Um 4.500 gestir sóttu bændur heim
Síðasta sumar fagnaði félagið Beint frá býli 15 ára afmæli. Haldið var upp á tímamótin með Beint frá býli-deginum og var leikurinn endurtekinn 18. ágúst síðastliðinn þar sem um 4.500 manns komu í heimsóknir til bænda.
Oddný Anna Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Beint frá býli, segir að dagurinn hafi verið einstaklega vel heppnaður og sannarlega stimplað sig inn sem árlegur viðburður. Sjö gestgjafar, sem eru félagar í Beint frá býli, buðu heim, hver í sínum landshluta og komu aðrir félagar í samtökum smáframleiðenda matvæla, sem Beint frá Býli er aðildarfélag að, á bæi gestgjafanna til að taka þátt í matarmarkaði. Segir Oddný að fjöldinn hafi verið það mikill að varla hefði mátt koma fleiri gestum fyrir á bæjunum og að rífandi sala hafi verið á matarmörkuðunum.
„Tilgangur dagsins var að gefa landsmönnum kost á að heimsækja slík býli og bæði kynnast og kaupa vörur beint af smáframleiðendum, samhliða því að eiga góðan og fjölskylduvænan dag á íslensku bóndabýli, síðasta helgidag fyrir skólabyrjun,“ segir Oddný. Auk matarmarkaðarins var boðið upp á ýmsa skemmtun, leiðsögn um starfsemina á býlinu, veitingasölu og svo bauð félagið gestum upp á kökusneið, kaffi og djús.
Þarft sé að vekja athygli á þeirri starfsemi sem stunduð er á lögbýlum landsins og á hugtakinu „beint frá býli“, sem sé notað um framleiðslu svokallaðra heimavinnsluaðila og vörum smáframleiðenda sem framleiða matargersemar úr fjölbreyttum afurðum hringinn í kringum landið.
Gestgjafarnir sem buðu heim eru eftirfarandi; Hreppamjólk í Gunnbjarnarholti, Grímsstaðir í Reykholtsdal, Egilsstaðir í Fljótsdal við Óbyggðasetrið, Húsavíkurbúið á Ströndum (haldinn á Sauðfjársetrinu Sævangi á Ströndum), Háhóll geitabú í Nesjum í Hornafirði, Svartárkot í Bárðardal og Brúnastaðir í Fljótum.