Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Þarfasti þjónninn
Mynd / ál
Líf og starf 22. maí 2024

Þarfasti þjónninn

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Bændablaðið fékk til prufu rafmagnaða útgáfu af minnsta Weidemann skotbómulyftaranum, sem hefur notið vinsælda meðal bænda.

Hér er um að ræða fjölhæft landbúnaðartæki sem getur meðal annars þjónað svipuðum tilgangi og liðléttingar. Mjög erfitt er að þekkja hinn rafmagnaða T4512e í sundur frá dísilknúnum T4512. Skýrasta einkennið er lítið grænt „e“ aftan við tegundarheitið. Rétt er að taka fram í upphafi að margt af því sem á við um rafknúna tækið sem ritað er um hér á einnig við um dísilknúnu systkini þess, sem blaðamaður prufaði til samanburðar.

Þegar Weidemann T4512e er skoðaður að utan er hann eins og hver annar skotbómulyftari, nema hann er svo smár að hann virðist hafa skroppið saman í þvotti. Eins og á flestum skotbómulyfturum er þessi með lítið ökumannshús öðrum megin, vélarhús hinum megin og bómu sem liggur langsum eftir miðjunni. Litapallettan er rauð og grá sem gæti valdið ruglingi, því Manitou, sem er annar þekktur framleiðandi lyftara, málar sín tæki í svipuðum tónum.

Úthugsað ökumannshús

Hurðin er næstum öll hliðin á ökumannshúsinu. Hún er frekar létt og er með ól sem kemur í veg fyrir að hún opnist í meira en níutíu gráður. Hurðin er ekki með neitt viðnám eða dempara, sem getur verið ókostur ef hún er opnuð í roki eða þegar tækið er í miklum halla. Þá er efri helmingur hurðarinnar gluggi sem opnast í hundrað og áttatíu gráður aftur og smellist fastur við hlið ökumannshússins.

Útsýnið er gott til allra átta, nema ef bóman er aðeins uppi skyggir hún á útsýnið til hægri – sem er eitthvað sem á við um alla skotbómulyftara. Þegar stigið er um borð tekur á móti manni sæti klætt þykku plastefni sem er ekki mjög aðlaðandi á að líta. Það er hins vegar býsna þægilegt og var sætið í þessum tiltekna lyftara á loftpúðafjöðrun. Svona vel fjaðrandi sæti er mikill kostur, enda engin fjöðrun í hjólabúnaðinum. Mjög auðvelt er að stilla sætið, sama hvort um ræðir afstöðu þess eða stífleika fjöðrunarinnar. Síðarnefnda atriðið er gert með aðstoð rafmagns og sýnir nál á vog hvenær réttu viðnámi er náð. Ökumannshúsið virðist vera lítið, en þegar inn er komið er upplifunin eins og að vera í vel sniðinni flík. Húsið þrengir hvergi að notandanum, sama þótt viðkomandi sé stór á alla kanta.

Notandinn er með allt innan seilingar. Þótt ökumannshúsið sé lítið þrengir það hvergi að.
Með allt í höndum sér

Hægra megin við ökumanninn er nánast allt sem viðkemur notkun tækisins. Undir hendinni er mjúkur púði og er afstaðan að stýripinnanum afar náttúruleg. Undirritaður gat séð fyrir sér að vinna í þessu tæki allan daginn án þess að finna til óþæginda.
Stýripinninn fellur vel í hendi og er með mátulegt viðnám. Helstu takkarnir á pinnanum eru tveir veltirofar við þumalinn, annar er til að velja akstursstefnu og hinn til að skjóta bómunni út eða draga hana inn. Þá eru takkar að framan sem stjórna þriðja sviðinu og driflæsingunum.

Aftan við stjórnpinnann eru tveir pinnar. Annar þeirra þjónar svipuðum tilgangi og handolíugjöf í dísilvinnuvél, á meðan hinn er til að festa aksturshraðann, svipað og í vökvaskiptum dráttarvélum.

Það er auðveldara að hoppa upp í skotbómulyftara en dráttarvél.

Nánast hljóðlaus

Við upphaf notkunar þarf að kveikja á tækinu með lykli. Fyrir utan örlítið mal þá er lyftarinn nánast hljóðlaus þegar hann er í gangi. Þá er stigið á bremsufetilinn og valið áfram eða aftur með veltirofanum í stjórnpinnanum og tækið er klárt í vinnu.

Lyftarinn hreyfist ekkert nema stigið sé á inngjöfina. Þá er mótor- bremsan það öflug að hinn hefðbundni hemlafetill kemur nánast aldrei við sögu. Ef notandinn stígur úr tækinu fer handbremsan sjálfkrafa á og lyftarinn fer í orkusparandi biðstöðu. Til að hefja notkun á ný þarf að stíga á bremsuna og færa veltirofann í miðjuna í augnablik áður en valin er akstursstefna.

