Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Mjaltaaðstaðan á núverandi slóðum Snorra Sigurðssonar í Nígeríu í Afríku. Mikilvægt var að bæta úr þeirri aðstöðu sem bændurnir í Kaduna höfðu aðgengi að fyrir skepnur sínar og því réðst Arla Foods í það að byggja upp mjaltaaðstöðu á fjórum mismunandi stöðum svo bændurnir gætu haft möguleika á því að mjólka kýrnar með mjaltavélum.
Mjaltaaðstaðan á núverandi slóðum Snorra Sigurðssonar í Nígeríu í Afríku. Mikilvægt var að bæta úr þeirri aðstöðu sem bændurnir í Kaduna höfðu aðgengi að fyrir skepnur sínar og því réðst Arla Foods í það að byggja upp mjaltaaðstöðu á fjórum mismunandi stöðum svo bændurnir gætu haft möguleika á því að mjólka kýrnar með mjaltavélum.
Mynd / SS
Líf og starf 5. janúar 2022

Veðja á Nígeríu

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Snorri Sigurðsson er lesendum Bændablaðsins líklega vel kunnur enda skrifar hann reglulega í blaðið um ýmiss konar fagleg málefni og aðallega varðandi eitthvað sem snýr að kúabúskap, enda sérfræðingur á því sviði.

Hann starfaði áður hér á landi hjá bæði Landssambandi kúabænda og Landbúnaðarháskólanum, en hefur frá árinu 2010 starfað utan landsteinanna bæði við kennslu og ráðgjöf í nautgriparækt. Undanfarin ár hefur hann unnið hjá danska afurðafélaginu Arla Foods við þróunaraðstoð félagsins í ýmsum löndum.

Frá Kína til Nígeríu
Snorri Sigurðsson í hópi innfæddra þátttakenda á námskeiði. Hlutverk Snorra er að uppfræða heimamenn um allt sem tengist mjólkurframleiðslu.

Síðustu þrjú árin var Snorri í Kína þar sem hann sá um kínverskt-danskt þróunarsetur nautgriparæktar í eigu Arla Foods og kínverska afurðafyrirtækisins Mengniu. Megin verkefnið í Kína var að aðlaga þarlenda mjólkurframleiðslu að nútíma búskaparháttum en þrátt fyrir að kúabúin í Kína séu mörg hver gríðarlega stór, með þúsundir kúa hvert þeirra, þá var framleiðni þeirra lág m.a. sökum skorts á ráðgjöf og almennri þekkingu á mjólkurframleiðslu.

Um síðustu áramót flutti Snorri svo ásamt eiginkonu sinni, Kolbrúnu Önnu Örlygsdóttur, til Nígeríu þar sem mjólkurframleiðslan er í dag afar frumstæð og innanlandsframleiðslan nær ekki einu sinni að sinna 10% af mjólkurneysluþörf landsmanna. Þar hefur Snorri það að aðalstarfi að sjá um hrávöruframleiðslu og -vinnslu Arla Foods, þ.e. frá grasi í glas eins og það er kallað.

Afurðafélag í þróunaraðstoð?

Það kann að virka hálf undarlegt að afurðafélag sé að sinna þróunaraðstoð en fyrir því eru ákveðnar skýringar að sögn Snorra.

„Arla Foods er mjög stórt fyrirtæki á sviði útflutnings mjólkurafurða frá framleiðslulöndum sínum í norðurhluta Evrópu og þegar mjólkurafurðir eru fluttar inn til landa sem flokkast sem þróunarlönd eru oft gerðar ríkar kröfur til innflutningsaðilans. Þessar kröfur eru langoftast samfélagskröfur, þ.e. að fyrirtækið sem er að flytja inn vörur taki þátt í að byggja upp þekkingu og kunnáttu í því landi sem verið er að flytja vörur til.

