Tildra
Tildra er lítill vaðfugl eða fjörufugl sem stoppar hér á Íslandi á ferð sinni milli sumar- og vetrarstöðva bæði á vorin og á haustin. Tildrur halda sig mest við ströndina í opnum fjörum og klettum þar sem þær velta við steinum og þangi í leit að æti. Tildrur geta verið nokkuð félagslyndar og sjást oft nokkrar saman eða í litlum hópum. Þegar þær eru uppteknar í ætisleit í fjörunni er oft gott að tylla sér niður og ef maður hefur hægt um sig geta þær komið mjög nálægt. Þær dvelja í Vestur-Evrópu og Vestur-Afríku yfir vetrarmánuðina en á sumrin fara þær til Grænlands og Kanada þar sem varpstöðvarnar eru. Ísland er mikilvægur viðkomustaður á þessu ferðalagi. Hún er því eingöngu fargestur á Íslandi.