Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Þórhildur Laufey Sigurðardóttir er bókmenntafræðingur og grafískur hönnuður og starfar við að aðstoða fyrirtæki í vörumerkjaþróun og heildarímynd undir merkjum fyrirtækis síns, Kúper Blakk. Hún hélt erindi á dögunum fyrir Samtök smáframleiðenda sem var mjög áhugavert.
Þórhildur Laufey Sigurðardóttir er bókmenntafræðingur og grafískur hönnuður og starfar við að aðstoða fyrirtæki í vörumerkjaþróun og heildarímynd undir merkjum fyrirtækis síns, Kúper Blakk. Hún hélt erindi á dögunum fyrir Samtök smáframleiðenda sem var mjög áhugavert.
Mynd / Camilla Ósk Hákonardóttir
Líf og starf 3. maí 2021

Þróun vörumerkis er langhlaup

Höfundur: Erla Hjördís Gunnarsdóttir

Þórhildur Laufey Sigurðardóttir er bókmenntafræðingur og grafískur hönnuður og starfar við að aðstoða fyrirtæki í vörumerkjaþróun og heildarímynd undir merkjum fyrirtækis síns, Kúper Blakk. Hún segir mikilvægt að fólk átti sig á því hvaða sögu það vilji segja og að margt sé hægt að gera í dag fyrir lítinn pening. Lykillinn sé alltaf að fólk hafi trú á því sem það er að gera, því þá verði eftirleikurinn svo auðveldur.

„Ég nýti reynslu mína úr bókmenntafræðinni og hönnunargeiranum við að leiðbeina smáum og stórum fyrirtækjum ásamt einyrkjum við hvað þurfi að hafa í huga þegar vörumerki eru byggð upp. Það er að mörgu að huga í þessum efnum og á þessum sjálfbæru tímum sem við lifum á, árið 2021, þá getur fólk í rauninni gert margt sjálft þegar kemur að þessu,“ útskýrir Þórhildur, sem stofnaði Kúper Blakk upprunalega þegar hún var búsett á Egilsstöðum fyrir 15 árum.

Fjölbreyttur og góður skóli

Eftir nám í grafískri hönnun í Kaupmannahöfn flutti Þórhildur heim með fjölskylduna, fyrst um sinn til Egilsstaða þar sem maður hennar, Gunnar Örn Guðmundsson, fékk starf hjá Alcoa á Reyðarfirði, en síðar fluttu þau í Kópavoginn þar sem þau eru búsett enn.
„Það var í rauninni lítið að gera fyrir mig á Egilsstöðum þannig að ég ákvað að stofna mitt eigið fyrirtæki árið 2007. Við vorum með þrjú lítil börn og ég tiltölulega nýskriðin úr fæðingarorlofi og námi, þannig að það var ekki mikið fyrir grafíska hönnuði og bókmenntafræðinga að gera á Austurlandi,“ segir Þórhildur og bætir við:

„Síðan leið á og ég fékk fjölbreytt verkefni upp í hendurnar fyrir austan, þau fyrstu fyrir Alcoa. Síðan, eins og gerist, þá er auðveldara að vera í smærri stæðum ef maður er duglegur og ef maður nær að sanna sig þá spyrst það út. Þetta var góður skóli og eitt og annað að finna úr enda var þetta fjölbreytt, allt frá því að búa til vörumerki og merki yfir í bæklinga og að skapa heildarsýn, eins og til dæmis fyrir Náttúrugripasafnið í Neskaupstað.“

Allir dagar stórmerkilegir

Þórhildur segir þau síðan hafa tekið þá ákvörðun korter í hrun að flytja í bæinn og þá hófst ný vegferð í að sanna sig á ný.
„Þarna var ég í rauninni að reyna að halda mínum eigin rekstri gangandi á einhverjum tíma en það var erfitt. Fyrirtæki fóru á hausinn í kringum mig sem ég vann fyrir og þá tók ég ákvörðun að fara í mastersnám í bókmenntafræði. Það gaf mér rými til að skoða hvernig ég gæti nýtt mér bókmenntafræðina og grafíska hönnun, sem var góður tími,“ útskýrir Þórhildur og segir jafnframt:

