Uppselt þar til í janúar
Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust undir leikstjórn Gunnars Gunnsteinssonar og söngþjálfun Andreu Gylfadóttur.
Ávaxtakarfan er líflegt og skemmtilegt verk sem tekur þó á viðkvæmu efni, einelti og fordómum, en Ingi Guðmundsson, formaður Leikfélags Hveragerðis, segir boðskapinn mikilvægan og eigi erindi við alla. Viðtökur á sýningunni hafa verið fram úr öllum vonum og er uppselt á Ávaxtakörfuna á þessu ári. „Síðasta sýningin hjá okkur er sunnudaginn 8. desember og þá höfum við verið með fullt hús á alls 22 sýningum frá því í september,“ segir Ingi. „Við erum ótrúlega ánægð með viðtökurnar enda ekki sjálfgefið að sýningar áhugaleikhúsa gangi svona vel.“
Sýningin þyki bæði vönduð og metnaðarfull auk þess sem það sé augljóst að samspil leikaranna beri vott um gott flæði.
Ákveðið hefur verið að halda sýningum áfram á nýju ári og er sala hafin á janúarsýningarnar á vefsíðu Tix.is. Miði á Ávaxtakörfuna er tilvalin jólagjöf auk þess sem sýningin hentar vel fyrir skólahópa. „Hópapantanir og fyrirspurnir fara fram í gegnum netfangið leikhver@gmail.com og um að gera að hafa samband,“ segir Ingi að lokum.