Stundum er einnig gerð krafa um fjárfestingar innflutningsfyrirtækisins í innviðum eða framleiðslu í viðkomandi landi. Þetta átti m.a. við um viðskipti okkar í Kína til margra ára og það var ástæðan fyrir því að ég var staðsettur þar síðustu 3 ár við ráðgjöf til þarlendra kúabænda, en Arla Foods er stórtækt á kínverska markaðinum og t.d. stærsti innflutningsaðili landsins á G-mjólk.“

Mjólkuriðnaðurinn í Kína hefur tekið miklum stakkaskiptum á aðeins örfáum árum og áratugum og eins og áður segir þá eru þar fjölmörg kúabú með þúsundir og upp í tugþúsundir kúa. Þrátt fyrir mikla stærð búanna var þekkingu verulega ábótavant og því fjárfesti Arla Foods í þekkingarmiðlun, ráðgjöf og námskeiðahaldi fyrir kínverska kúabændur.

Árið 2020 urðu hins vegar ákveðin vatnaskil í Kína þegar meðalkúabú landsins náðu í raun þeim árangri að standa jafnfætis eða jafnvel framar kúabúum í Evrópu hvað varðar afurðasemi kúa.

„Þegar litið er til helstu lykiltalna frá rekstri má einnig sjá að staðan í mjólkurframleiðslu Kína er í raun afar góð í dag og vegna þessara breyttu aðstæðna í Kína, og þeirrar staðreyndar að við höfðum í raun náð hreint ótrúlega góðum árangri með kínversku kúabúin sem við unnum með, lagði ég til að við myndum draga úr starfseminni þar. Ég mat það einfaldlega svo að það væri ekki lengur þörf fyrir okkur á þessum markaði og okkar tengiliðir hjá stjórnvöldum í Kína voru sammála þessu mati.“

Forsvarsmenn Arla Foods ákváðu því að færa meginþunga þróunarvinnu fyrirtækisins annað og efla starfsemina í Nígeríu, en auk þess vinnur félagið að þróunarverkefnum í öðrum löndum t.d. Eþíópíu, Indónesíu og Bangladesh.

Litlu mjaltavélarnar duga vel, en ný kúabú sem Arla Foods mun reisa í Nígeríu verða með allt öðrum hætti og öllu stærri í sniðum.



Afríka í heild sinni í miklum vexti

Aðspurður sagði Snorri að það þyrfti eiginlega að útskýra fyrst ákveðin grunnatriði varðandi Afríku og Nígeríu áður en hægt væri að fjalla um uppbyggingu Arla Foods í Nígeríu. Þannig hafi verið mikill uppgangur í Afríku undanfarin ár, en þó misjafnt eftir löndum enda heimsálfan gríðarlega stór, þrisvar sinnum stærri en Evrópa. Það sem er þó sérstakt við þessa heimsálfu er hve mikið af matvælum er flutt inn, en um 85% allra matvæla eru innflutt og gera áætlanir ráð fyrir því að þetta hlutfall muni haldast nokkuð óbreytt á komandi árum.

Heimsálfan í heild sinni er því áhugaverð fyrir alþjóðleg fyrirtæki í matvælaframleiðslu, en vandinn við sölu til Afríku er þó lítil kaupgeta þorra íbúa heimsálfunnar og m.a. vegna þess er vannæring mikil en talið er að um fimmtungur allra íbúa Afríku, um 250 milljónir, hafi búið við vannæringu árið 2019.

Nígería er svo það land Afríku sem er í hvað örustum vexti, en fjöldi íbúa þar er nú um 220 milljónir og er talið að íbúafjöldinn muni tvöfaldast á næstu tveimur til þremur áratugum. Þennan mikla fólksfjölda þarf eðlilega að metta, en vandamálið á sama tíma er að meðaltekjurnar á hvern íbúa eru ekki nema um 250-300.000 krónur á ári og fjölmargir með mun minni árslaun og því er það hreint ekki einfalt mál að eiga í sig og á þar í landi. Á sama tíma er verðbólgan í Nígeríu mjög mikil og til þess að draga úr útstreymi gjaldeyris og takmarka innflutning hefur nígeríska ríkisstjórnin bæði lagt á tolla og gjöld á innflutning og stjórnar því jafnframt hverjir geti fengið gjaldeyri til þess að kaupa vörur og flytja til landsins.