„Ég fór að skoða auglýsingar og umbúðir og að greina hlutina hinum megin frá sem femínisti og menningarrýnir, það er rusl­menningar eins og ég kýs að kalla það. Það er ekkert endilega tekið eftir því sem við grafískir hönnuðir erum að gera dagsdaglega eins og umbúðir, mjólkurfernur, bílaskilti og fleira. Ég fór að vinna hálfan dag hjá Myndstef og þá opnaði það fyrir mér að vera ekki hrædd við að fara í allt aðrar áttir en ég ætlaði mér. Ég var búin að vera í grúskinu í náminu, með börnin og líka einyrki og langaði þá að fara á vinnustað þannig að ég var svo heppin að ég fékk vinnu sem yfirhönnuður hjá Íslandsbanka árið 2012. Þarna datt ég inn í markaðsteymið á þessum stóra vinnustað sem var mjög fjölbreytt og fjölmennt. Þetta var rosalega góður skóli því ég lærði allt um markaðsmál, innri markaðsmál og samskipti ásamt því hvernig það er að þjónusta alls konar starfsfólk. Það er svo gott að komast inn í gott mengi af flottu fólki varðandi tengslanet og fleira. Ég var eins og svampur og fannst allir dagar stórmerkilegir.“

Sterk vörumerki eru heilsteypt og með skýran tilgang, úr bókinni Designing Brand Identity eftir Alina Wheeler.

Úr banka í verslun og orkufyrirtæki

Eftir fimm ára reynslumikil og góð ár hætti Þórhildur hjá Íslandsbanka og fór yfir til Festis sem á og rekur meðal annars Krónuverslanirnar. Þar opnuðust nýjar og spennandi dyr.

„Ég fer í ótrúlega skemmtilegt verkefni með umbyltingu að sjónarmiði. Ég byrjaði sem hönnuður í markaðsteymi með yfirumsjón með framleiðslu á alls konar efni fyrir Festi. Við fórum í að byggja upp vörumerkjavirði Krónunnar og þá fór að mótast sýn hjá mér, það er að nýta þessa tvo þræði í mér; sögumanninn sem bókmenntafræðingur og grafíska hönnuðinn til að miðla sjónrænt. Ég fékk að skipta mér af öllu, staðsetningu á verslunum og fleira og lánaði „hönnunarheilann“ minn í ýmislegt eins og stefnumótandi ákvarðanir og fleira. Vörumerki er allt sem er gert undir nafni og hatti vörumerkisins sem er ótrúlega spennandi, það er að hafa þessa yfirsýn,“ segir Þórhildur og bætir við:

„Eftir þennan góða tíma fer ég til Orku náttúrunnar. Þar var aðal­áherslan á að byggja upp vörumerkið og persónuleika þess. Því mun skýrari sýn og framsetning á stefnu fyrirtækjanna er fyrir viðskiptavininum og að vörumerkið sé sem heilsteyptast, þannig myndast traust. Viðskipti eru ekkert annað en traust. Grunnformúlan sem ég var að vinna með Orku náttúrunnar í var að við vorum að móta nýja stefnu þar og samhengi út frá viðskiptavininum númer 1, 2 og 3 og vefa síðan vörumerkið utan um stefnuna. Ég hef sterkar skoðanir á að við sem samfélag eigum að nýta betur alla þessa „hönnunarheila“ í samfélaginu í stefnumótandi ákvarðanir, þá gerast töfrar.“

Vörumerki þarf að segja sína sögu

Eftir að hafa fyllt bakpokann af reynslu hjá banka, smásölu og orkufyrirtæki fann Þórhildur þá köllun hjá sér að hún yrði að endurvekja Kúper Blakk og gera hlutina aftur upp á eigin spýtur svo úr varð að hún byrjaði með það á afmælisdeginum sínum í fyrra, 21. október.

„Það er búið að vera ótrúlega mikill áhugi síðan ég byrjaði aftur með Kúper Blakk. Það að byggja upp vörumerki er langhlaup, rétt eins og stefnumótun og eða að umbreyta eða bylta einhverju. Fyrir utan þau ráðgjafar- og hönnunarverkefni sem ég geri fyrir hin ýmsu fyrirtæki stelst ég líka stundum til að búa til bækur. Það er mikil handavinna að búa til bókverk og ég hef takmarkaðan tíma í það en ég elska að búa til bækur og er þá í samstarfi við höfunda og útgáfufélög,“ segir Þórhildur og bætir við:

„Mér finnst mikilvægast að flakka á milli ólíkra heima og máta hvernig ólík reynsla geti nýst í ólíkum verkefnum. Sú þekking að búa til bækur nýtist til dæmis ótrúlega vel þegar byggja á upp vörumerki, af hverju ertu að segja þessa sögu og af hverju er hún merkileg? Þetta er grunnurinn sem ég er að nýta í mínu starfi. Í fyrirlestrum sem ég held er ég að sannfæra einyrkja ásamt smærri og stærri fyrirtæki um hversu mikilvægt sé að vörumerkið eigi heima í fyrirtækinu, það sé ekki úti í bæ hjá verktaka eða t.d. hjá einhverri auglýsingastofu. Það eru ákveðnar eignir sem fyrirtækið þarf að hafa hjá sér. Ekki endilega bara textar heldur líka hljóð og tal, ljósmyndir, hönnunarskjöl – því það er alls konar sem endurspeglast í vörumerkinu.“

Borgar sig að vinna heimavinnuna

„Ástríða mín er að aðstoða fyrirtæki að fá yfirsýn og öðlast vald yfir vörumerkinu sínu og geta þannig orðið sem mest sjálfbær. Eitt sem ég er oft spurð að og mér finnst mikil þörf á er hvaða leið fyrirtæki eigi að taka til að deila meiru frá sínum miðlum. Hvað þarf að hafa í huga við að byggja upp vörumerki? Það er margt sem maður getur gert sjálfur og það þarf ekki að gera eins og allir aðrir, heldur fyrst og fremst að vita hvað fyrirtækið ætlar að gera við sitt vörumerki. Öll fyrirtæki eru sprottin upp úr þörfum sem það þarf að leysa, fyrirtæki þurfa t.d. ekkert endilega að vera með heimasíðu eða Facebook heldur það sem virkar fyrir hóp þess,“ útskýrir Þórhildur og segir jafnframt:

„Vörumerki er ekki fólk heldur byggt upp af fólki. En fólk kemur og fer og maður sér í stóru, flottu og stöðugu vörumerkjunum eins og Apple, Coca Cola og Bónus að það geta í rauninni allir gengið út og nýtt fólk tekið við án þess að vörumerkið beri skaða af – því það er skýrt fyrir hvað þau standa og hvernig þau haga sér. Ég hvet alltaf alla til að gera heimavinnuna sem mest sjálfir, ef það er að fara að gera vöru eða eitthvað nýtt. Það er árið 2021 og það er mjög mikið sem fólk getur gert sjálft fyrir lítinn pening. Það þarf að vekja áhuga einhvers og þá vilja þeir vita meira. Ef þú hefur trú á því sem þú ert að gera þá er eftirleikurinn svo auðveldur og mun ódýrari en ella. Það er svo dýrt að vera alltaf að byrja upp á nýtt með autt blað. Það þarf alltaf að spyrja hvaða þarfir erum við að leysa, fyrir hverja og hvernig tala ég við þau. Vörumerki þurfa að þroskast og þróast í takt við tíðarandann rétt eins og allt annað.“

Skylt efni: Vöruþróun | vörumerki

Tólf slaga hönd á Blómaeyjunni
Líf og starf 3. desember 2024

Tólf slaga hönd á Blómaeyjunni

Stefán Jónsson briddsspilari hefur reynst Bridgesambandi Íslands hvalreki með áh...

Augnlitir í sauðfé
Líf og starf 3. desember 2024

Augnlitir í sauðfé

Sjöunda útgáfa Hvammshlíðar­dagatals hefur litið dagsins ljós.

Norðurljós í nóvember
Líf og starf 2. desember 2024

Norðurljós í nóvember

Tími tunglsins og norðurljósanna hefur nú gengið í garð, en óvenjubjart hefur ve...

Vefnaður úr kasmír
Líf og starf 2. desember 2024

Vefnaður úr kasmír

Hlýlegir treflar, sjöl og peysur úr kasmír er eitthvað sem okkur flestum þykir ó...

Kjötbókin 30 ára
Líf og starf 2. desember 2024

Kjötbókin 30 ára

Kjötbókin er 30 ára á þessu ári. Hún kom fyrst út í prentaðri útgáfu árið 1994 o...

Skákþrautir á netinu
Líf og starf 2. desember 2024

Skákþrautir á netinu

Gríðarlegur fjöldi skákþrauta standa skákáhugafólki til boða til að æfa sig á á ...

Sveitabúðin Una
Líf og starf 28. nóvember 2024

Sveitabúðin Una

Hjónin Rebekka Katrínardóttir og Magnús Haraldsson hafa rekið sveitabúðina Unu n...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 25. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn gæti átt von á þrálátum veikindum. Hann ætti að gæta vel að sjálfum ...