Tífalda framleiðsluna á 10 árum
Eimverk stefnir að því að tífalda framleiðslu sína á viskíi og öðrum sterkum vínum á næstu tíu árum. Samhliða aukningunni ætlar fyrirtækið að tífalda ræktun á byggi. Auk þess sem það stundar tilraunaræktun á kúmeni.
Eva María Sigurbjörnsdóttir, framleiðslustjóri Eimverks, segir að hugmyndin sé að tífalda framleiðsluna af hreinum spíra á næstu tíu árum. „Það er nógur markaður fyrir vörunni og nóg til af landi til að auka ræktun á því byggi sem þarf til framleiðslunnar.“
Hámarksframleiðsla
Að sögn Evu ræktar fyrirtækið sjálft allt sitt bygg. „Í dag erum við að nota í kringum 100 tonn af byggi til að framleiða 40 þúsund lítra af hreinum spíra. Við þurfum því að auka ræktunina tífalt á næstu tíu árum til að ná markmiðinu um að auka framleiðsluna tífalt eða í þúsund tonn.“ Eimverk var stofnað árið 2009 og fyrstu vörur þess fóru á markað fjórum árum seinna. Vöxtur fyrirtækisins hefur verið hraður og nú er svo komið að það hefur náð hámarksframleiðslu með núverandi tækjabúnaði.
Markaður um allan heim
„Til þess að áformin gangi eftir þurfum við að bæta við okkur tækjum þar sem við erum í dag komin í hámarksframleiðslu með þeim tækjum sem við eigum. Næsta skref er að kaupa stærri kopareimingar- tæki og bæta framleiðsluferlana hjá okkur og skella okkur í að auka framleiðsluna.“
Eva María segir að í dag selji fyrirtækið yfir 90% framleiðslunnar erlendis. „Stærsti markaðurinn okkar er í Evrópu og sérstaklega í Þýskalandi en við erum líka að selja til Kína, Japan og Ástralíu. Við höfum verið róleg við að koma okkur á Bandaríkjamarkað þar sem við höfum einfaldlega ekki getað framleitt nóg til að sinna þeim markaði.“
Tíföld ræktun á byggi
Eimverk á jörðina Bjálmholt í Holtum sem er 270 hektarar að stærð. „Jörðin hentar ekki öll til byggræktar þar sem hún er mikið mýrlendi. Við leigjum Akra af Landgræðslunni í Gunnarsholti til að hafa aðgang að sendnum jarðvegi á móti mýrarjarðveginum í Bjálmholti og svo höfum við einnig aðgang að landi við Læk í Rangárþingi ytra.
Ástæðan fyrir því að við viljum dreifa ræktuninni er til að draga úr áhættunni, því ef það eru þurr sumur virkar mýrarjarðvegurinn vel en í blautum sumrum er betra að rækta í sandi. Þegar ræktunin hefur gengið best hjá okkur erum við að fá 125 tonn af 30 hekturum þannig að við erum að tala um bygg af tæpum 300 hekturum til framleiðslunnar. Auk þess sem við höfum keypt bygg frá Sandhóli og Þorvaldseyri.“
Eimverk kaupir vinnu við þreskingu byggsins en þurrkar það sjálft sem gengur fyrir heitu vatni auk þess sem fyrirtækið á eigin hreinsara og flokkara.
Tilraunaverkefni í kúmenrækt
Eva María segir að auk þess að rækta bygg sé Eimverk með tilraunaverkefni í ræktun á kúmeni. „Í ár fengum við um 700 kíló af óhreinsuðu kúmeni en á síðasta ári töpuðum við allri uppskerunni í vonskuveðri og fræin dreifðust allt í kringum akurinn og ekki itt einasta fræ eftir sem við gátum nýtt.“
Upprunalega fræið í tilrauna- ræktunina tíndi Eva úti í Viðey á Kollafirði í Faxaflóa þar sem það vex villt eftir að það smitaðist út eftir að Skúli fógeti flutti það þangað til ræktunar. Auk þess sem Eimverk hefur notast við finnskt yrki í tilrauninni.
„Byggið sem við notum er allt íslenskt og grunnurinn að öllum spíranum sem við framleiðum en við notum kúmenið í brennivínið.“