Duftlager. „Við flytjum inn tugi af gámum á viku og megnið af þeim innflutningi er mjólkurduft í sekkjum, sem er svo unnið áfram hér í verksmiðju Arla Foods í Nígeríu. Þar pökkum við duftinu í neytendaumbúðir af mismunandi stærðum, en umfangsmest er pökkunin á litlum einingum sem innihalda hæfilegt magn mjólkurdufts fyrir eitt glas af mjólk.“

Næringarlega hagkvæm matvæli

Til þess að geta brauðfætt íbúa landsins hefur ríkisstjórnin lagt gríðarlega þunga áherslu á að þau matvæli sem flutt eru til landsins séu svokölluð næringarlega hagkvæm matvæli, þ.e. mjög næringarrík matvæli en á sama tíma ódýr.

„Hér koma mjólkurvörur eðlilega sterkar inn og sér í lagi mjólkurduftið okkar en vegna stærðar Arla Foods og mikillar hagkvæmni í vinnslu höfum við getað boðið upp á einkar hagkvæman innflutning mjólkurdufts til Nígeríu.

Við flytjum inn tugi af gámum á viku og megnið af þeim innflutningi er mjólkurduft í sekkjum, sem er svo unnið áfram hér í verksmiðju Arla Foods í Nígeríu. Þar pökkum við duftinu í neytendaumbúðir af mismunandi stærðum, en umfangsmest er pökkunin á litlum einingum sem innihalda hæfilegt magn mjólkurdufts fyrir eitt glas af mjólk.

Pakkningin er einfaldlega tæmd í glas og svo bætt við vatni og hrært upp, rétt eins og þegar mjólk fyrir ungbörn er hrærð upp og margir kannast við.“

Skylda sett á innflutningsfyrirtækin

Vöxtur Arla Foods í Nígeríu er mikill, en innflutningur þess til þessa eina lands svarar til mörg hundruð milljóna lítra mjólkur. Það hefur svo leitt til þess að fyrirtækið er einnig að byggja upp viðamikla aðra starfsemi í landinu. Þetta er m.a. vegna fyrrgreindrar skyldu sem sett er á innflutningsfyrirtæki, um uppbyggingu landbúnaðarins í landinu.

Einnig vegna þess að Arla Foods leggur mikla áherslu á sjálfbærni og eigi að sinna markaðinum í Nígeríu til frambúðar þarf að efla nígeríska mjólkurframleiðslu. Arla Foods hefur því hafið stórfellda uppbyggingu á mjólkurframleiðslu og -vinnslu í landinu.

Við störf sín fyrir Arla Foods í Kína og Nígeríu hefur Snorri oft þurft að vera langdvölum fjarri fjölskyldu og vinum. Hér er fjölskyldan þó saman komin á góðri stundu. Talið frá vinstri: Rikke Jakobsen, Arnar Hrafn og Hafþór Freyr Snorrasynir. Þá Snorri Sigurðsson, Kolbrún Anna Örlygsdóttir og Tinna Rós Snorradóttir sem heldur á Lilju Arnarsdóttur-Jakobsen.

Fjórþætt verkefni

Að sögn Snorra er verkefnið í raun fjórþætt.

„Verkefnið byggir á því að við höfum í fyrsta lagi tekið að okkur að aðstoða fylkið Kaduna, sem er í norðurhluta Nígeríu, við að byggja upp mjólkurframleiðslu þess og það ætlum við að gera með því að hlúa að núverandi framleiðslu og framleiðsluháttum sem byggja á mörg hundruð ára hefðum heimamanna.

Í öðru lagi þá ætlum við að byggja okkar eigið fjós með eigin framleiðslu.

