Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Rúna Þrastardóttir hefur stundað tilraunaræktun á mjölormum og hermannaflugum í sumar.
Rúna Þrastardóttir hefur stundað tilraunaræktun á mjölormum og hermannaflugum í sumar.
Mynd / Aðsent
Líf og starf 3. september 2021

Tilraunaræktun á skordýrum til manneldis eða fóðurframleiðslu

Höfundur: smh

Rúna Þrastardóttir hefur starfað í sumar hjá Landbúnaðar­háskóla Íslands að rannsóknum á skordýrum sem snúast um það hvort hægt sé að rækta mjölorma og/eða hermannaflugur á Íslandi til manneldis eða fóðurframleiðslu. Hún telur að ræktun skordýra geti orðið raunhæf grein til fóðurframleiðslu og jafnvel manneldis á Íslandi eftir einhver ár.

Að sögn Rúnu er skordýraræktun nokkuð umfangsmikil grein í Evrópu og meiri en hún hafði gert sér grein fyrir. Hún segir að tilraunverkefni hennar sé ekki fyrsta sinnar tegundar á Íslandi því fyrir nokkrum árum hafi verið gerðar tilraunir með ræktun hermannaflugna sem fóður fyrir fiskeldi, en þeim hafi verið hætt. Einnig hafi verið gerðar einhverjar tilraunir með skordýraræktun hjá Matís og í heimahúsi á Húsavík.

Hún segist hafa verið að skoða aðferðirnar við þetta úti í Evrópu og hvernig hægt sé að heimfæra þær yfir á Ísland.

Þarf að þróa skilvirkar aðferðir

„Ég tel að þetta geti orðið raunhæf grein til fóðurframleiðslu og jafnvel til manneldis á Íslandi eftir einhver ár en það þarf mikið að gerast í framtíðinni til þess að svo geti orðið. Til þess að það geti gerst þarf að þróa aðferðina við að rækta þessi skordýr á Íslandi betur en það er verið að nota mismunandi aðferðir við það í Evrópu,“ segir Rúna, spurð um hvort tilraunir hennar gefi vísbendingar um það hvort þetta geti orðið raunhæf grein til fóðurframleiðslu eða manneldis – og jafnvel lagt lóð á vogarskálar fyrir fæðuöryggi Íslands?

„Sums staðar er verið að nota sjálfvirka aðferð með vélum, til dæmis er það gert í fyrirtækinu Ynsect í Frakklandi, sem er með 230 starfsmenn og stefnir að því að verða alveg arðbært á næsta ári, meðan í minni fyrirtækjum er ræktunin enn þá unnin með höndunum.

Áður en almennileg ræktun skordýra getur farið fram á Íslandi þarf að afla meiri upplýsingar um hvernig skordýraframleiðsla fer fram í Evrópu og ef að það á að fara að framleiða skordýr í miklu magni þarf að hanna öruggar vélar sem geta sinnt þeim verkefnum. Það fer alveg nóg af mat til spillis á Íslandi sem getur verið nýttur sem fóður fyrir þessi dýr, en samkvæmt matarsoun.is er áætlað að heildarsóun á Íslandi á ári af nýtanlegum mat sé 7.152 tonn og 9.123 tonn af mat sem talinn er vera ónýtanlegur,“ segir Rúna.
Hún bendir á að einnig verði eftir mikið af hrati við bjórframleiðslu sem ekki er talið með í þessum útreikningi.

Mjölormar gæða sér á hrati sem fellur til við bjórframleiðslu.

Ekki leyfilegt að nýta allan úrgang

Rúna segir að enn þá sé það þannig samkvæmt reglum Evrópu­sambandsins að ekki er leyfilegt að nýta allan lífrænan úrgang sem fóður fyrir skordýr ræktuð til manneldis eða fyrir fóðrun dýra. „Það er vegna þess að Evrópusambandið telur það geta valdið hættu á útbreiðslu á prion sjúkdómum sem er eins og riðuveiki hjá kindum, en það hafa verið gerðar of fáar rannsóknir tengdar þessu til þess að geta áætlað hættuna.

