Stiklað á sögu höfuðbólsins og kirkjustaðarins frá öndverðu
Sögusvið Valþjófsstaðar á Fljótsdal, sem er rétt utan við kirkjuna, var afhjúpað í liðinni viku. Í snoturri umgjörð norðan við kirkjuna hefur verið komið fyrir skiltum þar sem í máli og myndum er stiklað á sögu Valþjófsstaðar sem höfuðbóls og kirkjustaðar frá öndverðu.
Hjörleifur Guttormsson hafði frumkvæði að þessu verkefni og tók saman sögulegan fróðleik um staðinn. Hann fékk til liðs við sig kirkjugarðaráð og Fljótsdalshrepp sem styrktu verkefnið bæði með ráðgjöf og myndarlegu fjárframlagi. Auk þess styrkti Brunabót verkefnið. Guðmundur Rafn Sigurðsson, framkvæmdastjóri hjá kirkjugarðaráði, hannaði svæðið og fylgdi eftir framkvæmdum. Birgir Axelsson hjá Brústeini hlóð upp sviðið.
Liður í undirbúningi verksins var könnun með jarðsjá á útlínum hins forna kirkjugarðs. Innan sviðsins hefur verið komið fyrir þremur grafarmörkum frá 19. öld.
Gestir skoða eitt af skiltunum sem komið hefur verið fyrir á sögusviðinu.
Valþjófsstaðarhurðin
Valþjófsstaður er fornt höfuðból og kirkjustaður, þar hefur verið kirkja frá því á 13. öld. Þaðan er hin þekkta Valþjófsstaðarhurð sem varðveitt er á Þjóðminjasafni. Hún er einnig frá 13. öld með miklum útskurði í rómönskum stíl þar sem er að finna þekkt miðaldaminni. Hurðin var á kirkjunni á Valþjófsstað til ársins 1851. Núverandi kirkja á Valþjófsstað er frá árinu 1966.
Veðrið skartaði sínu fegursta þegar sviðið var formlega opnað. Flutt voru áhugaverð erindi og ávörp við athöfnina og rómað ketilkaffi og kleinur í boði sóknarnefndar á eftir.
Þessir komu við sögu við opnun sögusviðs Valþjófsstaðarkirkju, frá vinstri eru Birgir Axelsson skrúðgarðyrkjumeistari, Guðmundur Rafn Sigurðsson, framkvæmdastjóri kirkjugarðaráðs og Hjörleifur Guttormsson.