Útsýnispallurinn Baugs-Bjólfur sigraði
Baugs-Bjólfur er heiti á vinningstillögu í samkeppni um útsýnisstað við snjóflóðagarðana í Bjólfi á Seyðisfirði. Um er að ræða hringlaga útsýnispall sem situr á Bæjarbrún með stórfenglegu útsýni yfir Seyðisfjörð.
Dómnefnd sem fór yfir innkomnar tillögur segir að þessi hafi að flestu leyti borið af með mjög áhugaverða nálgun á viðfangsefnið auk þess að sýna ýmsar áhugaverðar skírskotanir í menningu, sögu og náttúru staðarins, nokkuð sem reyndar flestar hinar tillögurnar gerðu einnig.
Dómnefnd mat tillöguna á þann hátt að um væri að ræða áhugavert kennileiti sem kallaðist á við landslagið á einfaldan en áhrifamikinn hátt þar sem ferðafólk er leitt áfram í lokaðri umgjörð án hnökra. Hreyfihamlaðir þurfa ekki að yfirstíga neinar hæðahindranir og tillagan tryggir gott flæði ferðafólks um svæðið. „Einföld, sérstæð og sterk byggingarlist hér á ferð sem dómnefnd telur að geti haft mjög mikið aðdráttarafl og hefur alla burði til þess að bjóða upp á einstaka upplifun“, eins og segir í niðurstöðu dómnefndar.
Markmið samkeppninnar var að bæta aðstæður og skapa aðdráttarafl á svæði sem hefur mikil tækifæri til þess að vera einn af fjölsóttustu útsýnisstöðum Austurlands, auk þess að bæta öryggi og aðgengi ferðamanna og stuðla að verndun lítt snortinnar náttúru á tímum vaxandi fjölda ferðafólks.
Múlaþing efndi til samkeppninnar og fékk til þess styrk frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Sveitarfélagið stefnir að því að semja um áframhaldandi hönnun í samvinnu við vinningshafa og að sótt verði um styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða í áframhald verkefnisins.
Vinningstillagan var unnin í þverfaglegu samstarfi og eru aðalhöfundar þær Ástríður Birna Árnadóttir og Stefanía Helga Pálmarsdóttir frá Arkibygg Arkitektum í samvinnu við Önnu Kristínu Guðmundsdóttur og Kjartan Mogensen landslagsarkitekta, Auði Hreiðarsdóttur frá ESJA ARCHITECTURE og Arnar Björn Björnsson frá EXA NORDIC, sem sá um burðarvirkjahönnun.