Teflt á netinu
Vinsældir netskákar náðu hámarki á Covid- tímunum og vinsælasti vefurinn, chess. com, náði inn á topp 100 listann yfir mest skoðuðu vefsíður í heimi á þeim tíma.
Einnig hjálpuðu þættirnir Queens Gambit á Netflix til við að auka vinsældir skákarinnar bæði á netinu og í raunheimum. Ekki liggur fyrir hve margir Íslendingar tefla reglulega á netinu, en þeir skipta einhverjum þúsundum. Virkir íslenskir skákmenn sem tefla í raunheimum yfir borðið (OTB á ensku) eru á bilinu 800–1.000 og þeir eru oftast virkir á netinu líka.
Það standa þó nokkrir möguleikar til boða ef menn vilja reyna fyrir sér í netskák. Chess.com og Lichess.org eru vinsælustu skáksíðurnar, en það eru fleiri kostir í boði, eins og t.d. Gameknot.com. Á öllum þessum síðum geta menn teflt við andstæðinga um allan heim og þú ræður tímamörkunum.
Hægt er að tefla hraðskákir þar sem tímamörkin eru frá 1 mín. fyrir alla skákina og upp í nokkra daga á hvern leik, sem mætti kalla nútíma bréfskák. Að sjálfsögðu gilda slíkar skákir ekki til alvöru elo-skákstiga hjá alþjóðaskáksambandinu FIDE, en allar þessar síður hafa sín eigin skákstig sem oft svipar til þeirra skákstiga sem skákmenn hafa í raunheimum, eða líklegt er að skákmenn nái reyni þeir fyrir sér á alvöru skákmótum þar sem teflt er yfir borðið.
Tómas Veigar Sigurðarson, nemandi við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, tefldi eina slíka á vefnum Gameknot fyrir um 10 árum síðan. Tómas var með svart og á leik. Eins og sjá má á stöðumyndinni á andstæðingur hans mát í einum leik (Dxf8) og í fljótu bragði á svartur engan leik sem kemur í veg fyrir mát. En Tómas fann eina leikinn sem kemur í veg fyrir mát og sá leikur er alls ekki augljós og lítur út fyrir að vera alveg galinn í fljótu bragði. En við eftir á skoðun er leikurinn alger snilld og ekki á allra færi að sjá hann.
Ef lesendur Bændablaðsins luma á áhugaverðum skákum geta þeir haft samband.