Í þriðja lagi þá munum við byggja upp afurðavinnslu á svæðinu og síðast en ekki síst þá komum við að uppbyggingu á eitt þúsund kúabúum heimamanna.“

Fornir búskaparhættir

„Við byrjuðum á því að taka yfir afurðastöðvarekstur samvinnufélagsins Milcopal, sem var þegar með starfsemi í Kaduna. Það var okkar mat að þetta félag, og sá rekstur sem félagið var með, myndi henta okkar rekstri einkar vel og náðist samkomulag um að við myndum taka að okkur rekstur þess. Með því fengum við afurðastöð sem er í framleiðslu á fersku jógúrti, auk mjólkursöfnunar í nærumhverfi borgarinnar þar sem ókæld mjólk er sótt daglega til bænda.

Þetta kerfi sem við erum með er svolítið eins og þekktist á Íslandi fyrir nokkrum áratugum, þegar bændur stilltu mjólkurbrúsum upp á brúsapall við heimreiðina. Við sendum söfnunarbílana af stað á morgnana og þeir keyra sínar föstu og fyrirfram skipulögðu leiðir og þeir bændur sem vilja selja okkur mjólk þann daginn mæta á fyrirfram ákveðna stoppustaði og afhenda bílstjórunum mjólkina og er magnið frá 1-2 lítrum og upp í nokkra tugi lítra hjá hverjum bónda.“

Kúabændur landsins eru hirðingjar

Mjólkurframleiðslan í Nígeríu er borin uppi af hirðingjum sem flakka um landið með hjarðir sínar og elta gróðurþekjuna eftir því sem hún þróast og breytist í takti við breytingar á veðurfarinu. Veðurfarsskilyrðin í Nígeríu eru raunar einstök og henta landbúnaðarframleiðslu vel enda landið nærri miðbaug og hitafar því einkar stöðugt.

Vandamálið er þó úrkoman í landinu en árstíðunum er skipt upp í rigningartímabil og svo þurrkatímabil.

Þegar rigningartímabilið stendur, þá er hægt að rækta og framleiða nánast allt sem hugurinn girnist en þegar þurrkatímabilið tekur við, en það stendur í 7-8 mánuði, hættir nánast öll framleiðsla. Landið er þó ríkt af vatni sem nota mætti til vökvunar, en skortur á innviðauppbyggingu og almenn fátækt gerir það að verkum að þessir kostir landsins eru gríðarlega vannýttir í dag.

Handmjaltir algengastar

Mjólkurframleiðslan sjálf fer að langstærstum hluta fram með hvíta Fulani kúakyninu, en það er smágert kúakyn og t.d. töluvert minna en það íslenska. Fulani nautgripir eru gríðarlega harðgerðir og geta lifað af mjög lítilli beit en afurðasemi þeirra er að sama skapi lítil og er algengt að meðalafurðir kúnna sé um 2-4 lítrar á dag. Kýrnar ganga flestar með kálfa í marga mánuði og er kálfunum haldið frá þeim frá kvöldi til morguns og þá eru þær handmjólkaðar. Síðan er farið með mjólkina, ferska og ókælda, í veg fyrir mjólkursöfnunarbílinn og hún afhent.

Uppbygging Arla Foods í Nígeríu hófst með því að yfirtaka rekstur samvinnufélagsins Milcopal í Kaduna. Hér má sjá einn af sölustöðum fyrirtækisins og á myndinni til hliðar er vel merktur sendibíll.

Aðstöðuuppbygging

Að sögn Snorra var mikilvægt að bæta úr þeirri aðstöðu sem bændurnir í Kaduna höfðu aðgengi að fyrir skepnur sínar og því réðst Arla Foods í það að byggja upp mjaltaaðstöðu á fjórum mismunandi stöðum svo bændurnir gætu haft möguleika á því að mjólka kýrnar með mjaltavélum. Á hverri stöð er svo mjólkurtankur þar sem mjólkinni er safnað í og hún kæld. Fyrir vikið getur félagið sótt mjólk á öðrum tímum en morgnana, en það breytir miklu upp á hagkvæmni við mjólkursöfnunina. Þá eru við þessar fjórar byggingar einnig borholur þar sem vatni er dælt upp í ker og því hægt að brynna skepnum þar. Það var talið nauðsynlegt til að geta aukið mjólkurframleiðslu svæðisins enda vatn mikilvægasti hluti mjólkurframleiðslunnar. Á beitarsvæðunum er oft afar langt á milli lækja eða vatna og því breytti það miklu fyrir bændurna að fá aðgengi að góðri brynningaraðstöðu.