Radíus dekkjanna er ekki mikill en á móti kemur að þau eru býsna breið. Lyftarinn nær því góðu floti og stendur sig afar vel í torfærum. Ókosturinn er hins vegar sá að þessi litlu hjólbarðar fjaðra illa yfir holur, sem finnst þegar vinnuvélinni er ekið nálægt hámarkshraða, sem er tuttugu og fimm kílómetrar á klukkustund.

Lyftarinn er með driflæsingar á öllum hjólum. Til að nota þær þarf að halda inni takka í stýripinnanum rétt á meðan maður losar sig úr festunni. Um leið og takkanum er sleppt fara driflæsingarnar úr sambandi, sem minnkar hættuna á að notandinn gleymi þeim á.

Ökumaðurinn hefur möguleika á að velja á milli framhjóla-, fjórhjóla, eða krabbastýris. Það síðastnefnda er áhugavert í notkun, en þá beygja öll fjögur hjólin í sömu átt. Við almenna notkun er fjórhjólastýrið nytsamlegast og býður það upp á afar lítinn snúningsás.

Alvöru mokstursgræja

Weidemann T4512e er góð mokstursgræja og mun öflugri en mætti ætla miðað við stærð. Bóman er afar sterkbyggð og þolir að þjösnast sé á henni og viðheldur tækið fullum stöðugleika, jafnvel þótt lagt sé á stýrið. Þar hafa skotbómulyftarar vinninginn á liðléttinga, sem geta verið óstöðugir í krappri beygju.

Einn af kostunum við að þetta sé rafmagnslyftari er að vökvadælan er með fullt afl strax. Notandinn þarf því ekki að bíða eftir að vélin fari á hærri snúninga til að glussinn nái fullu flæði. Fremst á bómunni er Euro- rammi sem er mjög algeng festing á ámoksturstækjum. Því er hægt að tengja öll helstu tæki á lyftarann sem eru þegar til á búinu, þótt þau séu ekki sérstaklega hugsuð fyrir þessa tilteknu vinnuvél. Skráð lyftigeta er 1.250 kílógrömm.

Að utan er afar fátt sem bendir til að lyftarinn gangi fyrir rafmagni.

Rafhlaða í stað vélar

Lyftarinn er með hefðbundið húdd, en í staðinn fyrir að geyma dísilmótor er vélarrýmið með stóra átján kílóvattstunda liþíum rafhlöðu. Hægt er að hlaða lyftarann með þriggja kílóvatta straumi eða kaupa aukahlut sem tvöfaldar hleðslugetuna upp í sex kílóvött. Þetta er ekki sérlega dýr viðbót sem er auðvelt að setja í eftir á. Það þarf hins vegar þriggja fasa rafmagn til að geta nýtt sér öflugri hleðsluna. Aftast er tengill fyrir rafmagnið sem er alveg eins í útliti og þeir sem eru á plug-in-hybrid bílum, svokallaður Type 2 tengill. Því er hægt að nota sama hleðslutæki og er notað fyrir heimilisbílinn.

Weidemann áætlar að hleðslan dugi í þrjá og hálfan til fjóra tíma af blandaðri vinnu ef rafhlaðan er fullhlaðin í upphafi. Þá er alltaf hægt að skjóta á hann hleðslu, til að mynda þegar farið er í kaffi og hádegismat. Tvær og hálfa klukkustund tekur að hlaða frá tuttugu prósentum upp í níutíu prósent. Þá tekur þrjár og hálfa klukkustund að fylla batteríið upp í hundrað prósent hleðslu ef það er nánast tómt.

Undir húddinu er batterí í staðinn fyrir dísilmótor.

Að lokum

Eigin þyngd tækisins er 2.750 kílógrömm. Helstu mál í millimetrum eru: lengd, 2.991; breidd, 1.564; hæð, 1,995. Þetta gefur möguleika á að flytja lyftarann á milli staða með kerru. Mótorinn skilar 33,1 kílóvatti, sem samsvarar rúmlega fjörutíu og fjórum hestöflum. Rafmagnslyftarinn kostar frá 11.800.000 krónum án vsk. en ódýrasti dísillyftarinn kostar 6.990.000 krónur án vsk.

Weidemann T4512e er úthugsað tæki. Bændur sem taka þennan lyftara í sína þjónustu ættu að geta sent dráttarvélina í frí, nema rétt yfir heyskapinn. Þá getur þetta tæki gagnast vel við vinnu hjá sveitarfélögum og verktökum. Nánari upplýsingar er hægt að fá hjá Kraftvélum, söluaðila Weidemann.

Skylt efni: prufuakstur

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...