Hins vegar benda rannóknir til þess að það virðist vera almennt minni líkur á að skordýr ræktuð til manneldis beri með sér smitsjúkdóma heldur en í landbúnaði almennt, þar sem skordýr eru svo ólík manninum. Vegna laga Evrópusambandsins væri því hægt að flokka matarúrgang sem er talinn vera öruggur fyrir skordýr ræktuð til manneldis eða í fóðurframleiðslu, svo sem ávextir, grænmeti, brauð og fleira, frá úrgangi sem er talinn vera óöruggur. Þar sem svo mikið af nýtanlegum matarúrgangi fer til spillis á Íslandi þá tel ég að alveg nóg af úrgangi geti verið nýttur til þess að framfleyta skorýraframleiðslu. Einnig væri hægt að rækta skordýr á Íslandi til þess að brjóta niður þennan úrgang í stað þess að urða hann en þá væri ekki hægt að nýta skordýrin til manneldis eða sem fóður fyrir önnur dýr ræktuð til manneldis.“

Púpur mjölormanna eru sérkennilegar í laginu.

Fordómar gagnvart skordýraáti

Varðandi það hvort ræktun skordýra geti orðið raunhæf grein á Íslandi til manneldis, segir Rúna að Evrópusambandið hafi gefið leyfi fyrir því að skordýr séu ræktuð til manneldis en ekki enn þá gefið leyfi fyrir hermannaflugunni. Það sé hins vegar í skoðun. „Það er reyndar lítil eftirspurn eftir því að borða skordýr í Evrópu þar sem margir hafa mikla fordóma gagnvart því að borða þau. Margir telja skordýr vera óhrein og hættuleg, þó það hafi aldrei verið gerðar rannsóknir á því hér á landi þá tel ég þetta viðhorf gagnvart skordýraáti vera líka ríkjandi á Íslandi. Það hefur þó verið aukin eftirspurn eftir því að borða skordýr í Evrópu, sérstaklega í Belgíu með auknu framboði, og sérstaklega virðist ungt fólk vera tilbúið til þess að smakka skordýr. Það er þó enn þá langt í land þar til Evrópubúar munu samþykkja skordýr sem almenn matvæli,“ segir Rúna.

Þegar mjölormapúpurnar verða að bjöllum falla þær niður og lenda í heimkynnum mjölormabjallanna.

Sækir um styrk til framhaldsrannsókna

Niðurstaðna úr rannsóknum Rúnu er að vænta 31. ágúst og það fer síðan eftir því hvort hún fær styrk úr Matvælasjóði hvort verkefnið heldur áfram. „Ég er aðallega að rannsaka það hvort hægt sé að rækta þessar tegundir á Íslandi, það er mjölorma og hermannaflugu, en allt bendir til þess að svo sé.

Mjölormarnir virðast dafna vel í hrati sem verður eftir við bjórframleiðslu ásamt því að þurfa einhvern raka úr fæðunni eins og úr gulrótum og kartöflum. Samkvæmt mínum útreikningum virðist hver mjölormur borða undir hálft gramm á dag af matnum sem ég gef þeim og svo borða þeir ekkert í viku meðan þeir eru að púpa. Ég hef ekki getað reiknað út hversu mikið hermannaflugurnar borða á dag þar sem einhverjar hafa verið að púpa og breytast í flugur og þá nærast þær ekkert nema hvað þær fá smá sykur og vatn.

Hermannaflugurnar geta borðað allan matarúrgang en ég hef verið að gefa þeim grænmetis- og ávaxtaúrgang úr mötuneytinu hér hjá Landbúnaðarháskólanum. Ég hef einnig komist að því að það er mikilvægt þegar hermannaflugurnar eru orðnar flugur að þær fái nægt ljós til þess að æxlun geti hafist en ég hef verið í einhverjum vandræðum með það og tel það helst vera vegna þess að ég hef ekki margar flugur í einu, þær eru mismandi gamlar og því komnar á ólík kynþroskastig.“ 

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...