Snorri með námskeið fyrir innfædda þar sem salnum var skipt upp eftir kyni. Vegna menningarinnar meðal hirðingjanna eru námskeiðin kynjaskipt og skipti þá mestu fyrir Snorra og hans fólk hjá afurðafyrirtækinu Arla Foods að ná til kvennanna. Ástæðan er að kýrnar eru í eigu karlanna en mjólkin er kvennanna.

Námskeið og endurmenntun nauðsynleg

Hirðingjasamfélögin í Nígeríu eru ótal mörg og skipta þúsundum og þrátt fyrir að bændurnir hafi sjáanlegan ávinning af því að vinna saman þá hefur það lítið gengið og raunar oft sem þeim lendir saman vegna þess að beitarlandi fer fækkandi ár frá ári. Arla Foods hefur því lagt áherslu á endurmenntun og námskeiðahald til að bæði auka þekkingu bændanna á mjólkurframleiðslu en ekki síður til þess að fá þá til að vinna saman.

Þar sem flestir bændanna eru bæði ólæsir og ekki ritfærir hefur það ekki beint gert þennan þátt auðveldan að Snorra sögn.

„Við höfum haldið mörg námskeið fyrir bændurna og þrátt fyrir að ég hafi nú áratuga reynslu af námskeiðahaldi fyrir bændur hefur þetta reynt vel á. Allt efni þarf að
aðlaga að þeirri staðreynd að bændurnir eru ólæsir og því hef ég mest stuðst við myndir. Þá hjálpar ekki að bændurnir á svæðinu sem við störfum á tala fæstir ensku og því þarf að þýða allt sem er líka ákveðin áskorun í raun.

Vegna menningarinnar meðal hirðingjanna eru námskeiðin kynjaskipt og í öllu falli er salnum skipt upp eftir kyni og fyrir okkur skiptir allra mestu máli að ná til kvennanna. Hér er það nefnilega þannig að kýrnar eru í eigu karlanna en mjólkin er kvennanna. Því gerum við mikið í því að fá þær til að auka þekkingu sína á mjólkurframleiðslunni og skilning þeirra á mikilvægi þess að bændurnir standi saman s.s. varðandi ræktun í stað þess að elta gróðurþekju. Þetta átak okkar hefur þegar skilað árangri og samvinna bændanna hefur aukist nánast dag frá degi, nokkuð sem var næsta óhugsandi fyrir einungis örfáum árum.

Fyrsta kúabúið í eigu Arla Foods

Eitt stærsta verkefni Arla Foods í Nígeríu núna er að byggja upp og stórauka mjólkurframleiðsluna og er það gert með tvennum hætti. Annars vegar með því að byggja upp eigið kúabú en það er í fyrsta skipti í sögu félagsins, sem nær aftur til ársins 1889, að félagið verður með eigin mjólkurframleiðslu. Kúabúinu var fundinn staður í norðausturhluta Kaduna fylkis, á svæði sem heitir Damau en það hafði áður verið tekið frá fyrir tilraunaverkefni í skógrækt sem rann út í sandinn. Damau svæðið er alls um 9 þúsund hektarar og hefur Arla Foods þar umráðarétt yfir um 400 hekturum en hinn hluti landsins verður nýttur fyrir uppbyggingu á 1.000 nýbýlum.

Ræktunarstarf á vegum Arla Foods í Damau svæðinu í Kadunafylki í Nígeríu. Hér má sjá hvernig landið var áður en ræktun hófst og síðan eftir að ræktun er farin að skila árangri. Damau svæðið er alls um 9 þúsund hektarar og hefur Arla Foods þar umráðarétt yfir um 400 hekturum en hinn hluti landsins verður nýttur fyrir uppbyggingu á 1.000 nýbýlum. Þorri þess lands sem Arla Foods fékk hefur aldrei verið notað til landbúnaðar og því óhemju vinna í því að gera það tækt til slíkra nota.

