Tilraunir á Geitasandi með áhrif lífrænna efna á gróðurframvindu
Í byrjun árs var sett af stað samstarfsverkefni um þróun á íslenskum áburði með sjálfbærum framleiðsluaðferðum. Einn angi þess verkefnis er að kortleggja allt lífrænt hráefni sem getur nýst til áburðarframleiðslu. Verkefnisstjórn er í höndum Matís, en samstarfsaðilar eru Atmonia, Landsvirkjun, Landbúnaðarháskóli Íslands og Landgræðslan – sem nýlega setti upp tilraunir á Geitasandi í Rangárvallasýslu þar sem borin eru saman áhrif mismunandi lífrænna efna á gróðurframvindu á rýrum mel.
Samstarfsverkefnið heitir Sjálfbær áburðarvinnsla og fékk tveggja ára styrk frá Markáætlun Rannís. Takmarkið er að finna leiðir til að bæta næringarefnum í lífrænan úrgang og gera þau að verðmætum áburði.
Loftmyndir af sáningarreitum á Geitasandi.
Áhrif sex mismunandi tegunda lífrænna efna
Í tilraun Landgræðslunnar eru borin saman áhrif sex mismunandi tegunda lífrænna efna, með eða án viðbættra næringarefna og sum þeirra í misstórum skömmtum. Allur úrgangur hefur verið meðhöndlaður á þann hátt að leyfilegt er að dreifa honum til uppgræðslu.
Í umfjöllun á vef Landgræðslunnar um tilraunina á Geitasandi kemur fram að hingað til hafi skort leiðir til að endurnýta allan lífrænan úrgang á vistvænan hátt, sérstaklega svokallaðan „vandamálaúrgang“.
Tilraunaverkefni Landgræðslunnar, þar sem mismunandi tegundum af lífrænum áburði er dreift á Geitasandi til að skoða áhrif á gróðurframvindu.
Mannaseyra er vandamálaúrgangur
„Vandamálaúrgangur sem hér er notað sem samheiti yfir efni sem eru illa nýtt, s.s. mannaseyra og ýmis úrgangur frá eldisdýrum, er oft urðaður eða hleypt út í sjó. Hann mætti hins vegar frekar kalla „tækifærisúrgang“.
Þessi tækifærisúrgangur inniheldur mikið magn dýrmætra næringarefna og það er því fullkomin sóun að nýta hann ekki, sérstaklega í landi þar sem ástand gróðurs og jarðvegs er svona bágborið. Því er til mikils að vinna að nýta hann sem best og nota í stað tilbúins innflutts áburðar þar sem það er hægt, en tilbúinn áburður hefur margfalt hærra kolefnisspor og er dýr í innkaupum. Tækifærisúrgangurinn er hins vegar heimafenginn og oftast gjaldfrjáls,“ segir í umfjölluninni.
Haft er eftir Magnúsi H. Jóhannessyni, teymisstjóra Landgræðslunnar, að geysilega mikil verðmæti séu fólgin í lífrænum úrgangi, þó flest okkar líti á hann sem vandamál sem best sé að losna við sem fyrst. Hann segir að næringarefnin séu nákvæmlega jafn verðmæt og í tilbúnum áburði, bara aðeins þyngri í notkun.