Svíar einbeita sér að uppruna og sögu
Fyrir sex árum kynnti ríkisstjórn Svíþjóðar framtíðarsýnina um „Svíþjóð – nýja matvælalandið“. Í kjölfarið var ákveðið að marka stefnu og vinna markvisst að því að markaðssetja og kynna Svíþjóð sem matvælaland fyrir ferðamenn. Margar nýjar vörur hafa sprottið fram á síðustu árum sem eru afsprengi þessarar stefnu.
Áhersla á uppruna og það sem er ekta
Stefnumótunin fólst meðal annars í því að draga fram hreinleika og heilnæmi sænsks matar og vinna að nýsköpun og því sem er ekta sænskt. Áhersla var jafnframt lögð á dýravelferð, fjölbreytileika, veitingamenn og heilbrigðan lífsstíl. Árangur af þessari stefnumörkun er nú að koma í ljós, en á matvælasýningunni GastroNord í Stokkhólmi í síðasta mánuði mátti sjá sýnishorn af ýmsum nýjum og spennandi matvörum sem fást á sænskum markaði.
23 þúsund gestir kynntu sér sænskan mat og matarmenningu
Á sýningunni var Visit Sweden með veglega kynningu á sænskum mat. Alls komu tæplega 23 þúsund gestir á sýninguna frá 70 löngum en samhliða henni var Bocuse d’Or matreiðslukeppnin haldin. Fjöldi blaðamanna alls staðar að úr heiminum tók púlsinn á því helsta sem sænsk matarmenning hefur upp á að bjóða.
Veitingahús tileinkað landsvæðum í Svíþjóð
Svíarnir settu upp stórt veitingahús þar sem gestir gátu valið á milli ólíkra matseðla sem allir höfðu tilvísun í ákveðin landsvæði í Svíþjóð. Þannig var til dæmis hægt að velja sér mat frá sjávarsíðunni, úr skóginum, af fjalllendi eða ökrum bænda. Meðfylgjandi myndir eru af vörum sem sumar hverjar eru glænýjar og flokkast jafnvel sem handverk ekki síður en spennandi matur eða drykkur.