Kúabú með 450 kúm líklega stækkað í 1.000 kúa bú

„Við erum núna að byggja upp kúabú með 450 kúm en ég geri frekar ráð fyrir því að við stækkum það í um 1.000 kýr þegar frá líður enda mun landið sem við höfum geta staðið undir mun fleiri en þessum 450 kúm. Þetta er gríðarlega umfangsmikið verkefni enda erum við að byggja upp á svæði þar sem hvorki voru vegir, brýr né nokkur aðstaða. Við þurfum því bæði að byggja fjós, alla aðstöðu starfsfólks, mötuneyti, girðingar og þess háttar. Þá hefur þorri þess lands sem við fengum aldrei verið notað til landbúnaðar og því óhemju vinna í því að gera það tækt til landbúnaðar. Um helmingur þess lands sem við erum með var alsett runnagróðri
sem hefur verið mikil vinna í að hreinsa upp.

Í dag er þó góður gangur í þessu og við erum núna með um 160 hektara tilbúna þar sem við ræktum bæði gras, maís og hrísgrjón. Hrísgrjónin eru til manneldis enda á landi sem flæðir yfir þegar rigningartímabilið er en annað land er allt fyrir gróffóðuröflun kúnna.“

Kúnum flogið til landsins

Þar sem kúakynið í Nígeríu er mjög afkastalítið og hentar ekki fyrir nútíma kúabúskap sagði Snorri að Arla Foods muni kaupa kvígur af kúabændum sem eru í eigendahópi félagsins og fljúga þeim til Nígeríu. Keyptar verða kvígur af Holstein Friesian kyni og ættu þær að una sér vel á nýja kúabúi Arla Foods. Enda verður aðstaðan öll til fyrirmyndar og þannig verður t.d. fullkominn kælingarbúnaður í fjósbyggingunum svo útihitastigið ætti ekki að hafa teljandi neikvæð áhrif á framleiðsluna.

Hirðingjar með bústofn sinn í Nígeríu. Mjólkurframleiðslan sjálf fer að langstærstum hluta fram með hvíta Fulani kúakyninu, en það er smágert kúakyn og t.d. töluvert minna en það íslenska. Þar sem kúakynið í Nígeríu er mjög afkastalítið og hentar ekki fyrir nútíma kúabúskap sagði Snorri að Arla Foods muni kaupa kvígur af kúabændum sem eru í eigendahópi félagsins og fljúga þeim til Nígeríu. Keyptar verða kvígur af Holstein Friesian kyni og ættu þær að una sér vel á nýja kúabúi Arla Foods.

1.000 ný kúabú

Eins og áður segir er verið að koma upp nýbýlum á Damau svæðinu og verða þar alls 1.000 kúabú. „Þetta er verkefni sem við erum að veðja svolítið á en það er fylkisstjórn Kaduna sem sér um þessa uppbyggingu. Hugmyndin er að koma upp kúabúum með 5 hektara landi og aðstöðu fyrir allt að 8 kýr auk íbúðarhúss. Svo verður kúabændum, sem eru hirðingjar í dag, boðið upp á að setjast þarna að. Hið forna líf hirðingja er brátt á enda þar sem það þrengir að öllu landi sem ekki er í notkun.

Þá má rekja töluvert af glæpum og óöryggi í landinu til hirðingja og árekstra á milli þeirra og landeigenda svo ríkisstjórnin hefur boðað öllum fylkjum að stöðva þetta form landbúnaðar innan fárra ára. Við lögðum því til að reyna þessa aðferð, koma upp góðri aðstöðu og bjóða bændum að setjast þar að. Þeir fá þó ekki neitt ókeypis og munu þurfa að kaupa aðstöðuna hægt og rólega af fylkisstjórninni.

