getum unnið betur úr tölfræðinni varðandi eldið á fuglinum. Við höfum raunstöðu í húsunum fyrir framan okkur í tölvunni allan sólarhringinn. Í nýju húsunum tveimur eru samtals 90 rafmagnsmótorar svo þetta er heilmikið batterí í kringum þetta allt saman.“

Eydís Rós er með ýmis járn í eldinum og ákvað fyrir tveimur árum að hefja býflugnarækt á bænum eftir að hún fór á námskeið hjá Býræktarfélagi Íslands og segir það skemmtilega viðbót við búskapinn.

Stál, naut og býflugur

Eydís og Ingvar hafa þó í ýmsu öðru að snúast, en hún er í stjórn Félags kjúklingabænda og Félagi kvenna í atvinnulífinu og Ingvar á Vélsmiðju Ingvars Guðna sem hann hefur rekið í rúm 20 ár. Þar að auki eru þau með nokkur naut og Eydís tók sig til og lærði býflugnarækt fyrir nokkrum árum.

„Við höfum náttúrlega fundið fyrir svakalegum hækkunum á aðföngum eins og fóðri fyrir fuglinn, stáli og zinkhúðun, sem við notum í Vélsmiðjunni og það hefur verið miserfitt að fá stálið. En við vonumst til að geta þjónustað bændur betur núna með okkar framleiðslu í Vélsmiðjunni.

Þetta er mjög árstíðabundið sem við gerum þar en ég er að ganga í gegnum þriðju kreppuna síðan ég byrjaði með þetta árið 2000 svo ég held að við eigum eftir að komast í gegnum þennan tíma núna,“ segir Ingvar og Eydís bætir við:

„Þegar mest var voru hér um 100 nautgripir en núna erum við með um 20, aðallega til að nýta grasið. Við seljum nautakjötið að miklu leyti sjálf beint frá bónda. Síðan langar mann náttúrlega alltaf að læra meira í lífinu og hafa fjölbreytni svo ég fór á námskeið hjá Býræktarfélagi Íslands og er búin að vera með býflugur í tvö ár. Býflugnabændur á Íslandi fá býflugur frá Álandseyjum sem eru sjúkdómafríar og það gekk mjög vel hjá mér fyrsta árið en í sumar varð hallarbylting í búinu, sem fór úrskeiðis hjá þeim og þær drápust allar. Þetta getur verið mjög dramatískur búskapur, ef drottningin er ekki alveg að standa sig þá getur skapast hættuástand. En ég ætla að halda ótrauð áfram og fæ nýjar flugur næsta vor enda er þetta skemmtileg viðbót við búskapinn sem fyrir er.“

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...