Við munum svo sjá um að safna mjólkinni og vinna úr henni. Til þess að geta safnað mjólk frá 1.000 bændum af litlu svæði reikna ég með að við komum upp miðlægum stöðvum þar sem bændurnir geta komið daglega með mjólk til okkar. Þar myndum við gæðameta innleggið, kæla niður mjólkina og svo keyra hana í afurðastöðina okkar. Þetta er reyndar enn í mótun en mér finnst líklegt að þetta verði niðurstaðan enda stutt í að við verðum að hefja framkvæmdir, en reiknað er með að fyrstu bændur setjist að í Damau næsta haust.“

Daglegt líf í Nígeríu er ekki eins frjálslegt og á Íslandi, því þar fer Snorri ekki spönn frá rassi nema í fylgd vopnaðra lífvarða.

Mikill munur á Kína og Nígeríu

– En hver er nú helsti munurinn á því að búa annars vegar í Kína og hins vegar í Nígeríu?

„Það er mikill munur á þessum tveimur löndum. Í fyrsta lagi er veðurfarið sérstakt hér en þar sem við búum við Atlantshafið er hitastigið allan ársins hring mjög stöðugt og þetta frá 27-28 gráðum og upp í 32-33 gráður. Frekar sérstakt að vera alltaf í sama hita! Þá er þjóðfélagsástandið auðvitað gríðarlega erfitt og samhliða mikilli fátækt og skorti á allri innviðauppbyggingu þá er óðaverðbólga mikið vandamál. Hér hefur t.d. gengið gjörbreyst á nokkrum vikum og matvörur hækkað um tugi prósenta síðan í vor. Þá eru öryggismálin klárlega mikið vandamál líka og þó svo að það sé passað vel upp á okkur og fólki óhætt hér í þéttbýlinu í Lagos, þar sem við búum, þá hefur fátæktin og þjóðfélagsástandið leitt til þess að glæpir eru mjög algengir og sérstaklega utan þéttbýlisins.

Fréttir af mannránum og þess háttar hörmungum berast því miður öðru hverju og við þurfum því að fara varlega. Þannig er það að þegar ég ferðast í norðurhluta landsins þá er það alltaf í fylgd þungvopnaðra lífvarða og öryggisbíla. Það er því miður nauðsynlegur hluti þess að geta sinnt þessu starfi. Ég hef þó aldrei upplifað nokkuð sem gæti minnt á hættu en Arla Foods tekur ekki nokkra áhættu svo þetta þarf einfaldlega að vera svona.“

Verkefnið tekur mörg ár

Aðspurður um tímalengd verkefnisins sagði Snorri að það muni taka mörg ár að ná þeim markmiðum sem Arla Foods hafi sett sér í Nígeríu.

„Við miðum við að ná þetta 60-70 milljón lítra framleiðslu á ári frá Damau svæðinu en það verður þó ekki fyrr en eftir 7-8 ár. Við erum líka að fara yfir og skipuleggja afurðavinnsluna og ég reikna með að við byrjum að byggja nýja afurðastöð hér strax á næsta ári. Sú stöð verður væntanlega með afkastagetu upp á um 100 milljónir lítra árlega og ætti því að duga okkur í a.m.k. 10 ár. Þá þarf að skipuleggja og koma upp slátrunaraðstöðu sem samræmist velferðarkröfum Arla Foods svo það eru ýmis áhugaverð verkefni fram undan hjá okkur næstu mánuðina og árin. Mitt verkefni er að koma þessu af stað og að þjálfa upp heimamenn sem geta svo tekið við og séð um þetta í framtíðinni. Þegar þetta verður komið í góðan farveg er svo hugmyndin að ég haldi annað, en haldi þó áfram að sinna þróunarvinnu fyrir Arla Foods.

Hvar það verður kemur svo bara í ljós enda er aðalfókusinn núna á Nígeríu hjá okkur. Við ætlum okkur að ná árangri hér og gera allt sem við getum til að byggja upp sterka mjólkurframleiðslu í Nígeríu. Það mun taka bæði tíma og orku en ég hef fulla trú á verkefninu,“ sagði Snorri að lokum í viðtali við Bændablaðið.

Skylt efni: Nígería | Arla Foods

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...